16.01.1952
Sameinað þing: 32. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 791 í B-deild Alþingistíðinda. (1134)

169. mál, fjáraukalög 1949

Jón Pálmason:

Herra forseti. Mér þykir ástæða út af þessum athugasemdum hv. þm. Barð. að segja hér nokkur orð og af því að á síðasta þingi var nokkuð deilt um þessi mál.

Eftir því, sem ég veit bezt, þá hefur það alla tíð verið skoðað sem hreint formsatriði og sem sjálfsagt mál að samþ. fjáraukal., því að fjáraukal. eru aðeins töluskýrsla um þær umframgreiðslur, sem ríkisreikningarnir sýna. Og deilur um það eiga að mínu áliti alls ekki að vera til á Alþingi, nema þá að töluvillur séu í frv. Þetta er svo eðlilegur hlutur, að það er fullkominn óþarfi að vera með deilur um fjáraukalögin. Það hafa löngum verið deilur um ríkisreikningana, og þær deilur eru eðlilegar. En ég vil leggja áherzlu á það, að hv. þm. ættu ekki að fara að tvöfalda þessar deilur með því að fara að deila líka út af fjáraukal., því að þau hafa alltaf verið skoðuð sem formsatriði. En allar deilur hafa verið í sambandi við ríkisreikningana sjálfa.

Þetta vildi ég láta koma fram til þess að koma í veg fyrir, að fjvn. fari að eyða tíma í miklar deilur út af fjáraukal.