23.01.1952
Sameinað þing: 35. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 793 í B-deild Alþingistíðinda. (1139)

169. mál, fjáraukalög 1949

Frsm. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Fjvn. hafði fremur lítinn tíma til að athuga málið, þar sem því var vísað til hennar 16. þ. m. og síðan hafa verið miklar þingfundasetur, eins og kunnugt er, auk þess sem n. hafði nokkrum öðrum málum að sinna.

N. hefur borið þetta frv. saman við ríkisreikninginn 1949 og leggur til, að frv. verði samþ. með þeim breytingum, sem fram eru settar á þskj. 747.

Fjáraukalagafrv. er nú fram borið í nokkuð öðru formi en verið hefur nokkur s.l. ár. Það hefur nú verið upp tekinn sá háttur að leita samþykkis Alþingis fyrir umframgreiðslum á hverjum útgjaldalið fjárlaga. Er þessi breyting tekin upp samkv. ábendingu fjvn. á síðasta þingi. Hins vegar er frv. að sumu leyti tölulega ógreinilegra en ástæða er til. Vil ég þar benda á, að frádrátt og útfærslu talnanna vantar, en niðurstaðan birt í lok 2. gr. Enn fremur er samtala frv. ekki tilfærð sérstaklega, og er þetta leiðrétt af n.

Af tölulegum leiðréttingum, sem gerðar eru á frv., eru þessar helztar:

Við 2. gr. Á liðnum áfengisverzlun, laun starfsmanna, er vantalið um 37053.50 kr. — Liðurinn tóbakseinkasala er vanreiknaður um 30 kr. — Ríkisútvarpið er oftalið um 14353.20 kr., en það er hallinn á rekstri viðgerðarstofunnar. N. leit svo á, að óþarft væri og rangt að leita hér sérstakrar heimildar fyrir þessari umframgreiðslu útvarpsins, þar sem annars staðar í frv. er leitað umframgreiðslu á öllu varðandi viðgerðarstofuna. Ef þetta hefði verið látið gilda, hefði í raun og veru tvisvar sinnum verið leitað fjáraukalagaheimildar fyrir þessu. — Skekkja er á liðnum um grænmetisverzlunina, eru umframgreiðslur oftaldar um 1 kr. — Framantaldar leiðréttingar valda þess vegna því, að niðurstöðutala 1. gr. frv., sem varðar rekstur ríkisfyrirtækja, hækkar í 15014768.40 kr.

Þá eru leiðréttingar á frv. varðandi hina eiginlegu rekstrarreikningsgrein.

6. gr. frv., tollstjóraembættið í Reykjavík, er 43326.96 kr. hækkun frá því, sem er á frv.

Í 7. gr., landsspítalinn, eiga umframgreiðslurnar hjá honum að færast út, en þær eru 500772.15 kr. — Sama er að segja um umframgreiðslur heilsuhælisins á Vífilsstöðum, 35961.18 krónur.

8. gr. Umframgreiðslur varðandi flugmál hækka um 488718.13 kr. En tekið er fram til upplýsingar, að tekjur stofnunarinnar hafi farið að sama skapi fram úr áætlun.

Vegna þessara leiðréttinga á 3.–14. gr. frv. hafa niðurstöðutölur þessara greina hækkað í 45878401.93 kr. En sú fjárhæð, sem samkvæmt 2.–14. gr. frv. er leitað heimildar fyrir, hefur þá samtals hækkað í 60893170.33 kr.

Til viðbótar við þetta eru umframgreiðslur á 20. gr., 73686782.52 kr. Nemur þá fjáraukalagaheimildin fyrir árið 1949 samtals 134579952.85 kr. Þó að þessi upphæð sé há, má segja, að með tilliti til fjárlaga sé þessi niðurstaða hvorki lakari né betri en algengt hefur verið mörg undanfarin ár.

Þetta eru þær tölur, sem ég taldi rétt að gera grein fyrir. En í sambandi við þetta vil ég lýsa því yfir sem minni skoðun, að mér virðist það óheppileg venja að taka ekki upp í fjárlög rekstraráætlun fyrir ríkisbúin önnur en Bessastaði. Með því fyrirkomulagi þarf að leita fjáraukalagaheimildar á hverju árí fyrir öllum rekstrarkostnaði búanna. Virðist óeðlilegt og óþarft að hafa þetta þannig. — Þá tel ég rétt að geta þess, að við samanburð á fjáraukalagafrv. við ríkisreikninginn var því veitt athygli, að tilraunastöðin á Keldum hefur ekki skilað reikningi fyrir árið 1949. Er því uppgjör stofnunarinnar aðeins byggt á þeirri fjárhæð, sem hún hefur fengið á árinu borgaða úr ríkissjóði. En greiðslan er eðlilega byggð á þeim tölum, sem fyrir liggja. En ef maður athugar ríkisreikninginn með tilliti til þeirra tekna, sem gert er ráð fyrir, er augljóst, að fjáraukalagaheimildin, sem sett er fram í frv. vegna þessarar stofnunar, er vantalin um allt að 100 þús. kr. Þetta atriði getur hver og einn athugað, ef hann lítur á ríkisreikninginn frá s.l. árí. Ég leit á reikninginn fyrir 1950 og sá, að þessi stofnun hefur skilað reikningi fyrir það ár, og þess vegna er sjáanlegt, að það er ekki ástæða til, að hjá henni verði misbrestur í þessu atriði framvegis. — En við samanburð frv. við ríkisreikninginn sást enn fremur, að sandgræðslan á 16. gr. A. hefur ekki heldur skilað rekstrarreikningi fyrir þetta ár. Við nánari athugun upplýstist, að sú stofnun hefur ekki skilað rekstrarreikningi nú samtals í 4 ár. Þó að fjáraukalög séu bara formsatriði, þá er venjan að telja, að þau eigi að byggjast rétt upp. Það má í raun og veru teljast furðulegt, að þessari stofnun skuli haldast uppi vítalaust ár eftir ár að skila ekki sínum rekstrarreikningi.

Ég hef svo ekki meira um þetta mál að segja, en endurtek þá till. fjvn., að hún leggur til, að frv. verði samþ. með þeim breytingum, sem hér hafa verið lagðar fram.