14.01.1952
Neðri deild: 58. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 796 í B-deild Alþingistíðinda. (1150)

167. mál, fasteignaskattar til sveitarsjóða

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér í sambandi við þetta frv., áður en það fer til n., að óska eftir upplýsingum frá hæstv. ríkisstj. um það, hvernig hún hugsar sér framkvæmdir í sambandi við þetta frv., ef einnig verður samþ. frv. um endurskoðun fasteignamatsins, sem fjhn. flytur að tilhlutun hæstv. fjmrh.

Ef við gerum ráð fyrir því, að bæði þessi frv. verði samþykkt hér á Alþ., sem er engan veginn óhugsandi, þar sem hæstv. ríkisstj. stendur að þeim báðum, hvernig hugsar hæstv. ríkisstj. sér þá að hafa framkvæmdirnar á þessu? Mér skilst, að ef lögin um fasteignamatið verða samþykkt og það endurskoðað og því breytt, þá hljóti líka þetta frv. að þýða 400% álag, miðað við það endurskoðaða fasteignamat. Þannig get ég ekki séð, hvernig það má fara saman, að hæstv. ríkisstj. beiti sér fyrir samþykkt beggja frv. óbreyttra.

Það er sjálfsagt svo, að það frv., sem nú liggur hér fyrir, er hugsað þannig, að það komi í staðinn fyrir endurskoðun fasteignamatsins, en það er erfitt um afgreiðslu þessara mála, meðan þau liggja bæði fyrir þinginu óbreytt.

Ég skal ekki ræða þetta mál nánar að sinni, því að það fer til n., sem ég á sæti í, en það er bara þetta formlega spursmál, sem mig langar til þess að fá upplýsingar um.