14.01.1952
Neðri deild: 58. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 797 í B-deild Alþingistíðinda. (1152)

167. mál, fasteignaskattar til sveitarsjóða

Forsrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Hv. 2. þm. Reykv. spurði um það, hvernig yrði um framkvæmdir, ef lög yrðu jafnframt sett um fasteignamatið. Meinar hv. þm. það frv., sem hefur verið hér langan tíma til umr. í þingdeildinni, og það frv sem nú liggur fyrir? En ég sé ekki, að þessi frv. fari í bága hvort við annað, og samþykkja mætti þau bæði. Það yrði aðeins að gera lítils háttar breytingu á því frv., sem hér liggur nú fyrir. Bæjarstjórn Akureyrar hefur lagt á það áherzlu að fá tekjur af þessari ráðstöfun á yfirstandandi ári, og þótt endurskoðun fasteignamatsins verði samþykkt og fari fram, þá koma ekki inn neinar auknar tekjur af því á þessu yfirstandandi ári. Það þarf því ekki annað en gera örlitla breyt. á orðalagi þessa frv., þar sem tekið sé fram, að það miðist við núgildandi fasteignamat, og ég tel sjálfsagt, að sú n., sem fær þetta mál til meðferðar, lagfæri þetta, þegar hún sér, hvað verður um framgang þess frv., sem hér liggur fyrir.

Mér finnst ekki ástæða til að koma verulega inn á það, sem hv. 3. landsk. (GÞG) sagði, þar sem hann óskaði að mestu leyti upplýsinga um það sama og hv. 2. þm. Reykv. Öllum hv. þm. er kunnugt um þau frv., sem hér liggja nú fyrir Alþ., og það er hlutverk þess að ákveða, hvað verður ofan á í þessu efni, og afgreiða þessi mál. Það eru deilur um þetta, og það verður hlutverk Alþ. að velja um og skera úr. hvort frv. verði ofan á. En frv. það, sem nú liggur hér fyrir, er flutt eftir ósk bæjarstjórnarinnar á Akureyri til þess að fá skattana hækkaða nú á þessu ári, og ríkisstj. leit svo á, að sjálfsagt væri að leyfa þessu bæjarfélagi og öðrum að leggja skatta á á þann hátt, sem hér er farið fram á. Það er tilgangur þessa frv. að leyfa þessa skattahækkun á því ári, sem nú er að byrja, og er það ekki í neinni mótsögn við önnur frv. hér eða til fyrirstöðu á endurskoðun fasteignamatsins, sem kann að fara fram síðar.