18.01.1952
Neðri deild: 61. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 798 í B-deild Alþingistíðinda. (1155)

167. mál, fasteignaskattar til sveitarsjóða

Frsm. meiri hl. (Sigurður Ágústsson):

Herra forseti. Á þskj. 593 hefur hæstv. ríkisstj. að beiðni bæjarstjórnar Akureyrar flutt frv. um heimild fyrir bæjar- og sveitarsjóði að innheimta fasteignagjöld með álagi. Það hlýtur að vera öllum hv. þm. ljóst, hvílíkir erfiðleikar eru víðs vegar um land fyrir bæjar- og sveitarsjóði að afla sér tekna til að standa straum af sívaxandi útgjöldum. Frv. þetta heimilar 400% álag á alla skatta, sem miðaðir eru við fasteignamat, að vatnsskatti undanskildum.

Fjhn. hefur haft þetta frv. til meðferðar og gat ekki orðið á eitt sátt um afgreiðslu þess. Meiri hl. leggur til, að frv. verði samþ. með þeirri breytingu á 1. gr., að í stað orðanna „skatta, sem miðaðir eru við fasteignamat“ komi: skatta og önnur gjöld, sem miðuð eru við fasteignamat. — Meiri hl. leggur til, að frv. verði samþ. með þessari breytingu, en minni hl., hv. 2. þm. Reykv., hefur gefið út sérstakt nál. á þskj. 637, sem hann mun mæla með.