18.01.1952
Neðri deild: 61. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 798 í B-deild Alþingistíðinda. (1156)

167. mál, fasteignaskattar til sveitarsjóða

Frsm. minni hl. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Við höfum ekki getað orðið sammála um afgreiðslu þessa frv. Ég hef gefið út nál. á þskj. 637. Ástæðan til, að ég er andvígur þessu frv., er ekki sú, að ég álíti ekki almennt réttlætanlegt að afla tekna í ríkissjóð og bæjarsjóði með hækkuðum fasteignagjöldum, hvort heldur það er gert með því að hækka matið eða þau gjöld, sem leyfilegt er að leggja á. Almennt séð eru fasteignirnar eðlilegur gjaldastofn, en hér er um að ræða að tvennu leyti sérstakar kringumstæður í okkar þjóðfélagi. Í fyrsta lagi held ég að sé óhætt að segja, að nú sem stendur sé enginn möguleiki fyrir eigendur fasteigna að fá lán út á sínar fasteignir. Í öllum borgaralegum þjóðfélögum, þar sem ég þekki til, er auðvelt fyrir mann, sem á sæmilega fasteign, að fá lán út á slíka eign. Þegar því fasteignagjöldin nú eru innheimt, er ekki hægt að greiða þau með húsum eða lóðum, heldur verður að greiða þau með peningum. Þetta, hve erfitt er að fá lán, veldur því, að allt, sem við kemur fasteignum, er allt öðruvísi en í okkar nágrannalöndum. Það þekkist ekki í okkar nágrannalöndum, að menn, sem eiga hús og aðrar fasteignir, geti ekki fengið lán út á þær. Með slíkum aðstæðum, sem hér eru, er eignin gerð einskis virði, svo framarlega sem eigi að greiða einhverja fjárhæð, nema með því að selja hana, og þá er það svo, að engir geta keypt nema örfáir menn. Margir hafa lagt út í það að reyna að eignast fasteign, oft af litlum efnum, í trausti þess að geta unnið fyrir afborgununum. Hér í Reykjavík er fjöldi manna, sem þannig er ástatt um, að þeir hafa ekki getað fengið lán nema til 10 eða 15 ára og verða því að borga lánið upp á óeðlilega stuttum tíma. Og nú þegar atvinnuskorturinn vex og dýrtíðin vex, stendur þannig á, að jafnvel smáupphæðir geta munað því, hvort fasteignin verður áfram eign þessara manna. Ég álít því, að hækkun á fasteignagjöldunum, sem þó er eðlileg, geti haft þær afleiðingar, að ýmsir slíkra manna, sem raunverulega eru bjargálna menn, missi sínar eignir. Ég þekki persónulega til manna, sem eiga smáhús, sem á normal-tímum væru seljanleg fyrir 300 þús., skulda í þeim 150–170 þús., en eru nú vegna skatta, dýrtíðar og atvinnuleysis í vandræðum með að halda þeim, og hvað eftir annað er auglýst á þeim uppboð vegna smáskulda, vegna þess að enginn banki vill lána út á hús nú sem stendur. Það eru því fjöldamargir, sem missa þessar eignir út úr höndunum á sér, þó að þeir eigi í þeim kannske 200 þúsund. Það er ekki í þágu þjóðfélagsins að rýja þannig menn, sem eru að reyna að verða efnahagslega sjálfstæðir. Hins vegar vil ég taka fram, að svo framarlega sem er þarna kippt í lag og mönnum gert kleift, ef um smáeign er að ræða, að fá lán sem svarar helmingi af eðlilegu mati slíkrar eignar, er ég síður en svo að sjá eftir þeim mönnum að greiða hækkuð gjöld, jafnvel þó að þeir þurfi að taka lán til þess, og það er ekki nema eðlilegt, og það er sérstaklega eitt, sem mælir með því, og það er, að það er fjöldi af stóreignamönnum, sem eiga miklar fasteignir og sleppa nú sem stendur vel við skatta. Ég get vel skilið þann tilgang ríkisstj. með þessari till. að ná betur til slíkra manna. En ég vil ekki vinna það til, ef það kostar að hrinda mörgum, sem unnið hafa baki brotnu til að eignast eitthvað, niður í örbirgð. Það er nokkurn veginn gefið hvað fasteignamatið snertir, að það breytist á næstunni, og það er eðlilegur hlutur, en með þessu frv. er verið að heimila þeim bæjarstjórnum, sem það vilja nota, að fjórfalda öll gjöld, sem þær mega leggja á eftir fasteignamatí, og það finnst mér ekki réttlátt eins og aðstæður eru nú. Hins vegar strandar þessi breyting, sem er eðlileg, sérstaklega á lánsfjárbanninu, sem er óeðlilegt ástand og hefur þær afleiðingar, ef það heldur áfram, að rýja smám saman þá alþýðumenn, sem hafa verið að eignast eitthvað, og safna öllum eignum í hendur fárra stórgróðamanna. Þetta vildi ég segja út af því prinsip-atriði, er í þessu felst og gerir það að verkum, að ég er frv. andvígur. Hins vegar er hugsanlegt, að þetta frv. yrði í framkvæmdinni ekki eins varasamt, ef fáar bæjarstjórnir notuðu það, en ég óttast, að það yrði notað þar, sem sízt skyldi, en sleppt annars staðar, þar sem hægt væri að gera það með meiri rétti. Þær bæjarstjórnir, sem yrði gefinn þessi réttur, hafa í útsvarsálögum meiri rétt til að taka tillit til efnahags manna en ríkisvaldið í álagningu eignarskattsins. — Ég vil því, miðað við þær aðstæður, sem nú eru, leggjast gegn því, að frv. verði samþ.