19.01.1952
Neðri deild: 64. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 803 í B-deild Alþingistíðinda. (1168)

167. mál, fasteignaskattar til sveitarsjóða

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Ég vil ekki láta hjá líða að segja nokkur orð í tilefni af þessu máli, áður en það fer frá þessari hv. d.

Eins og hv. dm. er kunnugt, var ég aðili að brtt. varðandi frv. um endurskoðun fasteignamatsins. Það mál er að vísu úr sögunni, og ég skal ekki gera það að umtalsefni, en í einni brtt., sem við bárum fram, voru ákvæði þess efnis, að ekki skyldi hækka gjöld, sem miðuð eru við fasteignamat, nema með sérstökum breyt. á gildandi lögum. Sú skoðun virtist ríkjandi hjá meiri hl. þm. í þessari hv. d., að þessi breyt. væri eðlileg. Það má segja, að þetta hafi ekki verið yfirlýsing frá þm. um það, að þeir mundu ekki greiða atkv. með sérstökum breyt. En mín hugmynd með brtt. var sú að vinna gegn því, að gjöldin hækkuðu að krónutölu. Ég vildi, að þau lækkuðu hlutfallslega, ef fasteignamatið yrði hækkað.

Rétt í því, að frv. um fasteignamat var vísað hér frá með rökst. dagskrá, kemur svo frv. frá hæstv. ríkisstj. um að heimila sveitarstj. að fimmfalda öll þessi gjöld. Það er gert ráð fyrir því að innheimta með álagi öll gjöld, sem miðuð eru við fasteignamat, en að hin verði óbreytt.

Ég greiddi ekki atkv. við 2. umr. um till. hv. þm. A-Húnv. um að vísa þessu máli frá. Ég taldi annmarka á því, þar sem málið er borið fram sem stjfrv. og ætla má, að öll hæstv. ríkisstj. standi að frv. Þess vegna er erfitt fyrir stuðningsmenn hæstv. stj. að vera á móti málinu. En ég vil ekki láta hjá líða að geta þess, að ég er andvígur þessu frv. að efni til, og ég er hissa á því, að nokkur bæjarstjórn skuli hugsa sér að fimmfalda öll þessi gjöld, eins og bæjarstjórn Akureyrar ætlar að gera.

Þetta mál er nokkuð annars eðlis en hækkun fasteignamatsins. Af því hefði leitt af sjálfu sér hækkun þessara gjalda, en hér er það á valdi bæjarstjórna, hvort gjöldin hækka, þó að áhrifin verði hin sömu, svo framarlega sem heimildin er notuð.

Formælendur þessa máls kynnu að svara því til, að einu gilti, hvort sú leið er farin að hækka útsvörin eða hækka þau gjöld, sem miðuð eru við fasteignamat, og það er að vissu leyti rétt. En það haggar ekki þeirri staðreynd, þó að rétt kunni að vera og eðlilegt að hækka þessi gjöld nokkuð, að hækkun fasteignaskatta úr hófi fram getur haft alvarleg áhrif í för með sér, og eins og nú er ástatt um lánsfjáröflun, er mörgum um megn að leggja fram fé til þess að koma sér upp húsum. Það er vert að hafa það í huga, að þetta mun leiða af sér hækkaða húsaleigu og auka tölu þeirra, sem búa í leiguhúsnæði.

Ég mun ekki berjast gegn þessu frv., þar sem það er flutt af hæstv. ríkisstj., en ég er ekki með því, og ég vildi láta það koma fram, að mín skoðun er hin sama og áður að því er varðar þessi mál.