22.01.1952
Efri deild: 68. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 804 í B-deild Alþingistíðinda. (1177)

167. mál, fasteignaskattar til sveitarsjóða

Frsm. meiri hl. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Þetta frv., sem hér um ræðir, er stjórnarfrv., eins og grg. ber með sér.

Fjhn. hefur haft málið til athugunar, og leggur meiri hl. til, að það verði samþ., en minni hl. vill fella það.

Það munu nú vera nokkrir tugir ára síðan einstöku bæjarfélög leituðu hjálpar Alþingis í því skyni að fá tekjur sínar auknar með fasteignasköttum og fengu heimildir til þess að leggja þá á, en það var ekki fyrr en 1937, að samþ. voru ein allsherjarlög, sem heimiluðu bæjar- og sveitarfélögum að leggja á fasteignaskatta. Þessa heimild hafa allir bæir og kauptún notað, en sveitarhreppar ekki. Það gjald, sem sveitarfélögunum var heimilað að leggja á samkvæmt þessum lögum, var 2% af fasteignamatsverði byggingarlóða, 1% af fasteignamati húsa og 0.5% af mati á ræktunarlóðum. En þessi nýju lög skylduðu jafnframt bæjarfélögin til að sjá um sót-, sorp- og salernishreinsun.

Fasteignamat það, sem nú gildir, var lögleitt árið 1942, og hefur það verið óbreytt síðan þrátt fyrir gífurlega breytingu á gildi peninga, og er þetta frv. flutt í þeim tilgangi að koma hér nokkru samræmi á hjá þeim, er það kjósa. En í frv. er aðeins um heimild að ræða, og eru sveitarfélögin því alveg sjálfráð, hvort þau nota hana eða ekki. Það er vitað mál, að í flestum bæjum eru álögð útsvör svo há, að þar verður varla lengra farið, og hafa því mörg bæjarfélög óskað eftir fleiri aðferðum til þess að afla sér tekna.

Því hefur verið haldið fram í umr. um þetta mál, að það væri ekki nægilega undirbúið og að leita þyrfti umsagnar fleiri aðila. Ég get ekki fallizt á þetta. Frv. er flutt hér á hv. Alþ. vegna þess, að ósk hefur komið fram um það frá bæjarstjórn Akureyrar, og vitað er, að fleiri bæjarfélög eru þess fýsandi, að þessi heimild verði veitt, og ég býst ekki við, að neinn sveitarhreppur muni banda hendinni á móti frv., þótt þeir biðji ekki um heimildina og noti hana máske ekki nema fáir.

Ein brtt. hefur komið fram við frv. hér í hv. d. Hún er frá hv. þm. Vestm. Leggur hann til í fyrsta lagi, að 1. gr. sé breytt á þann hátt, að leita þurfi samþykkis félmrn. í hvert sinn, sem sveitarfélag æskir að nota heimildina. Nú er það kunnugt, að samkvæmt lögunum um fasteignaskatt til bæjar- og hreppsfélaga er svo kveðið á, að bæjarstjórnir og hreppsnefndir skuli ákveða með reglugerð upphæð skattsins til 5 ára í senn innan þeirra takmarka, er lögin heimila. Þar er enn fremur kveðið svo á, að reglugerðir kaupstaðanna skuli staðfestar af atvmrh., en reglugerðir hreppsnefnda af viðkomandi sýslunefnd. Ég held því, að næg trygging sé í þessu ákvæði um 5 ára endurskoðun, og tel óhæft að skuldbinda sveitarstjórnir til að leita samþykkis félmrn. á hverju ári, ef nota á heimildina.

Í öðru lagi er í brtt. hv. þm. Vestm. ákvæði um það, að ef heimildin er notuð, þá skuli útsvarsgreiðslur lækka um samsvarandi upphæð. Ég skil þetta ekki fullkomlega. Ef það er meining tillögumanns að lækka útsvörin frá því, sem áður var, þá missir tillagan marks Við getum tekið eitt sveitarfélag sem dæmi. Álögð útsvör þar nema 1 millj. kr. árið 1961. Nú æskir þetta sveitarfélag að nota heimildina 1952 til að innheimta fasteignaskattinn með álagi, og nemur sú upphæð 100 þús. kr. Samkv. brtt. hv. þm. Vestm. skilst mér, að sveitarfélagið megi ekki nota heimildina, nema því aðeins að útsvörin séu lækkuð um 100 þús. kr. frá árinu 1951, þ.e. séu ekki nema kr. 900000.00 árið 1952. Ef þetta er meining hv. þm., þá er að mínu áliti óþarft að nota heimildina, því að frv. miðar að því að auka tekjur sveitarfélaganna vegna aukinna þarfa og þá að sjálfsögðu létta sem því svarar sjálfa útsvarsbyrðina, sem annars mundi vera. Ég álít því, að brtt. hv. þm. Vestm. séu óþarfar, og legg til, að frv. verði samþ. óbreytt.