22.01.1952
Efri deild: 68. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 807 í B-deild Alþingistíðinda. (1179)

167. mál, fasteignaskattar til sveitarsjóða

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Mig langar til að fá upplýsingar um eitt atriði í málinu. Þegar frv. kom frá stj., var eingöngu talað um skatta, en í Nd. var þessu breytt, svo að nú nær það yfir skatta og önnur gjöld. Mig langar til að vita, hver þessi önnur gjöld eru. Ég hef verið að grufla út í það, hver þau eru. Ég man eftir sýsluvegagjaldi, en eins og kunnugt er, er borgað ákveðið gjald af fasteignum til hreppsins, sem svo rennur í sýsluvegasjóð. Ef meiningin er, að þetta gjald hækki, hækkar um leið framlag það, sem ríkissjóður leggur fram á móti. N. hefur vafalaust athugað, hvort þetta gjald er reiknað með eða ekki. Það hefur þýðingu fyrir mig, því að ég vil fá sem mest í sýsluvegasjóðina og fé frá ríkinu á móti, þó að ég vilji ekki, að til þess séu notaðar grímuklæddar aðferðir.

Þá er það annað gjald, sem ég man eftir, gangstéttagjald, sem að minnsta kosti er lagt á í Reykjavík. Felst það í þessum gjöldum? Ég veit það ekki og langar til að fá upplýsingar um það hjá n.

Auk fasteignaskattsins man ég ekki eftir öðrum gjöldum en þessum tveimur, en mig langar til að vita, hvort um fleiri gjöld er að ræða.

Hins vegar tel ég eðlilegt og sjálfsagt, að þetta frv. verði samþ., þó að það sé kannske rétt að taka önnur gjöld en fasteignaskattinn út. Það er t.d. sjálfsagt ekki meiningin að hækka sýsluvegagjaldið.

Ég tel svo langt frá því, að fasteignamatið sé í samræmi við nokkurt annað verðlag í landinu, að ég tel sjálfsagt að hækka fasteignaskattinn, og mér þykir líklegt, að gangstéttagjaldið í Reykjavík sé líka orðið of lágt. Spurningin er þá bara, hvort sýsluvegagjaldið er innifalið.

Ég skal ekki fara út í það, hve úrelt fasteignamatið er, ég vil ekki eyða tíma í það, þar sem hætta getur verið á því, að málið dagi þá uppi.

Það er rétt, að hreppsstjórnir og bæjarstjórnir geta sett reglur um hækkun fasteignamatsins og náð á þann hátt eðlilegum útsvörum af fasteignum. Að því leyti má ef til vill segja, að þetta frv. sé óþarft. En það er þó stoð í því fyrir sveitarfélögin, að þessi lög verði sett. Þeir, sem það vilja, geta notað sér þau, en fyrir aðra verða þau dauður bókstafur.

En það var það, sem ég vildi fá að vita, hvort það er annað en sýsluvegagjald og gangstéttagjald, sem falið er í þessum öðrum gjöldum, sem talað er um í frv.