22.01.1952
Efri deild: 68. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 810 í B-deild Alþingistíðinda. (1182)

167. mál, fasteignaskattar til sveitarsjóða

Frsm. minni hl. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Það er alltaf gott að ræða við hv. þm. S–Þ., en ekki færði hann sterk rök fyrir því, að rök mín í málinu væru veik, og hann viðurkenndi sumt af því, sem ég hef sagt hér.

Ég skal viðurkenna, að það er ein ástæða til þess að bera fram frv. um að hækka þessi gjöld til sveitarfélaganna og það veigamikil ástæða, þar sem er verðfall gjaldmiðilsins. En það er heldur ekkert annað, sem er rök með þessu máli. En það er nú síður en svo, að útsvör hjá meðlimum sveitarfélaganna hafi ekki verið hækkuð eftir þörfum, og þess vegna falla meginrökin fyrir flutningi þessa frv.

Ég get ekki látið líða svo hjá þessa umr., að ég minnist ekki á fullyrðingu hv. þm. um samvinnufélögin. Það er eins og skera eigi part úr holdi manna, ef spurt er um það, hvers vegna samvinnufélögin njóti meira frelsis en aðrir í þessum efnum, og ef minnzt er á það að breyta skattalögum þeirra.

Ég held, að það sé algild regla, ef þeir menn, sem miklar fasteignir eiga, eru spurðir um þetta mál, að þeir gefi það í skyn, að þeir muni gera einhverjar gagnráðstafanir, ef ganga á fram hjá þeim, eins og nú hefur verið gert í þessu máli, líkt og samvinnumenn hafa gert ráðstafanir, þegar þeir hafa fundið, að ganga átti á þeirra fjárhagslega rétt. Það fyrsta, sem átti að gera í þessu máli, var að spyrja þá aðila, sem málið snerti, bæði þá, sem leggja skattana á, og eins hina, sem eiga að greiða þá.

Ég vil enn fremur benda á, að það eru ekki neitt litlar hömlur, sem lagðar hafa verið á þessa menn síðan 1940, og þeir hefðu víst heldur viljað greiða fimmfaldan eignarskatt, ef þeir hefðu mátt kjósa þar á milli.

Hv. þm. sagði, að menn settu fé sitt heldur í fasteignir en sparisjóð, vegna þess að gjöld af fasteignum væru of lág. Hér er um misskilning að ræða. Það þyrfti ekki núna að vera að ýta undir byggingar í sveitum og borgum, ef menn vildu heldur leggja fé sitt í fasteignir. Sannleikurinn er sá, að það þyrfti að hjálpa mönnum til þess að koma. upp þessum fasteignum, en ekki að tefja fyrir þeim, og mér virðist þetta frv. tefja fyrir mönnum. Ég vil benda á það, að þessi ástæða, sem hv. þm. nefndi, er næg rök fyrir því að samþ. till. minni hl., þar eð nýbúið er að samþ. hér á Alþ. þáltill. þess efnis, að athuga skuli fyrir næsta þing, hvernig samsköttun til bæjarsjóða og ríkissjóðs verði bezt fyrir komið og hve þáttur ríkissjóðs skuli vera stór. Það er hreinasta goðgá að afgreiða þetta frv., ef farið verður svo inn á þá braut að skattleggja menn í einu lagi til bæjarfélagsins og til ríkissjóðs.

Ég skal svo viðurkenna það, sem hv. frsm. sagði, að hér er ekki um neitt flokksmál að ræða og allra sízt af hendi Framsfl., því að þetta frv. mun koma einna mest við samvinnufélögin, sem áttu að hafa sérstöðu með útsvarsgreiðslur, og með núgildandi skattalöggjöf er ekki hægt að koma neinu réttlæti fram við þau, samanborið við aðra atvinnurekendur í landinu. Það, sem fylgir samvinnufélögunum, er það, að ekki má leggja útsvör á þau, nema að því leyti er snertir verzlun þeirra við utanfélagsmenn, en þau ættu vitanlega að bera þessar byrðar alveg eins og aðrir. Samvinnufélögin hafa ekki borið nema brot af þeirri þungu byrði, sem fyrirtæki einstaklinga hafa orðið að bera, þótt verzlunin hjá samvinnufélögunum hafi verið miklu meiri, og með þessu frv. er að nokkru bætt úr þeim rangindum. Þetta frv. er borið fram samkv. ósk frá Akureyri, þar sem Kaupfélag Eyfirðinga er starfandi, og er því rétt að veita þessa heimild fyrir Akureyri og lofa þeim svo að bítast um málið þar. (SÓÓ: Má ekki hafa það eins annars staðar?) Jú, það mætti bæta úr þessu annars staðar. Mér finnst eðlilegt að breyta skattalögunum á þann veg, að samvinnufélög beri útgjöld til jafns við önnur verzlunarfyrirtæki.

Út af fyrirspurn, sem hv. 1. þm. N-M. bar fram og frsm. meiri hl. n. hefur svarað, vildi ég segja, að ég er sömu skoðunar og hv. frsm. meiri hl., þótt það hafi ekki verið rætt í n., að þetta gildir ekki um sýsluvegagjöld og engin heimild er til þess að hækka þau gjöld, þótt þetta frv. verði að lögum. Ég skil ekki að fullu afstöðu hv. þm. til þessa máls. Hann lýsti yfir fylgi sínu við þetta mál, ef þetta gilti að öllu leyti. En að lokum lýsti hann því yfir, að hann mundi alltaf fylgja frv. Hví er hv. 1. þm. N-M. þá að bera fram þessa fyrirspurn, ef hann ætlar að fylgja frv., hvort sem þessi hækkun nær til sýsluvegagjalda eða ekki?

Ég sé ekki ástæðu til þess að ræða þetta mál frekar við þessa umr., nema tilefni gefist til, en vil beina því til deildarinnar, að heppilegast er að fella frv. á þessu stigi málsins, og skora á hv. þm.samþ. till. minni hl.