22.01.1952
Efri deild: 68. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 812 í B-deild Alþingistíðinda. (1183)

167. mál, fasteignaskattar til sveitarsjóða

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég hef aflað mér upplýsinga um það, að sýsluvegagjöldin geta aldrei heyrt undir þá hækkun, sem hér um ræðir, þar sem þau heyra undir sýslunefndir. Hins vegar eru tvenn gjöld, sem heyra undir þetta, gangstéttagjald hér í Reykjavík og á Akureyri sérstakt gjald, sem sett er á lóðir, en er ekki annars staðar á landinu. Ég geri ráð fyrir, að þessi hækkun nái ekki til annarra gjaldstofna en þeirra, sem til eru nú. — Ég mun fylgja frv., þótt það verði til þess, að sveitarstjórnir geti hækkað sína skala, sem ég tel óheppilegt. Frv. er þó spor í rétta átt, þótt vitanlega ætti að breyta öllu fasteignamatinu, því að það hefur staðið óbreytt síðan 1942. Þótt þessi l. verði samþ., koma þau misjafnt niður á mönnum, því að verðhækkun fasteigna hefur verið mjög misjöfn, þær hafa ekki allar hækkað jafnmikið. Frv. tel ég þó vera til bóta.