22.01.1952
Efri deild: 68. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 812 í B-deild Alþingistíðinda. (1184)

167. mál, fasteignaskattar til sveitarsjóða

Frsm. meiri hl. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Það hafa fallið hér við þessa umr. nokkur ásökunarorð til sveitarstjórna fyrir það að halda ekki vel á málunum og fyrir það að líða hækkun gjalda og fyrir það að krefja meira inn af sveitarbúum en áður. Ef þetta er athugað gaumgæfilega, þá þykir mér vafalaust, að flestar sveitarstjórnir í landinu gætu staðizt samanburð við Alþ., því að fæstar sveitir munu hafa hækkað álögur sínar í hlutfalli við fjárlög Alþ. Ég býst við, að sveitarstjórnirnar stríði yfirleitt við sömu raun og Alþ., standi sig ekki öllu verr.

Hv. þm. Barð. vildi fá því svarað, hvort ég teldi, að samvinnufélögin ættu að greiða gjöld í samræmi við gjöld annarra félaga í landinu, og svara ég því játandi. Samvinnufélögin eiga að greiða eftir eðli síns skipulags í samræmi við aðra gjaldendur, og þau gera það.

Þau eru víðs vegar um land hæstu gjaldendurnir í sveitarsjóðina.

Hv. þm. Barð. sagði, að ég væri í mótsögn við sjálfan mig, þar sem ríkið aðstoðaði menn til þess að koma upp húsnæði. Ég mótmæli þessu. Ríkið á einmitt að aðstoða menn til þess að eignast fasteign, svo mikils virði tel ég það vera fyrir menn að eiga hús. Og ég hef lagt til, að þetta frv. verði samþ., vegna þess að það er svo mikils virði fyrir menn að eiga fasteignir, að þeir verða að geta borgað fyrir það hærri almenn gjöld en ella. En frv. felur ekki annað í sér en að það gjald, sem ákveðið var af fasteignum 1937, verði fært í átt til þess, sem það ætti að vera nú eftir gildi peninga. Ef það væri fullkomlega samræmt, þá er sú upphæð, sem hér um ræðir, hálfu lægri en vera ætti. Lengra er nú ekki gengið.