22.01.1952
Efri deild: 68. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 814 í B-deild Alþingistíðinda. (1187)

167. mál, fasteignaskattar til sveitarsjóða

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ég skal lýsa því yfir, að ég mun greiða atkv. með þessu frv. Bæjarstjórn Akureyrar hefur óskað eftir, að þetta frv. yrði samþ., og bæjarstjórn Ísaf jarðar einnig, þótt ekki hafi hún sent erindi um það til Alþ. Þetta er að vísu ekki sú leið, sem bæjarfélögin báðu um að yrði farin, en eitthvað verður þó að gera fyrir þau, eins og fjárhagsástæðum þeirra er nú komið. Þeir, sem eiga fasteign, eru þó tiltölulega betur settir en hinir, og verður því að grípa til þessara ráðstafana.

Þá vil ég leyfa mér, þótt það komi ekki þessu máll við, að víkja nokkrum orðum að því, sem hv. þm. Barð. kallaði — af spikfeitri vanþekkingu — skattfrelsi samvinnufélaganna. Nú, það verður að reyna að skýra þetta mál nokkuð fyrir hv. þm. Barð. Kaupfélögin eru félagsskapur, sem annast viðskipti fyrir félaga sína og er þeirra eign. Ég býst við, að hv. þm. Barð. viti, að kaupfélögin greiða útsvör eftir sömu reglum og aðrir af verzlun við utanfélagsmenn. En þau greiða ekki af innanfélagsmannaverzlun, vegna þess að þau skila arðinum af þeim viðskiptum aftur til félagsmanna og þeir greiða af honum sem tekjum. Það, að leggja á félögin líka vegna þess arðs, er þau hafa skilað, væri tvöföld skattálagning. Þá er um það að ræða, sem hv. þm. Barð. sagði um, að greiða ætti af veltu kaupfélaganna. Ef hv. þm. væri enn kaupmaður á Bíldudal og tæki að sér að útvega vörur fyrir t.d. 10 þús. kr. án nokkurs ágóða, mundi útsvar hans ekki hækka fyrir það. Ég held því, að hv. þm. Barð. mætti fara að hætta því að blanda óskyldum málum eins og þessu inn í umr. um önnur mál til þess eins að auglýsa vanþekkingu sína.