22.01.1952
Efri deild: 68. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 815 í B-deild Alþingistíðinda. (1189)

167. mál, fasteignaskattar til sveitarsjóða

Frsm. meiri hl. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Þetta verða aðeins nokkur orð út af ræðu hæstv. dómsmrh. — Ég vil undirstrika, að hann sagði, að verið gæti, að gjöld kaupfélaganna væru sanngjörn. Ég sagði ekki, að skattgreiðsla kaupfélaganna væri jafnmikil og einstaklinga, en eftir sömu hlutföllum miðað við eðli og starfsemi félaganna. Hann gerði rækilega grein fyrir því, hvernig „arðurinn“ deildist niður. En í raun og veru er hin svonefnda „arðgreiðsla“ ekki annað en það, að verið er að skila til baka því, sem maður hefur ofborgað vöruna. Það gerir kaupfélagið við reikningslok, þegar allt er uppgert. En það er annað og fleira, sem hér kemur einnig til greina. Hv. þm. Barð. átti t.d. sín fyrirtæki þar, sem hann var, en seldi þau, þegar hann fór þaðan, og flutti burt með sér andvirðið, en eignir kaupfélaganna eru staðbundnar. Kaupfélögin byggja upp sína verzlun á hverjum stað fyrir framtíðina. Mannvirki kaupfélagsins á fólk staðarins. Þau ganga þar að erfðum frá kynslóð til kynslóðar. Á þessu tvennu er svo mikill eðlismunur, að það þarf miklu meiri tíma en hér er til umráða til að skilgreina hann fullkomlega. En þess ætti heldur ekki að þurfa. Allir, sem vilja, hljóta að vita þetta og skilja.