23.01.1952
Efri deild: 69. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 820 í B-deild Alþingistíðinda. (1205)

167. mál, fasteignaskattar til sveitarsjóða

Landbrh. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. Ég ætla ekki að taka mikinn þátt í þessum umr. og mun ekki tefja málið með löngu máli. Það er vitanlega alltaf óvinsælt að leggja á nokkur gjöld.

Hins vegar er það ekkert óvinsælla að leggja á útsvör og skatta en að leggja á önnur gjöld, en á þeim byggjast allar framkvæmdir bæjar- og sveitarfélaganna fyrir borgarana, þótt það sé skoðun sumra, að sú þóknun, sem ríkið lætur af hendi í staðinn, sé allt of lítil móti öllum þeim sköttum, sem menn greiða. Það er þetta sjónarmið, sem einstaklingarnir taka. Það er óvinsælt, ef skattur er innheimtur, og það er óvinsælt, ef fjárveitingar úr bæjarsjóðum og ríkissjóði eru ekki ríflegar. Þó er þetta hvort tveggja sama málið, annað er úthverfan, en hitt innhverfan. Ég fyrir mitt leyti hef ástæðu til þess að taka þessi mál með fullkominni varúð af þeim ástæðum, sem hv. þm. Barð. tók fram.

Það hefur verið flutt hér frv. um það að hækka fasteignamatið. Það hefur verið flutt, þó að það hafi verið óvinsælt. Og það er rétt, sem hv. þm. Vestm. sagði, að sjálfsagt er að færa fasteignamatið í samræmi við núgildandi verðmæti hlutanna. Fjöldi manns er samkvæmt skattskýrslum alveg eignalausir menn, en geta þó átt hundruð þúsunda og jafnvel milljónir, ef miðað er við núverandi peningagildi. Þetta er af þeim ástæðum, að þótt þessir menn teldu sig milljónamæringa samkvæmt skattframtali, þá yrði skrifað á það með rauðu bleki og allar eignir færðar þar á fasteignamatsverði. Af þessum ástæðum borga þessir menn mjög lágan eignarskatt, en það er samkvæmt landslögum. Því er það, að þótt menn eigi fasteignir, sem metnar eru á 50–60 þús. kr., þá nema þær fasteignir í raun og veru 5–6 hundruðum þús. kr., ef ekki meira. Þess vegna er það, að á meðan fasteignamatinu er ekki breytt, þá er þetta nokkurt mótvægi, því að þessir menn greiða ekki nema sáralítinn eignarskatt til ríkisins, og þá er það ekki nema til þess að jafna metin að nokkru, að þeir greiði til bæjarfélaganna þessi gjöld sín með 400% álagi, svo sem hér er farið fram á. En ég vil slá þann varnagla, þegar ég segi þetta, að ef fasteignamatið yrði endurskoðað og því breytt, þá verður þessi ákvörðun ekki réttmæt. Ég vil taka það fram, að það getur staðið svo á, að það hvíli miklar veðskuldir á eignum þeirra manna, sem þessi gjöld eru lögð á, og þá kemur þetta fram á annan hátt. Þetta vildi ég taka fram, og sérstaklega ef fasteignamatinu yrði breytt til samræmis núverandi verðgildi fasteignanna, sem verður að teljast eðlilegt að gert verði, þá tel ég þessi lög heldur ekki lengur sanngjörn. En eins og ástandið er nú, eru þessi lög ekki óeðlileg.

Það er einnig annað, sem ég vildi minnast á. Hv. þm. Barð. sagði, að þessi gjaldahækkun kæmi vitanlega mest niður á þeim, sem eiga mjög miklar fasteignir. Og það er ekkert launungarmál, hvaða félagsskap þessi gjöld koma þyngst niður á á Akureyri, og sýnir það glöggt, að ég er ekki að fylgja þessu máli af einhverjum annarlegum ástæðum. Það verða ekki litil gjöld á verzlunarfyrirtæki, sem þarf að eiga margar fasteignir, og á ég þar við KEA, mjólkurbúin o.fl. En ég verð að telja það eðlilegt, að bæjarfélög ráði því, hvernig þau stjórna sínum málefnum. Þannig höfum við líka alltaf orðið við kröfum Reykjavíkurbæjar.

Ég fylgi þessu máli þrátt fyrir þetta, því að það er ekki óeðlilegt, að þeir, sem svona mikið eiga eða hafa mikið undir höndum, greiði nokkur gjöld, sérstaklega af því að fasteignamatið er svo lágt, meðan það er enn ekki endurskoðað.