23.01.1952
Efri deild: 69. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 823 í B-deild Alþingistíðinda. (1208)

167. mál, fasteignaskattar til sveitarsjóða

Frsm. meiri hl. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Ég verð að játa, að ég mundi þykjast mega vera hreykinn, ef ég gæti frætt hv. þm. Vestm., svo vel er hann að sér í þingmálum. Þó að ég vantreysti mér í þessum efnum, þá vil ég reyna að rökstyðja, að ef maður á fasteign, er ástæða til að hafa hana sem mælíkvarða á, hvað hann á að greiða í skatt. Ég veit vel, að þeir menn, sem eiga hús, eru misjafnlega skuldugir, og held ég, að ég hafi minnzt á það í gær. Þó að ég telji, að grundvöllur útsvarsálagningar eigi að vera eftir efnum og ástæðum, þá er það lítt vinnandi vegur að nota hann, og er þá gripið til skattskrárinnar og búinn til skali, sem er látinn segja til, hvaða útsvar hver eigi að greiða. Ég held, að það sé miklu heldur vinnandi vegur að taka tillit til, hvað menn skulda út á fasteign. Sem betur fer er ástandið þannig í þjóðfélaginu, að þeir eru færri, sem þarf að gera undantekningu með, þegar tekið er tillit til þeirra, sem skulda mikið út á fasteign, en þeirra, sem eiga skuldlausar eignir.

Verði fasteignaskatturinn til sveitarsjóða hækkaður, er framkvæmanlegt að ívilna í sjálfu útsvarinu aftur á móti þeim mönnum, sem mikið skulda vegna fasteigna sinna.

Út af því, að hv. þm. minntist á sérstöðu, sem Akureyri hefði, vil ég taka fram, að það á ekki að taka tillit til neinnar sérstöðu við afgreiðslu málsins, enda hefur Akureyri enga sérstöðu í þessu efni. Fleiri bæir og kauptún hafa slík fyrirtæki sem hv. þm. nefndi, og hafi Akureyri þörf á að fá að beita fasteignaskattinum allt að fimmföldum vegna þessara fyrirtækja, þá hafa fleiri bæir einnig ástæðu til að fara fram á það sama.

Ég bið hv. þm. að athuga þetta, þó að ég telji mig ekki vera færan um að kenna honum í stórum stíl.