23.01.1952
Efri deild: 69. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 824 í B-deild Alþingistíðinda. (1210)

167. mál, fasteignaskattar til sveitarsjóða

Jóhann Jósefsson:

Herra forseti. Mér virðist þessi brtt. frá hv. 4. landsk. geta slétt úr þeim ágreiningi, sem var á milli mín og hv. frsm. þessa máls, og vissulega er hún honum, hv. frsm., til mikillar hjálpar, þar sem hann virðist hafa það fyrir augum, að þessi skattur verði lagður á nokkuð eftir efnum og ástæðum, því að ég tel víst, að hv. frsm. fagni þessari brtt. Ég hef deilt mikið um það, að hve miklu leyti þetta „eftir efnum og ástæðum“ gæti átt sér stað. En hér virðist vera kominn góður sáttasemjari, þar sem hv. 4. landsk. er, og ef hv. frsm. getur ekki fallizt á þessa brtt., þekki ég ekki hjartalag hans rétt.

Ég kvaddi mér hljóðs til að þakka hv. frsm. fyrir þá skýrslu, sem hann gaf varðandi þá spurningu, sem ég lagði fyrir hann. Hv. frsm. leysti úr þessu eftir beztu getu og komst að þeirri niðurstöðu, að slagsíðuna þyrfti að jafna með því að taka tillit til skattsins í útsvarsgreiðslum. Hv. þm. sagði, að vitaskuld væri tekið tillit til eigna og skulda við útsvarsálagningu, en sjálft gjaldið verður þá ekki lagt á eftir efnum og ástæðum. Ég vil bæta því við, að ef maður ætti alls staðar svipaða sveitarhöfðingja á borð við hv. þm. S-Þ., þá gæti maður borið fyllsta traust til þeirra. En ég tel mig hafa þá reynslu af niðurjöfnunarnefndum, að þær séu ekki gefnar fyrir að taka tillit til slíkra hluta. Menn geta haft það hugfast, að hv. þm. mun gera slíkt, en því miður eru ekki allir oddvitar hans líkar.

Ég skal svo ekki fara um þetta fleiri orðum, en mér virðist brtt. hv. 4. landsk. þm. vera úrlausn á þessu máli og álít sanngjarnt að fylgja henni, því að hún greiðir úr því, að þetta mál verði ekki eins ranglátt, og þess vegna vil ég fylgja henni.