12.11.1951
Efri deild: 27. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 831 í B-deild Alþingistíðinda. (1238)

50. mál, sauðfjársjúkdómar

Landbrh. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. Það er ekki nema eðlilegt, að hv. alþm. hafi áhyggjur af því, sem komið hefur fyrir varðandi fjárskiptin, og ég get mætavel skilið það, að flestum hafi orðið bilt við, þegar sú frétt barst út, að veikinnar hafi orðið vart á ný á Hólmavík, — ekki sízt bændum landsins, sem með fjárskiptunum gerðu sér vonir um að eignast heilbrigðan fjárstofn á ný. Það sagði mér fjárbóndi uppi í Borgarfirði dæmi um það, hver áhrif þessi frétt hafði. Hann var staddur þar við jarðarför. Verið var að jarða eldri mann úr héraðinn, vinsælan og vel látinn. Gangur lífsins er nú þannig, að þegar menn eru orðnir gamlir, þá deyja þeir án þess að vekja við það neinn sérstakan harm. En þessi maður var sem sagt vinsæll og mjög tregaður af öllum, er hann þekktu. Meðan stóð á jarðarförinni, barst þangað fregnin um veikina. Og þessi bóndi sagði mér, að hann hefði aldrei séð aðra eins hryggð koma yfir menn. Þessi hryggð, sem það veldur, að menn óttast, að ekki sé hægt að eignast heilbrigt fé, er svo mikil, að hún yfirstígur flest annað, jafnvel svona atburði sem þennan.

Mér er ljúft að svara öllum þeim spurningum, sem til mín er beint varðandi þetta mál. Hv. þm. Barð. var með efasemdir um það, að þeir mann, sem eiga að sjá um fjárskiptin, væru starfi sínu vaxnir. Ég hef áður bent á, að þarna eru valdir fimm menn úr þeirri stétt, sem hefur mestra hagsmuna að gæta við fjárskiptin. Þeir eru valdir af beztu vitund og þekkingu, og ég efast ekki um, að þeir séu vel valdir, og hef enga ástæðu til að tortryggja þá.

Þessi fjárskipti fóru fram löngu áður en ég tók við þeim málaflokki, sem nú heyrir undir ráðuneyti mitt. Samkv. l. þá voru þessi fjárskipti framkvæmd á þann hátt, að ekki var látið líða ár á milli, þ.e.a.s., heilbrigða féð var tekið sama haustið og sjúka stofninum var slátrað. Þetta stafaði af því, að fræðimenn, m.a. þekktur prófessor, töldu, að smitun gæti ekki átt sér stað nema frá kind til kindar. Gerðar höfðu verið tilraunir með það að smita fé á annan hátt, en þær höfðu engan árangur borið. Samt sem áður er mér skýrt svo frá, að sauðfjársjúkdómanefnd hafi gefið fyrirskipun um að grafa niður innyfli úr öllu sýktu fé, er því er slátrað.

Þegar rætt var um þessi mál í Sþ. fyrir skömmu, var mér ekki kunnugt, að lögreglurannsókn hefði farið fram á Hólmavík vegna hinna sýktu kinda, sem þar fundust, en hún fór fram, og mun henni nú lukið. Mér hefur ekki borizt hún í hendur enn þá, en eftir því, sem ég hef spurzt fyrir, er engin ástæða til að ætla, að fé hafi orðið eftir við smölun á þessu svæði, þegar niðurskurðurinn fór fram. Allar sögusagnir um, að svo hafi verið, eru því gripnar úr lausu lofti. — Það er rétt, sem hv. þm. Barð. sagði hér áðan, að ekki hefði verið haldið við girðingunni milli Berufjarðar og Steingrímsfjarðar, en það var ekki gert af því, að þá fékk svæðið sunnan girðingarinnar heilbrigt fé af Vestfjörðum. Það má vitanlega segja, að þeim hafi verið skylt að viðhalda girðingunni og láta ekkert fé fara vestur fyrir hana. Án þess að dæma nokkuð um þetta stafar þetta af því, að þeir eru með sama fé og er handan girðingarinnar og telja sig því örugga. En þó að þessarar girðingar hafi ekki verið gætt, getur það vitanlega ekki hafa valdið þeirri smitun, sem nú er upp komin. Þegar verið er að grafast fyrir um, hver sé orsök smitunarinnar, kemur það fram, sem brýtur í bága við það, sem áður var álitið, — sem sé, að smitun geti átt sér stað á annan hátt en frá kind til kindar. Það kemur nefnilega í ljós, að maður sá, sem á sýktu kindurnar, gætir refa, og haustið, sem niðurskurðurinn fór fram, átti hann lungu úr sýktu fé, sem hann svo fóðraði refina á. Þær einu líkur fyrir smituninni, sem komið hafa fram við réttarrannsóknina á Hólmavík, eru því þær, að maðurinn hafi borið veikina með sér í fjárhúsin. Þegar ég hef fengið afrit af réttarrannsókninni, mun ég athuga, hvað sé hægt að gera í þessu máli, en ég efast um, að hægt sé að refsa manni fyrir að gera það, sem vísindin álíta óhætt.

Viðvíkjandi því, sem hv. þm. Barð. sagði hér áðan, að vitað hefði verið um veikina fyrir löngu, kemur það fram við rannsóknina, að eftir að böðun átti sér stað s.l. haust, sá þessi maður á tveimur kindum frá sér, en áleit, að þær hefðu aðeins ofkælzt. Eins og þeir vita, sem eitthvað þekkja inn á sauðfjárrækt, kemur slíkt oft fyrir. — Þetta var álit þessa manns, og þar sem ekki var von neinnar veiki, er ákaflega erfitt eða að minnsta kosti hæpið að ásaka hann.

Ég get svo bætt því við, að á sama klukkutímanum og mér bárust fregnir um veikina hringdi ég til framkvæmdastjóra sauðfjárveikivarna og ræddi við hann um, hvað gera skyldi, og ég fæ ekki séð, að neitt hafi verið látið ógert, sem hægt var að gera. Þrír færustu menn okkar eru sendir norður til rannsóknar, og lögreglurannsókn fer fram. Fyrst er skorið niður á Hólmavík, en eftir að tvær sjúkar kindur finnast til viðbótar, er hringurinn stækkaður. Ég álít, að ekki hafi verið um annað að ræða en gera einmitt þetta. Það er ekki hægt að neita því, að eftir að þessi sjúkdómur kom upp á ný, hefur útlitið mjög versnað með fjárskiptin. Hvort takast muni að komast fyrir veikina á Hólmavík nú, er ekki hægt að segja um. Líkurnar eru svona einn á móti einum. Í þessu sambandi má minna á það, að veikin kom upp í Bjarnarfirði. (PZ: Í Árneshreppi.) Já, það er rétt, en hún kom einnig upp í Bjarnarfirði, því að eins og menn muna, þá veiktist einn hrútur hjá Matthíasi Helgasyni í Kaldrananesi, en strax og bann varð var við það, slátraði hann honum og reri með hann langt út á flóa og sökkti honum þar, sem frægt er orðið, og veikinnar varð aldrei framar vart í Bjarnarfirði. Enn fremur kom hún upp á mörgum bæjum í Árneshreppi, eins og hv. 1. þm. N-M. sagði áðan, og tókst að komast fyrir veikina. Án þess að hægt sé að greina, að þar sé nokkur veiki, á að skipta Vestfjörðum í tvö hólf til aukins öryggis.

Ég vil taka það fram, að strax eftir að umr. um þetta mál lauk í Sþ., átti ég tal við einn af mönnum þeim, sem eru í sauðfjársjúkdómanefnd, og sagði hann mér, að ég hefði farið með rétt mál varðandi girðingarnar.

Viðvíkjandi skaðabótunum sé ég ekki, að um annað sé að ræða en fylgja þeirri venju, sem gert hefur verið hingað til.