12.11.1951
Efri deild: 27. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 833 í B-deild Alþingistíðinda. (1239)

50. mál, sauðfjársjúkdómar

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Þetta frv. fjallar eingöngu um hækkun á vöxtum úr 4% í 6% af skuldum þeim, sem bændur eiga enn ógreiddar hjá ríkissjóði vegna fjárskiptanna, en umr. hafa nú snúizt um sauðfjársjúkdómana almennt. Ég ætla að snúa mér að því, sem eingöngu varðar Vestfirði.

Hæstv. landbrh. upplýsti það í Sþ., að gerðar hefðu verið ráðstafanir til þess að girðingarnar á Vestfjörðum yrðu endurbættar. Mér skildist á hæstv. ráðh., að mál þetta væri ekki lengra á veg komið en það, að sauðfjársjúkdóman. hefði gert um það samþykkt. Nú er það alls ekki nóg, að þessi n. samþ. eitthvað. Það, sem mestu máli skiptir, er það, að eitthvað raunhæft sé aðhafzt. Mér skilst, að ekkert eigi að aðhafast við girðingarnar fyrr en að vori. Það er alveg óskiljanlegt, að það skyldi ekki vera gert strax í haust, gert fyrir veturinn. Ég tel ekkert öryggi í því, að þessu skuli vera frestað fram á vor, því að eins og mönnum er ljóst, þá er mjög erfitt, ef ekki ómögulegt, að fást við girðingarvinnu snemma vors vegna þess, hversu klaki fer seint úr jörðu.

Eitt af hinum hörmulegu mistökum í sambandi við sauðfjársjúkdómana var, að ekki skyldi strax vera sett upp tvöföld girðing á milli Gilsfjarðar og Bitrufjarðar, heldur tildrað þar upp einfaldri girðingu, en eiðið er þarna um 7 km breitt. Síðan er girt úr Berufirði í Steingrímsfjörð, en gert allt of seint, og siðast úr Kollafirði í Ísafjarðarbotn. Nú hefur þessum girðingum ekki verið haldið við um nokkurt skeið. Það er tvennt, sem þarf að gera, og það er að endurreisa girðinguna milli Gilsfjarðar og Bitrufjarðar og hafa vörð við —hana. Einnig þarf að endurreisa girðinguna milli Berufjarðar og Steingrímsfjarðar og jafnvel tvöfalda hana, því að þar er núna eina örugga hólfið. Í þessum málum duga alls ekki neinar samþykktir sauðfjársjúkdóman., heldur hefði átt að gera þetta strax í haust. Ég hef í haust verið á fundi með vestfirzkum bændum, þar sem þeir kröfðust einmitt þessa tvenns, sem ég var að minnast á, og að það væri fyrirbyggt, að framkvæmdir drægjust úr hömlu.