12.11.1951
Efri deild: 27. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 833 í B-deild Alþingistíðinda. (1240)

50. mál, sauðfjársjúkdómar

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. landbrh. fyrir upplýsingarnar; ég sé, að hann hefur ekki tíma til að hlusta á frekari umr. Og ég vil sérstaklega þakka hæstv. ráðh. fyrir það að láta fara fram nákvæma rannsókn á málinu.

Það er af tveimur ástæðum, að ég hef hreyft þessu máli hér. Við, sem sitjum fyrir Vestfirðingafjórðung á þingi, viljum allir, að það sé tryggt, að þessi svæði sýkist ekki, enda er það líka mál allra bænda á landinu, því að fjárskiptin byggjast á því. Okkur er ljóst, að smitunin hefur ekki komið að vestan, en það er líka ljóst, að ekkert má láta ógert til þess að forða því, að sýkin berist vestur fyrir. Ég er sammála hv. 6. landsk. um það, að allt hefur því miður ekki verið gert til að tryggja það. — Þetta snýr að vörnunum í vestur.

Það, sem snýr að vörnunum austur á við, hefur ekki minni þýðingu. Fjárskiptin hafa kostað milljónir kr., og hafi hér verið um mistök að ræða, er óskaplegt að hugsa sér, ef til þess kemur, að slátra verði öllu aftur. Ég vil því spyrja hæstv. ráðh., hvort ekki sé rétt að stöðva öll fjárskipti, þar til vitað er, hvort hægt er að halda þessu svæði ósýktu. Ég held, að það gæti komið til alvarlegrar athugunar.

Annað, sem þarf að gera, er að setja upp sterka varnargirðingu milli sýkta og ósýkta svæðisins, svo að ekki komi til mála snerting milli svæðanna, og loka grunaða svæðinu alveg. Ég efa, að verið sé að gera þetta; mér skilst, að ekkert hafi verið gert, svo að öruggt sé.

Það er síður en svo, að mig langi til að koma fram sektum á hendur þeim mönnum, sem hér hafa gert glappaskot. Það er aukaatriði. Aðalatriðið er, að féð sýkist ekki. En ég er ekki á því máli, að ekki sé hægt að fá menn til að fara með þessi mál, sem meiri áhuga hafa á þeim en þeir, sem nú hafa þau með höndum. Víst er, að full ástæða er til að skipta um alla þessa fimm góðu menn. Þeim hefur mistekizt, og þá er sjálfsagt að skipta um og fá aðra. Og ég endurtek, að það er m.a. að kenna skorti á áhuga hjá framkvæmdastjóranum, sem gefið hefur sér tíma til að sinna öðrum störfum, að ástandið í þessum málum er ekki betra en raun ber vitni um.

Mér þykir vænt um að heyra frá hæstv. ráðh., að þetta stafi ekki af því, að sjúkt fé hafi verið á svæðinu áður, en þær sögusagnir höfðu borizt. Ástæðurnar eru því aðrar, og nú segir hæstv. ráðh., að smitunin hafi borizt með viðkomandi manni frá lungum úr sjúku fé, sem notuð voru til þess að fóðra refi, sem hann gætti. Okkur hefur verið tjáð, að smitun geti ekki borizt nema með snertingu frá kind til kindar. En ef það er svo, að smitunin getur borizt með mönnum og þá líka með heyjum og húsum, hvað er þá orðið um allar þær millj., sem búið er að verja til þessa? Við virðumst vaða í villu og svima í þessu máli enn í dag.

Þar fyrir utan er það mjög ámælisvert, ef viðkomandi bóndi varð um miðjan vetur var við tvær kindur veikar af lungnaveiki, án þess að hann gerði sauðfjársjúkdóman. aðvart. Ég veit ekki, hvort þetta er refsivert eða hvort menn eru skyldugir að gera n. aðvart, en ef svo er ekki, þá er nauðsynlegt að breyta l. þannig, að menn verði skyldaðir til þess að tilkynna n., ef slík tilfelli koma fyrir. Sambandið við n. virðist hvergi nærri vera eins gott og nauðsynlegt er.

Þeir, sem eru í þessári n., ættu að hafa brennandi áhuga á því að ná sem beztum árangri, en það virðast þeir ekki hafa haft, og þess vegna vil ég skipta um menn. Og ég er alveg víss um það, að hefði hæstv. ráðh. ekki setið í ríkisstj., þá væri hann búinn að skrifa margar greinar í blað sitt um vanrækslu annarra. Ég er ekki að ásaka ráðh., en þeir, sem tekið hafa að sér þessi mál, ættu að hafa svo mikinn áhuga fyrir þeim, að þeir fáist ekki við önnur störf.

Svo eru það skaðabótagreiðslurnar. Ég sé ekki, að hæstv. ríkisstj. hafi heimild til að greiða skaðabætur. Ég efa, að þetta falli undir l., og hygg, að hæstv. ríkisstj. þurfi að leita sérstakrar heimildar. Mér er tjáð, að ákveðinn bóndi, sem varð að skera fé sitt, hafi þurft að gera það á eigin kostnað. Það er of langt gengið, ef bændur, sem sýna trassaskap í þessum efnum, geta skorið niður á kostnað ríkissjóðs. Þess verður að krefjast, að ríkissjóður greiði því aðeins skaðabætur, að fullrar varúðar sé gætt. Hvar stöndum við, ef hver bóndi getur alltaf fengið nýjan stofn á kostnað ríkissjóðs, þótt hann hafi sýnt vanrækslu?

Ég skal svo láta þetta nægja nú. Ég vil þakka hæstv. forseta fyrir að leyfa þessar umr., þó að þær snerti ekki beinlínis það mál, sem er hér til umr. — Þar sem frv. fer fram á hækkun vaxta úr 4 í 6% og kemur því ekki sauðfjársjúkdómum við, leyfi ég mér að leggja til, að því verði vísað til fjhn., og vænti ég þess, að hæstv. forseti geti fallizt á það.