12.11.1951
Efri deild: 27. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 835 í B-deild Alþingistíðinda. (1241)

50. mál, sauðfjársjúkdómar

Landbrh. (Hermann Jónasson):

Eins og ég hef tekið fram áður, gerðust þessi fjárskipti áður en ég tók við þessum málum og áður en núv. ríkisstj. var mynduð.

Það er jafnan þannig, að við verðum allir hyggnir eftir á. Ég get upplýst, að það var áður talið, að sjúkdómurinn gæti ekki borizt nema frá kind til kindar. N. segir mér þó, að þrátt fyrir þessa skoðun vísindamanna hafi hún gefið yfirlýsingu um það, að grafa bæri innyfli úr fé á sýktu svæði. N. hefur því gefið þessa skipun, en henni hefur ekki verið fylgt, og hún hefur gefið þessa fyrirskipun þrátt fyrir það, sem vísindamennirnir sögðu. Hvort það hefur verið gert frá upphafi, veit ég þó ekki. Ég get enn fremur getið þess, að ekki hefur verið hægt að flytja hey milli svæða; það varð ég var við á Vestfjörðum.

Það verður að segja það eins og það er, að það er löstur á þjóðinni, hvað hún er ólöghlýðin að því er varðar öll lögreglubrot. Hér er litið um glæpi, en því meira um smærri lögreglubrot. Menn vilja ganga þar, sem þeim sýnist, hjóla á ljóslausum hjólum og aka bremsulausum bilum og segja, að þetta geti ekki verið svo hættulegt. Eins er um þetta mál. Í þetta sinn er um bændur að ræða, en það gátu eins vel verið verkamenn, því að þessi ólöghlýðni er þjóðarlöstur.

Að því er bezt verður séð, hefur það fé, sem hér er um að ræða, sýkzt frá sýktum innyflum; það lítur svo út a.m.k. Það er hægt að dæma n. hart, en þó er það hæpið, er þess er gætt, að hún hefur gefið útfyrirskipanir um að gæta varúðar í þessum efnum. Eins og hv. þm. er kunnugt, gerði prófessor Niels, Dungal tilraunir í nokkur ár til að sýkja fé á þennan hátt, en tókst það ekki. En þrátt fyrir það brýndi n. fyrir mönnum að gæta varúðar.

Varðandi það að skipta um menn í n., þá eru um þetta sérstök l., svo að ég efast um, að ég gæti það, þó að ég vildi. Það er á valdi annarra, hv. þm. og flokkanna, sem kjósa þessa menn, en 3 þeirra manna, sem sæti eiga í n., eru þm. Annars getum við ekki sagt annað en að þessir menn hafi breytt eftir beztu samvizku.

Það, sem kemur til minna kasta, er, að ekki hefur verið gert við girðingarnar þegar í stað. En það er ekki hægt að fullgera við girðingar, þegar komið er fram á þennan tíma, enda er það aðalatriðið, að gert hafi verið við þær áður en fénu er sleppt út í vor.

Varðandi það, að girðingin úr Kollafirði í Ísafjarðarbotn verði einnig tvöfölduð, get ég getið þess, að ég hef rætt það við n.

Þessar umr. gefa svo ekki ástæðu til frekari skýringa frá minni hálfu.