12.11.1951
Efri deild: 27. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 840 í B-deild Alþingistíðinda. (1254)

95. mál, eyðing svartbaks

Flm. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Herra forseti. Þetta frv. er gamall kunningi, sem hér kemur fyrir d. enn þá einu sinni. Ég gerði mér vonir um, að það þyrfti ekki að flytja þetta frv. á þessu þingi, þar sem fuglafriðunarl. hin almennu mundu ef til vill verða að l. á þinginu. En nú lítur ekki út fyrir, að svo verði, og þess vegna sáum við flm. okkur ekki fært annað en að bera fram enn á ný framlengingu á þessum l. Við höfum talið, að það væri réttast að framlengja l. eins og þau voru áður til þess að komast hjá þrasi og kannske skemmdum á frv., ef það færi milli d. Við vildum hafa þennan framlengingartíma þetta langan til þess að tryggja það, að ekki þyrfti að framlengja þessi l. enn á ný, en það lítur út fyrir, að það muni skipta um með hinum nýju friðunarl., þar sem þau gera þessi l. óþörf.

Ég þarf ekki að vera langorður nú um nauðsyn þess að halda svartbaknum í skefjum, því að það er vitanlegt, að sú skemmtilegasta framleiðsla, sem landsmenn hafa í dýraríkinu, er æðarvarpið og dúntekjan. Í staðinn fyrir að víða annars staðar fer fram dráp á þeim dýrum, sem verið er að rækta, þá er hér um það að gera að verja æðarfuglinn fyrir árásum annarra ofsækjenda hans og hlynna sem mest að honum, og eftir því sem það er gert með meiri alúð, eftir því eru líkur til að fáist meiri og betri afurðir af þessum nytjaskepnum. Það er allt of lítið af þessum fugli og of lítið lagt í sölurnar til þess að fjölga honum og gera hann arðbæran. — Ég legg til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og landbn.