16.11.1951
Efri deild: 30. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 841 í B-deild Alþingistíðinda. (1258)

95. mál, eyðing svartbaks

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég skal ekki fara að hafa á móti þessu frv. í heild, en hins vegar vildi ég gjarnan fá upplýstar tvær fullyrðingar, sem eru í grg. fyrir frv. Mér þætti mjög gott, ef hv. frsm. vildi upplýsa okkur hér í deildinni um, hvaðan þeim er komin sú speki, sem í þeim felst. Önnur er sú, hvaðan flm. er komin vitneskja um það, að skotlist hafi farið svo mjög aftur á síðustu árum. Hitt er sú fullyrðing, að eiturdauði sé ekki kvalafullur. Hvaðan hafa hv. flm. þessa vizku? Hefur einhver hrafn krunkað þessu að þeim, eða skilja þeir fuglamál, hefur einhver fugl trúað þeim fyrir þessu? Ég hefði gaman af að heyra, hvaðan þeim er komin þessi speki.