16.11.1951
Efri deild: 30. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 841 í B-deild Alþingistíðinda. (1259)

95. mál, eyðing svartbaks

Frsm. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Herra forseti. Ég vil þá svara þessum tveim spurningum hæstv. ráðh., dómsmrh. með meiru.

Það er þá fyrst, hvaðan við hefðum þá vizku, að eiturdauði væri ekki kvalafullur. Það hef ég nú aldrei sagt, heldur hitt, að hann tekur svo stuttan tíma, að segja má, að hann verði í einu vetfangi.

Magnús heitinn Björnsson náttúrufræðingur, sem ég held að hafi haft betur vit á fuglum en hæstv. ráðh., með allri respekt fyrir hans fuglaþekkingu, telur, að fuglar hafi svo hraða blóðrás, að eitrið berist þess vegna miklu hraðar út um líkamann en gerist hjá spendýrum, þess vegna er tíminn svo stuttur, sem líður frá því, að fuglinn étur eitrið, þangað til hann drepst af því, enda vita þetta allir, sem hafa séð. Þeir segja, að fuglinn geti rétt aðeins rykkt sér upp og kannske flogið stuttan spöl, en falli síðan niður dauður. Þetta gerist allt, ef svo má segja, á fáeinum sekúndum.

Um skotlistina er það að segja, að meðan rjúpnadráp var stundað meira en nú er og menn höfðu tíma, þá var skotlist stunduð svo miklu meira en nú er, að það er vafalítið, að nú hefur henni mikið farið aftur. Ég skal ekki segja, hvað þessu veldur, en engu að siður er sannleikurinn sá, að það er skotið mjög lítið í sveitum nú orðið. Ég geri ráð fyrir, að hæstv. ráðh. viti þetta, og skal ekki fara að deila við hann um það. En ég vil bara benda honum á, að það er staðreynd, að skotlistinni hefur farið aftur, og hitt, eins og sýnt hefur verið fram á, að dauðastríð fugla af eitri tekur svo stuttan tíma, að segja má, að það taki ekki nema nokkrar sekúndur og er miklu skemmra en hjá spendýrum, sem hafa miklu hægari blóðrás. Og þó að það komi ekki þessu máli við, þá skil ég ekki, hvað hæstv. ráðh. getur haft á móti því að drepa svartbak með eitri, því að sannast að segja hélt ég, að enginn hefði verið annar eins eiturbani og hann sjálfur í sinni borgarstjóratíð, þegar hann var að láta eitra fyrir mýs og rottur og önnur þess háttar kvikindi. (HG: Já; og hunda og flækingsketti.)