20.11.1951
Neðri deild: 30. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 844 í B-deild Alþingistíðinda. (1280)

101. mál, þingsköp Alþingis

Atvmrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Ég þarf ekki að fara um þetta mál mörgum orðum, vegna þess að í sjálfri grg. frv., stuttri eins og hún er þó, segir í raun og veru allt, sem segja þarf um málið. Þar er frá því skýrt, að ástæðan til þess, að farið er fram á breyt. á þingsköpunum varðandi skipan utanrmn., sé sú, að lýðræðisflokkarnir hafi ekki á undanförnum árum séð sér fært og sjái sér ekki heldur fært enn að sýna kommúnistum þann trúnað í utanríkismálum, sem þó er skilyrði þess, að hægt sé að hafa eðlilegt samstarf í utanrmn. um meðferð þessara mála eins og í öndverðu var ætlazt til, þegar ákvæði þingskapa í þessum efnum voru sett. Nú er það engu að síður ósk ríkisstj. að geta samt sem áður ráðfært sig við menn utan ríkisstj., jafnt hvort sem þing á setu eða ekki, um utanríkismálin og þá sérstaklega við þá menn, sem Alþ. hefur falið að fjalla um þessi mál. Og þetta er það, sem nú er fram borið hér í þessu frv., að utanrmn. kjósi úr sínum hópi með hlutfallskosningu þrjá menn, sem sérstaklega séu ríkisstj. til aðstoðar í utanríkismálum, þegar ríkisstj. þykir það æskilegt. En eins og segir í grg. frv., þá hefur kommúnistaflokkurinn eftir sem áður sinn rétt til þess að fjalla um þau utanríkismál, sem til utanrmn. koma. Aðalmunurinn verður því sá, að meðan þessi vandamál og viðkvæmu mál eru á samningastigi, eða meðan Íslendingar hafa ekki gert upp sinn hug um það, hverja stefnu Íslendingar skuli taka hverju sinni og hvaða málsmeðferð sé höfð, til þess að íslenzkum hagsmunum sé sem bezt borgið, þá er það tilgangur lýðræðisflokkanna að hafa samráð um það sín á milli, án þess að kveðja kommúnista þar til ráða. Það er engu leynt í þessu frv. og grg. þess um tilgang þann, sem vakir fyrir ríkisstj. og lýðræðisflokkunum á Alþ. Ég veit að vísu, að kommúnistar munu telja, að þeir séu fullkomlega verðugir þess trausts, sem nú eigi að svipta þá. Við, sem stöndum að flutningi þessa frv., erum á öðru máli. Hverjir fylgja okkur að málum í því efni, kemur fram við atkvgr. En ég tel það ófrjóa iðju að eyða tíma Alþ. til þess að rökræða það frekar. En öllum hv. þm. er ljóst, hvernig þessum málum er komið, og þarf í því efni ekki annað en að vitna í ræðu, sem einn af hv. þm. flutti hér nú á fundinum um mál það, sem næst var rætt á undan þessu hér.

Ég tel ekki, að það þurfi að hafa meiri málalengingar um þetta mál, og óska ekki að stofna til þeirra, en legg til, að þessu frv. verði að lokinni umr. vísað til hv. allshn.