20.11.1951
Neðri deild: 30. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 844 í B-deild Alþingistíðinda. (1281)

101. mál, þingsköp Alþingis

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Hæstv. atvmrh. hefur hér mælt nokkur orð fyrir frv. því, sem hér liggur fyrir, sem, eins og lýst er yfir í ræðu hans og í grg. frv., stefnir að því að útiloka fulltrúa Sósfl. frá því að hafa aðstöðu í utanrmn. til þess að fjalla um þau mál, sem hættulegust kunna að að verða þjóðinni og óheppilegast væri, að fulltrúar meiri hlutans á þingi réðu einir til lykta.

Ég hef nú í níu ár átt sæti í utanrmn. sem aðalmaður eða varamaður, og ég geng þess vegna út frá, að af hálfu hæstv. atvmrh. sé þessu frv. alveg sérstaklega stefnt gegn þeim mönnum, sem eiga fulltrúa eða hafa verið fulltrúar Sósfl. í utanrmn., og að það sé verið að lýsa því þar með yfir, að þeir verðskuldi ekki það traust að taka þátt í umr., sem þar fara fram. Nú er það máske nokkur óþarfi af hv. flm. þessa frv. að koma nú fram með þetta, því að á undanförnum tveimur árum hafa þeir haft hægð á um þetta með því einfaldlega að brjóta þau lög, sem Alþ. hefur sett um þessi mál. Og þess vegna virðist þetta lagafrv., sem nú er komið hér fram, vera svona eins konar samvizkurumsk hjá þessum hæstv. ráðh. og lögbrjótum um, að það sé nú viðkunnanlegra að breyta lögunum en að halda áfram að brjóta þau og breyta þeim þá þannig, að lögbrotin, sem hafa verið praktíseruð undanfarið, verði lögleg héðan af. Að vísu hafa þessi lögbrot, sem tíðkazt hafa tvö undanfarin ár með samstarfi þeirra þriggja flokka, sem stóðu að Atlantshafssamningnum, ekki verið neitt nýtt atriði í þessu sambandi, og þau hafa ekki alltaf beinzt gegn Sósfl. Hæstv. atvmrh. hefur haft sömu vinnubrögð, þegar hann sem utanrrh. sat í ríkisstjórn með Sósfl. og var þá að undirbúa Keflavíkursamninginn. Hann hafði líka þann hátt á þá að útiloka utanrmn. og þar með þann flokk, sem þá var í stjórnarandstöðu, frá áhrifum á málið, þó að sumir í þeim flokki yrðu samþykkir þeim samningi seinna meir. Og í meðferð þeirri, sem þessi hæstv. ráðh. hafði þá á þeim samningi og við þá samningagerð, fórst honum það svo illa úr hendi, að Alþ. þurfti síðar að gera stórkostlegar breyt. þar á, jafnvel þó að samningurinn væri lagður fram af hæstv. atvmrh., þáv. fors.- og utanrrh., með þeirri yfirlýsingu, að þar yrði engu um þokað.

Það hefur sýnt sig í meðferð þessara mála í utanrmn., þó að menn séu sammála þar og eins þó að þeir séu ekki sammála, að það mundi vera heppilegra og tryggara, jafnvel þótt meiri hl. hljóti að ráða meir áliti n., og mundi tryggja betur, að Ísland fengi þá slíka samninga sem bezta, sem bornir eru undir utanrmn., þegar þeir eru gerðir, að sem flest sjónarmið komi fram í utanrmn. Það er sá kostur við það, að andstæðingar slíkra mála geti tekið þátt í umr. um þessi mál, að það yrði með því móti — eins og sýndi sig viðkomandi Keflavíkursamningnum — hægt að benda á ýmsar veilur, sem meiri hl. n. og jafnvel samningsaðilar verða að taka tillit til, en meiri hl. utanrmn. sæi kannske alls ekki. Slíkar ábendingar geta ekki komið fram, svo framarlega sem þessi mál eru ekki rædd í sjálfri utanrmn. Það fer því svo fjarri, að nokkurt vit sé í því, frá því sjónarmiði að tryggja Íslandi sem bezta milliríkjasamninga, að sleppa því að ræða í utanrmn. þá samninga, sem yrðu á þennan hátt deilumál. Þarna er ekki um það að ræða að leggja fyrir utanrmn. eitthvað — við skulum segja eins og nú er komið málum á Íslandi — sem mundi snerta hér beinlínis hernaðaraðgerðir eða annað slíkt. Ég býst við, að hvenær sem slík mál væru á döfinni, mundu þau ekki vera rædd í utanrmn. Það, sem þannig mundi við þurfa að taka ákvarðanir um á Íslandi, mundi vera rætt annars staðar. Ef hins vegar Ísland á að verða mikið herveldi, þá býst ég við, að þess verði nú ekki langt að bíða, að hermálaráðh. og hermálaráðuneyti verði sett á laggirnar, eins og hæstv. ráðh. virðist hafa áhuga fyrir. En hvað snertir þessi mál og samninga, sem íslenzka ríkið á að gera, þá er það ófyrirleitni að gera þá samninga þannig, að þeir séu af Íslands hálfu einungis gerðir af þeim, sem eru fylgismenn þeirra flokka, sem gera samningana, án íhlutunar andstæðingaríkisstj., vegna þess að þegar þeir menn, sem styðja ríkisstj., gera samninga, þá er hugur þeirra fullur af pólitísku fylgi við þann aðila, sem verið er að gera samninga við, og af áhuga fyrir að gera þann samning og fá hann gerðan er hætta í því sambandi, sem hefur sýnt sig hvað eftir annað í þessum málum.

Annars verð ég að segja, að ég veit ekki, hversu alvarlega ég á að taka frv. eins og það, sem hér liggur fyrir. Og mér virðist nú, — svona eftir þessari rólegu ræðu hæstv. atvmrh., sem stakk mjög í stúf við þá æsingaræðu, sem hv. 8. landsk. þm. hélt hér áðan um annað mál, — að meining þessara manna, sem flytja þetta frv., sem hér liggur fyrir, sé meir sú að sýnast gagnvart yfirboðara, að sýnast gagnvart Bandaríkjunum, að sýnast gagnvart stórveldi, sem alltaf er að heimta af þeim róttækari aðgerðir gagnvart Sósfl. á Íslandi, — að sýna, að þarna séu þeir að samþ. voldug lög, sem útiloki þessa óttalegu kommúnista frá þessari gífurlega miklu stofnun, sem utanrmn. Íslendinga hafi verið á undanförnum árum ! Og mér liggur þess vegna að sumu leyti við að taka það frekar svona húmoristískt, þegar þessir góðu herrar eru að koma fram með svona frv., — sérstaklega þegar þeir svo lýsa því yfir um leið, að þeir hafi nú ekki traust á ótætis kommúnistunum til þess að taka þátt þarna. Það er nú ekkert nýtt þetta, að við fulltrúar Sósfl. fáum svona yfirlýsingar hér á Alþ. Þetta gengur nú nokkuð svona í bylgjum hjá hæstv. núv. atvmrh. og öðrum þjóðstjórnarflokkamönnum eftir því, hvernig utanríkismálaástandið sveiflast í heiminum á hverjum tíma. Hæstv. atvmrh. núverandi reiddist hér fyrir nokkrum árum síðan, — ég held, að það hafi verið um miðjan marz 1939, — út af því, að Hitler hafði farið fram á flugvelli hér á Íslandi og ég hafði orðið til þess hér á Alþ. að koma fram með fyrirspurn, sem leiddi það í ljós, að sendinefnd frá Lufthansa var þá á leiðinni hingað heim til þess að gera þessa kröfu, og ég símaði út til erlendra blaða um þessa fyrirspurn og upplýsingar, sem fram komu. Hæstv. atvmrh. ókyrrðist mjög, þegar heimsblöðin fóru að tala um það, ekki sízt þau amerísku, að Hitler væri að fara fram á flugvelli hér á Íslandi, og viðhafði þau orð, að það væru landráð af mér að hafa símað út og gert það heimi kunnugt, þegar sendinefnd kæmi frá svona vinsamlegri stjórn eins og Hitlersstjórninni til þess að fara fram á þessa hluti hér á Íslandi.

Nokkru seinna — það leið víst tæpt ár — var því lýst yfir hátíðlega af hálfu flm. þessa frv., sem hér liggur fyrir, að við í þessum kommúnistaflokki værum óalandi og óferjandi og ættum helzt ekki að vera nokkurs staðar í siðaðra manna félagsskap. Og svo var ekki líðið nema ég held 41/2 ár, þangað til hæstv. atvmrh. núverandi myndaði ríkisstjórn með þessum voðalegu landráðamönnum, með þessum mönnum, sem voru óalandi og óferjandi fyrir fáum mánuðum síðan. Og ég býst við, að hve gamall sem hann verður, — og megi hann verða sem elztur, — þá muni hann telja, að það hafi verið það bezta verk, sem hann hafi gert á ævinni. Þá var það svo, að það var ekki aðeins, að hæstv. atvmrh. núverandi taldi það nauðsynlegt til þess að gæfulega yrði stjórnað á Íslandi, að Sósfl. væri í ríkisstj. með Sjálfstæðisflokknum, heldur líka hitt, að hann persónulega sem fors.- og utanrrh. skyldi hafa samráð við mig persónulega sem formann Sósfl. um öll veigamikil utanríkismál, sem fyrir yrðu tekin. Og samtímis þessu vildi hann, að ég væri þá form. utanrmn., þótt hann nú allt í einu virðist álita, að ég sé ekki þess trausts maklegur að koma þar neins staðar nærri. Ég er sami maður nú sem ég var 1939 og sami maður sem ég var 1944, og það hefur ekkert breytzt hjá mér. En það hefur orðið sú breyt. á afstöðunni á Íslandi, að sú eina frjálsa og sjálfstæða ríkisstjórn, sem okkar lýðveldi hefur haft, sú stjórn, sem mynduð var undir forustu hæstv. núv. atvmrh., hún er liðin undir lok, og síðan hafa setið á Íslandi ríkisstjórnir, sem allar hafa verið háðar boði og banni Bandaríkjanna, þannig að þær hafa meira að segja ekki þorað í smámálum innanlands eins og Alþ. hefur fengið að kenna á í sambandi við íbúðarhúsabyggingar — að taka ákvarðanir um íslenzk mál. Ég verð þess vegna að segja, að ég kippi mér ekkert upp við það, þó að svona frv. eins og þetta, sem skýtur upp kollinum hér í dag, séu komin inn á Alþ. Það hrærir mig ekki nokkurn skapaðan hlut. Ég fyrir mitt leyti brosi bara að því. Það er í raun og veru skiljanlegt, að þegar menn gera sig einu sinni seka um svona fíflaskap. þá geri menn það aftur, þó að mér finnist það leitt. Hitt verð ég að segja, að það er mjög óheppilegt upp á afgreiðslu mála í utanrmn. að hafa þann átt á, sem undanfarið hefur verið hafður og nú virðist vera meiningin að gera smátt og smátt að föstu fyrirbrigði. Mín reynsla er sú af því að starfa í utanrmn., meðan hún hefur verið starfandi, að þar sé ekki svo mikil þekking saman komin hjá þeim mönnum, sem hana skipa, á utanríkismálum — og undantek ég ég þar ekki hv. flm. þessa máls — að það veiti af því, að a.m.k. þekking um staðreyndir berist þeim til eyrna, þegar verið er að ræða mál, og að það sé ekki ráðið til lykta þýðingarmiklum málum án þess að ýmsir, sem eru að taka ákvarðanir um þau, viti um einfaldar staðreyndir, sem eru að gerast. Þetta á ekki aðeins við um utanríkismál, sem snerta — við skulum segja — mál eins og Keflavíkursamninginn, hernámið núna eða önnur slík mál. Þetta á ekki síður við um mál, sem snerta utanríkisverzlunina. Það var áður siður, að fyrir utanrmn. voru lagðir allir samningar, sem gerðir voru um milliríkjaviðskipti Íslands og annarra landa. Það var ráðgazt við þessa n. um þessi mál. Og lengi hélt hæstv. núv. atvmrh. þeim sið, þegar hann var fors.- og utanrrh., að kalla mjög oft saman utanrmn. til þess að ráðgast við hana um verzlunina, samninga um hana, sem Ísland væri að gera, og ákvarðanir voru teknar á fundum utanrmn. um bæði venjulega tilnefningu manna í slíkar sendinefndir og hvernig þær væru samsettar og um þau verkefni, sem þeim voru lögð á herðar, og síðan, þegar þessar n. voru í samningum, um þá samninga, sem þessir menn gerðu, um einstök atriði þeirra. Undanfarið hafa þessi mál verið dregin út úr meðferð utanrmn. Og á sama tíma sem ríkisstj. heldur sem allra fastast í sinn einkarétt til þess að ráða utanríkisverzlun Íslendinga, er verið að koma undan valdi Alþ. þeim milliríkjasamningum, sem gerðir eru um verzlunina. Það virðist vera eitt af því, sem auðsjáanlega á að draga sem mest undan eðlilegum áhrifum Alþ., hvað ríkisstj. sé að aðhafast í slíkum málum. Og þrátt fyrir það, þó að hæstv. atvmrh. sé miklu betur að sér í þessum málum en í því, sem snertir hin hreinpólitísku mál, og miklu betur að sér um hvort tveggja heldur en sá maður, sem nú fer með utanrrh.- embættið, þá held ég samt, að það mundi verða þjóðinni til hagsbóta, ef þessi mál væru rædd í utanrmn. og tekin þar fyrir og aðstaða sköpuð til þess, að hægt væri að leysa þau yfirleitt á þann hátt, að Íslandi mætti að sem mestu gagni verða. — Ég veit, að hæstv. atvmrh. rekur máske minni til þess, að í stríðslokin nú fyrir fáum árum fóru skoðanir manna mjög á víxl um það, hverju mætti búast við um verðlag á íslenzkum afurðum, þegar stríðinu lyki. Það var skoðun, sem Framsfl. alveg sérstaklega hafði beitt sér fyrir og agiterað mikið fyrir og ýmsir menn í Sjálfstfl. líka, að strax og stríðinu lyki, mundi allt verðlag í Evrópu hrapa gífurlega. Og þetta var skoðun, sem var búið að reka svo mikinn áróður fyrir, að hún var komin ákaflega mikið inn í menn. Svo var send út sendinefnd af þeirri ríkisstj., sem hæstv. atvmrh. núverandi þá veitti forsæti, og í janúar 1945 stóðu yfir samningar í London milli þeirrar sendinefndar ríkisstj. og Breta. Sendinefndin hafði farið út með þá hugmynd, — það er alltaf sama sendinefndin, sem þangað fer, hún er eilíf og óumbreytanleg, –að það mætti gott heita, ef Íslendingar gætu samið við Breta um sama verðlag og hafði verið áður. En í ýmsum blöðum hér, t.d. í Vísi, hafði sérstaklega verið yfir því hlakkað, að Bretar höfðu gert kröfu um lækkun á fiskverði. Ég held, að það hafi verið 4. apríl 1945, sem hæstv. utanrrh., núv. atvmrh., lagði fram frá þeirri n. skeyti, þar sem n. lýsti yfir, að hún gæti fengið samninga við Breta um sama verð og hafði verið áður, og lagði til, að gengið yrði að þessu tilboði. Ég talaði á móti þessu, og ég man eftir, að hæstv. þáv. utanrrh., núverandi atvmrh., varð mjög hissa. Honum fannst svona hálfljótt af mér sem einum í stjórnarliðinu að vera að taka afstöðu á móti hans till. og lýsti því yfir, að hér væru allir svo glaðir, og m.a. stjórnarandstaðan, Framsfl., hefði látið ánægju sína í ljós yfir því, að náðst hefði sama verð fyrir okkar vöru og áður. Og ég man, að ég greiddi einn atkv. á móti þessum samningi. Það var m.a. samið í þeim samningi um verð á síldarlýsi, sem átti að framleiða sumarið 1945. Verðið mun hafa verið það sama og undanfarið, 38 sterlingspund tonnið. Verðið í ágúst þetta sama ár mun hafa verið komið yfir 60 sterlingspund tonnið. Sá áróður, sem rekinn hafði verið hér heima, að miklu leyti í pólitísku skyni sem eins konar aðstoð við kauplækkunarkröfur, sem Framsfl. og vissir menn í Sjálfstfl. líka héldu fram og höfðu beitt sér fyrir, og fjallaði um, að vöruverð mundi strax verða fallið í Evrópu, þegar stríðinu lyki, hafði haft þau áhrif, að þessi fluga sat föst í kollínum á þeim, svo að þeir fengust ekki til að taka tillit til þeirra staðreynda, sem hverjum, sem kynnti sér það, hlutu að vera ljósar, að gífurleg verðhækkun mundi koma í stríðslokin, m.a. vegna uppbyggingar þeirrar, sem tæki þá við.

Ég rifja þessa hluti hér upp núna, af því að ég sé, hvert stefnt er með þessari till. Það á að útiloka þann möguleika, að í utanríkismálum eða utanríkisverzlun komi fram menn, sem gætu þar haft áhrif á, að þau mál yrðu grandskoðuð, áður en þau eru afgreidd, og þetta er gert undir því yfirskini, að það eigi að koma í veg fyrir, að út berist sögusagnir um þessi mál, sem gætu haft óheillavænleg áhrif á þau. — Ég verð að segja, að þar sem þetta kom fram hjá hæstv. atvmrh., þá virðist mér sem því sé sérstaklega beint gegn mér, og grundvöllur þess er, að ég eigi ekki það traust skilið. Ég held hins vegar, að honum hefði farizt betur, ef hann hefði haft samráð við alla um utanríkismál, en ekki afgreitt utanríkismál heillar þjóðar með káki og handahófi, eins og hann gerði t.d.. þegar hann gerði Keflavíkursamninginn. Hann var þá önnum kafinn sem forsrh., og hann var önnum kafinn í alls konar einkamálum og sem þm. Gullbringu- og Kjósarsýslu, með kjósendur sína vaðandi inn til sín, og svo þurfti hann að gera Keflavíkursamninginn um leið. Á meðan sat Mr. Cummings hér víkum saman og athugaði málið, en hæstv. atvmrh. hafði aðelns fimm mínútur á stangli og stangli til þess að lita á málið. En hann vildi ekki út frá sömu forsendum leggja málið fyrir utanrmn. Hann vildi ekki heyra rök þeirra manna, sem hann vissi að voru samningnum mótfallnir, enda þótt hann hefði þá getað notað þeirra rök til þess að knýja fram betri samninga fyrir Íslands hönd. Það er hugsanlegt, að þegar menn eru settir til þess að vinna fyrir eina þjóð og þessir sömu menn skipa sér í pólitískan flokk, sem hefur ríka samúð með þeirri þjóð, sem við á að semja, láti þeir fylgispekt sína við þá aðila erlenda, sem þeir hafa samúð með, ráða fyrir sér í þessum milliríkjaviðskiptum. Og sökum þess, að þessir þrír flokkar, sem að þessu frv. standa, hafa ríka samúð með Bandaríkjunum, þá er hætta á, að þeir líti á þá hlið, eigi þeir að semja við Bandaríkin. Í stað þess væri það heppilegra fyrir Íslendinga, að um þessi mál væri fjallað af þeim fulltrúum Íslendinga, sem þar eru á öndverðum meiði og mundu þá um leið skapa þeim bezta aðstöðu. Það eru þessi pólitísku atriði, sem hér hafa verið látin ráða á Alþingi í vetur, í stað þess að í hvert skipti, sem samningur er gerður við erlent ríki, þá á að grandskoða hvert atriði í uppkastinu, áður en það er samþykkt sem gildandi samningur við viðkomandi ríki. Þegar þetta frv. er lagt fram, er verið að gera það að reglu, að hvert mál, sem fram kemur, skuli rannsakað og athugað af fulltrúum allra flokkanna, nema þegar um Bandaríkin er að ræða, en við þau munum við nú á næstunni þurfa að semja meira en við nokkurt annað ríki. Með þessu á það að vera tryggt, að engir komi þar nálægt, sem hefðu nokkra hvöt til þess að gagnrýna gerðir þessara herra. Þetta er sú fráleitasta aðferð, sem verið getur, til þess að fá hagkvæma samninga út úr samningaumleitunum.

Ég veit ekki, hvort hv. flm. frv. hugsa sér nokkra aðra breytingu á störfum sameinaðs þings né yfirleitt nokkra aðra breytingu á störfum utanrmn., og mér er nær að halda, að svo sé ekki. Það er nú svo, að utanrmn. hefur verið heldur aðgerðalítil. Það má t.d. geta þess, að hún hélt að ég held ekki nema einn fund í fyrra og það þá til þess að kjósa formann, af því að það þótti fallegra að geta sagt, að sá sami maður væri „fungerandi“ formaður utanrmn., þegar svo átti að fara að skipa hann sendiherra erlendis. Það mun því ekki eiga að gera þar á aðrar breytingar, en hitt vil ég taka fram, að eftir að þessi breyting hefur verið gerð, er hægara að dylja þau hneyksli, sem þarna fara fram, þegar búið verður að skikka n. svo sem hér er gert ráð fyrir.

Að lokum vil ég taka það fram, að hv. flm. hugsa of skammt í sínum till. Það er ef til vill rétt að fara hægt í sakirnar, en segjum nú svo, að þarna eigi að kjósa 3 menn. Þá er það nú svo, að sósialistar þurfa ekki að bæta við sig nema 2 mönnum; þá fá þeir þarna einn mann kosinn, og þá þarf nýjar breytingar til þess að taka af þeim þann rétt, sem þeir eiga.

Ég vil bara minna þá á, að þetta sama átti að gera 1939–40. Þá átti að útiloka sósíalista, en það skemmtilega skeði bara, að ótætis kjósendurnir tóku sig til og stækkuðu Sósfl. það mikið, að hann varð ekki lengur minnsti flokkur þingsins. Það er þess vegna ekki varlegt fyrir þessa menn að ganga losaralega frá ákvæðum sínum í þessu efni. Ég sé, að þeir hafa orðið að breyta þessu einn sinni, og ég held, að þeir ættu að athuga, hvort ekki kynni enn að finnast einhver smuga á þessari smíð, svo að aftur verði að prenta frv. upp einu sinni enn.