29.11.1951
Neðri deild: 35. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 857 í B-deild Alþingistíðinda. (1288)

101. mál, þingsköp Alþingis

Atvmrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Ég skal ekki hefja hér almennar umr. um utanríkismál, þó að tilefni gæti verið til þess. En hv. þm. Siglf. þarf ekki að bera kvíðboga fyrir því, að ég muni ekki reyna að fylgjast með þróuninni í utanríkismálum.

Ég get frætt hann á því, að þegar sú þjóð, sem hann telur líklegasta til að miðla málum í utanríkismálum og tryggja þann frið, sem allur heimurinn þráir, — þegar þessi þjóð bar fram till. sínar um frið og málamiðlun, varð utanríkisráðh. Rússa andvaka af hlátri. Hann sagðist ekki hafa sofið þessa nótt, svo hlægileg þótti honum þessi viðleitni Breta. Síðan lét hann fylgja, af sinni heimskunnu mælsku, stóryrði, sem Eden, utanrrh. Breta, svaraði með hógværri ræðu, þess efnis, að tími væri til þess kominn, að kalda stríðið í málflutningi væri látið niður falla. Hann sagði, — þessi sáttamaður, — að sér þætti það koma úr hörðustu átt og það kæmi illa við sig, að till. þeirra, sem vildu frið, vektu ekki annað en hlátur hjá málsvörum Austurveldanna. Enginn mundi fagna því meira en við, ef till. brezka utanrrh. mættu verða til þess að koma á friði í heiminum, því að við höfum ekkert spor stigið, sem ekki gengi í þá átt að stuðla að því að reyna að tryggja friðinn í heiminum. — Ég læt svo þessi ummæli nægja varðandi viðhorfið í utanríkismálunum.

Ég vil þakka hv. þm. fyrir vinsamleg ummæli í minn garð. Það eimir enn eftir af gömlum kunningskap. Ég hafði oft gaman af till. hv. þm:, og hann er mörgum góðum kostum búinn, þótt ef til vill verði ekki sagt það sama um mig. En við höfum báðir ókost á sviði utanríkismálanna. Mér finnst hann vera talhlýðinn um of, og honum finnst ég — það verður víst að telja það ókost — vera fullur af þjóðernishroka. En skoðanir mínar munu aldrei stjórnast af fyrirmælum frá erlendum ríkjum. Ég mun stefna að því einu, eins og ég hef alltaf gert, að tryggja öryggi Íslands, og ég veit, að það sama vakir fyrir öðrum flm. þessa frv. Allt tal þessa hv. þm. um annað er gripið úr lausu lofti, og það er víst í 50. sinn, sem fulltrúar hv. Sósfl. eru að leika hér „Ímyndunarveikina“ á þessu þingi hvað þetta snertir. Hv. 2. þm. Reykv. er vanur að leika „prímadonnuna“, en í dag virðast hafa orðið „rullubýtti“.

Hv. þm. lét orð falla í þá átt, að það mundi hafa verið betra fyrir okkur, hefðum við gert þá grein fyrir frv., að utanrmn. væri svo þung í vöfum, að nauðsynlegt væri að fækka þeim mönnum, sem í henni störfuðu. Ég skal ekkert um það segja, hvað hefði verið hyggilegast í þessu efni. En ég hef sjálfur samið grg., og hún er að því leyti hyggilegri en slík grg. hefði verið, að hún er sönn, hún segir ekkert nema sannleikann. Ef grg. með frv. hefði verið í þá átt, að frv. hefði verið borið fram í þeim tilgangi að gera meðferð utanríkismála einfaldari, hefði hún ekki sagt sannleikann, því að frv. er einmitt borið fram til þess, að stj. eigi þess jafnan kost að ráðfæra sig við menn, sem kjörnir eru af Alþ., í mikilvægum ákvörðunum í þessum málum, án þess að þurfa að sýna kommúnistum trúnað í þessu efni, sem ég tel þá ekki verðskulda. Þetta er ekki brot eða skerðing á lýðræði, því að eftir sem áður hefur Sósfl. rétt til að fjalla um utanríkismál og hafa áhrif á þau eftir því, sem þingfylgi hans segir til um.

Hv. þm. Siglf. sagði í ræðu sinni, að and-. staða sósialista gegn þessu frv. væri ekki sprottin af því, að þeir teldu hér vera um svo mikilsvert mál að ræða eða þeim fyndist þetta svo mikil réttarsvipting í þeirra garð, heldur væri það vegna þess, að þeir hefðu það efst á sinni stefnuskrá að láta ekki bera rétt minni hlutans fyrir borð. Ég held, að þetta sé einmitt gamalt deilumál á milli Sósfl. og Sjálfstfl., hver réttarstaða minni hl. eigi að vera, og ég vil minna á í þessu sambandi, hver afstaða sósialista hefur verið gagnvart minni hl. Alþýðusambandsins, og t.d. Dagsbrún fær 33 fulltrúa í þau samtök og bæjum utan af landi hefur verið bægt frá öllu áhrifavaldi í því félagi. Og ég veit ekki betur en að sömu söguna sé að segja af mörgum fleiri félögum, þar sem þessi flokkur hefur haft meirihlutavald.

Hv. þm. sagði, að það væri ástæðulaust fyrir Íslendinga að láta Bandaríkjunum í té eins mikil fríðindi í sínu landi og Bretar hafa gert, því að við fengjum það ekki jafnvel borgað og þeir. Ég neita því eindregið, að um nokkur kaup eða sölu sé að ræða í sambandi við hervarnarsamninginn. Við höfum þegið styrk frá Bandaríkjunum sem aðrar lýðræðisþjóðir, m.a. til að koma á stórkostlegum framkvæmdum í landi okkar, svo sem Sogs- og Laxárvirkjunum og áburðarverksmiðju, en þessi styrkur og þessar framkvæmdir eru algerlega óviðkomandi hervarnarsamningnum. Í landvarnarmálunum hafa Íslendingar gert það eitt, sem þeir telja nauðsynlegt vegna sinna eigin hagsmuna. Hv. þm. þekkir sjónarmið mitt og annarra lýðræðissinna í þessu máli svo vel, að óþarft er að ræða þetta frekar, og það ætti öllum að vera ljóst, að eftir því sem aðrar þjóðir efla og auka sínar varnir, því meiri hætta grúfir yfir hinum varnarlausu þjóðum. Af þessum ástæðum gerðumst við aðilar að Atlantshafsbandalaginu, og af þessum ástæðum er nú komið erlent herlið til landsins, þótt fámennt sé, til þess að skapa meira öryggi á Íslandi, úr því að við erum ekki menn til að takast sjálfir á hendur varnir á okkar landi.

Ég þarf svo ekki að fara um þetta mál fleiri orðum, því að ýmislegt í ræðu hv. þm. Siglf. var að efninu til mjög svipað og kom fram í ræðu hv. 2. þm. Reykv. við 1. umr. þessa máls og var svarað þá. Ég vil þó að lokum mínna á það, sem hv. þm. sagði í ræðu sinni, að meginið í þessu máli varðandi utanrmn. væri að finna í skoðanaskiptum mínum og annarra lýðræðissinna, en þau skoðanaskipti stöfuðu af áhrifum erlends stórveldis á hugi okkar. Þetta er alveg rétt. Við óttumst einmitt þau miklu áhrif, sem erlent stórveldi hefur haft á hann og hans flokksbræður og þar með íslenzk stjórnmál. Mín afstaða í þessu máli mótast einmitt af því, að ég óttast þau sjúklegu áhrif, sem hann og hans flokksbræður hafa orðið fyrir af erlendu stórveldi, og ég þori þess vegna ekki að sýna honum það traust í þessu máli, sem mig langar til, svo að orð hv. þm. eru að því leyti rétt; að það eru áhrif frá erlendu stórveldi á vissan hóp manna hér heima, sem hafa mótað afstöðu okkar í þessu máli. En ég vildi mega lifa þá stund að fá að endurheimta þennan hv. þm. í hóp þeirra manna; sem láta stjórnast af íslenzkum sjónarmiðum einum saman.