29.11.1951
Neðri deild: 35. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 859 í B-deild Alþingistíðinda. (1289)

101. mál, þingsköp Alþingis

Sigurður Guðnason:

Herra forseti. Ég bjóst nú við, að svo færi um þetta mál sem svo mörg önnur, sem hljóta afgreiðslu hér, að ég legði ekki orð í belg. En það var út af orðum hæstv. atvmrh., sem ég kvaddi mér hér hljóðs, þegar hann minntist á minnihlutavaldið og drap á fulltrúakjör verkalýðsfélaganna í því sambandi. Ég mótmæli algerlega því sjónarmiði, sem þar kom fram. Verkalýðsfélögin eru hagsmunasamtök, og það er vitað mál, að .hjá þeim hefur ekki verið um hlutfallskosningu að ræða. En það var svo hér áður, að það var ákveðið, að enginn mætti bjóða sig fram til fulltrúakjörs í Alþýðusambandinu, nema hann væri Álþýðuflokksmaður, og þessari skipan var haldið uppi með aðstoð Sjálfstfl. Þetta þótti okkur sósíalistum rangt, þar sem við álitum þetta ekki geta samrýmzt lýðræðisskipulagi, og því höfum við haft í stjórn Dagsbrúnar menn úr öllum flokkum, svo að það er auðsætt, að þetta dæmi hæstv. atvmrh. er alveg út í loftið, ekki síður þegar á það er litið, að verkalýðsfélögin eru hagsmunasamtök. Í stjórn Dagsbrúnar hafa setið bæði framsóknarmenn, sjálfstæðismenn, Alþýðuflokksmenn og sósíalistar, og þessum mönnum hefur aldrei borið á milli í hagsmunamálum verkalýðsins. — En nóg um þetta.

Mig minnir, að það væri fyrir alllöngu síðan, að ég léti þá skoðun mína í ljós, að ég væri sannfærður um, að það væri alveg sama, hvað mikið væri smíðað af vopnum í heiminum; eftir sem áður ýrði það fólkið með berum höndunum, sem réði að lokum. Herbúnaðarkapphlaupið stefnir ekki að því að viðhalda friði og lýðræði í heiminum. Lítið atvík, sem kastar nokkru ljósi á þessi mál, kom fyrir nú á dögunum, þegar deila kom upp um það meðal fulltrúa Atlantshafsbandalagsins, hvaða byssur skyldi nota til verndar friðinum í heiminum. Það getur með öðrum orðum orðið deilumál milli hinna „friðelskandi“ þjóða, hvaða tegund af byssum eigi að nota til að skjóta niður hinn alþjóðlega kommúnisma. En það er sama, hvernig þeir skjóta, stefna verður aldrei drepin með vopnum. Það er hægt að skjóta og strádrepa menn með byssum, en aldrei stefnu. Og ég álít mjög hættulegt fyrir Íslendinga að taka afstöðu með þessari stefnu, því að við verðum að gera okkur ljóst, að friðurinn í heiminum verður aldrei geymdur í atómsprengjum eða fallbyssukjöftum. Þeir, sem hrinda styrjöldum af stað, skeyta ekkert um það, hve margir eru drepnir, ef þeir bara geta grætt fé á að selja vopnin. Og deilan milli þessara stríðsþjóða er einmitt um það, hverjir eigi að fá að græða mest á því að drepa menn. En í röksemdafærslu fyrir þessu máli, sem hér liggur fyrir, kemur ekki til mála, að hægt sé að flækja þar inn í, hvort hlutfallskosning — skuli viðhöfð í verkalýðsfélögunum eða ekki.