29.11.1951
Neðri deild: 35. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 860 í B-deild Alþingistíðinda. (1290)

101. mál, þingsköp Alþingis

Frsm. minni hl. (Áki Jakobsson):

Herra forseti. Hæstv. atvmrh. sagði í ræðu sinni, að hann hefði misst allt traust á sósíalistum síðan hann var í stjórn með þeim. Nú er ég sannfærður um, að þarna hefur hæstv. ráðh. brostið hreinskilni. Það er ekki ástæðan fyrir því, að hann hefur nú horfið frá samstarfi við sósíalista; að hann hafi misst traust á þeim. Það er ekkert, sem bendir til þess, að við höfum látið stjórnast af áhrifum frá erlendu ríki, og ég vildi biðja hæstv. ráðh. að benda á eitt atriði, sem gæti sannað það, að við höfum orðið fyrir slíkum áhrifum. Við höfum alltaf látið íslenzk sjónarmið ráða afstöðu okkar til mála. Við höfum staðið jafnákveðnir á móti herstöðvum í okkar landi, hvort heldur Rússar eða Bandaríkjamenn eða aðrar þjóðir hafa átt í hlut. Það var ákveðin okkar afstaða til þessara mála, þegar Bandaríkin báðu um herstöðvar til hundrað ára á Íslandi, en þá voru sósíalistar í stjórn. Hitt er svo alveg rétt, að hæstv. atvmrh. hefur vilja til að vera sjálfstæður í skoðunum, og hann sýndi þann vilja sinn meðan hann sat í forsæti með því að halda í spottann um það að láta ekki erlend afskipti hafa áhrif á stjórnmál innanlands. En það voru aðrir menn í hans flokki, sem óðir og uppvægir vildu hlýða boðum erlends stórveldis, og þá var honum ýtt til hliðar í bili, og sá hann þá þann kostinn vænstan að dansa með, ef hann ætti ekki að verða áhrifalítill eða áhrifalaus í stjórnmálum. Því lengra sem hæstv. ráðh. gengur á þessari braut, því meiri smán fyrir hann. Það þarf ekki að segja Íslendingum það, að leiðin til þess að forðast stríð sé að ganga í hernaðarbandalag. Þetta sér þorri Íslendinga, enda þótt margír hafi ekki gert neitt til að andmæla þessari blekkingu. Það hefur slegið óhug á þá út af afstöðu afturhaldsflokkanna í sambandi við hersetuna og sjálfstæði þjóðarinnar. En þeir hafa bara hugsað sem svo, að ef þeir gerðu eitthvað til að andmæla þessari afstöðu, yrðu þeir reknir út í yztu myrkur. Þeir hafa beinlínis misst kjarkinn og tekið það ráð að þegja. En það eitt er víst, að málum okkar hefur ekki verið stjórnað að undanförnu með hagsmuni Íslendinga eina fyrir augum. Það er engin tilviljun, að enn þá hefur ekki orðið ágreiningur milli Bandaríkjanna og Íslands um eitt einasta smámál. Ísland hefur í öllum málum tekið afstöðu 100% eins og Bandaríkin. Það er útilokað, að aðilar, sem hugsa sjálfstætt, geti verið svo gersamlega sammála í skoðunum sínum. Skýringuna er hvergi að finna nema í hinum bandaríska línudansi, sem nú er stundaður hér á Íslandi. Við sósíalistar höfum ætið verið því mótfallnir, að Íslendingar hölluðu sér að einu eða öðru ríki í utanríkismálum, og framar öllu öðru andstæðir því, að erlend ríki væru látin hafa áhrif á ákvarðanir innanlands. En hér hefur á síðustu árum verið gerð gengisfelling, skipulögð lánsfjárkreppa og sköpuð síaukin verðbólga, allt samkvæmt fyrirmælum frá Bandaríkjunum. — Með þessum orðum vildi ég mótmæla ummælum hæstv. atvmrh. um það, að við sósíalistar létum stjórnast af áhrifum erlendis frá. Annars kýs ég það helzt, að allir flokkar hér gætu borið gæfu til þess að taka höndum saman um það að láta ekki stjórnast af neinu öðru en íslenzkum hagsmunum. Við getum deilt hér heima um innanlandsmál, en við gætum verið sammála um það að forðast, að erlent ríki geti seilzt til áhrifa í landi okkar. Og Sósfl. ætlar sér sæti í utanrmn. til þess, að hann megi halda þar fram íslenzkum málstað. En nú vilja afturhaldsflokkarnir slökkva þessa íslenzku rödd í utanrmn., af því að þeir óttast — hana og eru hræddir um, að hún geti orðið þeim til óþæginda. En það er sannarlega ekki svona einfalt að þagga þessa rödd. Það er hægt að reka sósíalista úr utanrmn., en það er ekki hægt að taka fyrir það, að sífellt stærri hluti þjóðarinnar er nú farinn að skilja, inn á hve alvarlega braut íslenzku afturhaldsflokkarnir eru komnir. Það eru sífellt fleiri, sem eru farnir að óttast afleiðingar hinnar bandarísku utanríkismálastefnu. Það kastar ljósi yfir hið alvarlega ástand okkar, þegar þingmaður í Bandaríkjunum gerist svo ófyrirleitinn að lýsa því yfir, að það sé eðlilegt, að Englendingar vilji ekki hafa bandarískar kjarnorkustöðvar í sínu landi, en það sé hins vegar upplagt að hafa þær á Íslandi. Ábyrgur þm. í Bandaríkjunum lætur hafa þetta eftir sér. Það er sýnilegt, að örlög Íslendinga koma ekki frekar við þennan þm. en pest, sem kæmi upp í rottunum í New York. Það mætti segja, að maðurinn geti ekkert að því gert, hvað hann hugsar, en að láta það opinberlega í ljós, að það geri ekkert til, þótt þær fáu hræður, sem lifa hér uppi á Íslandi, hverfi úr heiminum, er svartasta ófyrirleitni. Og ég er viss um það, að hæstv. atvmrh. er áhyggjufullur sjálfur út af þeirri stefnu, sem stjórnarflokkarnir hafa fylgt að undanförnu. Ég er sannfærður um, að hefði hann verið utanrrh. nú, hefðu íslenzk stjórnarvöld ekki kropið jafnauðmjúklega við fætur Bandaríkjanna sem nú er gert. Þá hefði verið reynt að fara bil beggja og íslenzkir hagsmunir látnir sitja í fyrirrúmi, ef hann hefði notið stuðnings síns flokks, sem hann glataði, eftir að hann hætti stjórnarsamstarfi með okkur sósialistum. Hæstv. atvmrh. hefur marga þá kosti, sem nauðsynlegir eru til að geta haldið vel á utanríkismálum, ef hann bara lætur ekki blindast af þeim línudansi, sem nú er stiginn.

Hæstv. ráðh. sagði, að hann hefði gert grein fyrir ástæðunni fyrir flutningi þessa frv. í grg. Ég held einmitt, að það vanti alveg, að bent sé á ástæðuna í grg., því að ég veit, að hæstv. ráðh. er ekki það barn, þessi reyndi stjórnmálamaður, að hann telji það lífsnauðsyn fyrir íslenzku þjóðina, að þessi eini sósíalisti, sem nú á sæti í utanrmn,, verði rekinn úr henni, og hann á engan rétt til að álíta aðra svo barnalega að halda slíkt í einlægni. Ég áleit, að það mundi þó verða borið fyrir, að hér væri verið að berjast fyrir lýðræðið gegn einræðinu, en ráðh. gaf ekkert út á það. Ég trúi ekki, að ástæðan sé ótti við einn sósíalista í utanrmn:

Hæstv. ráðh. kom inn á það, er ég sagði í ræðu minni, að England hefði góða aðstöðu til að koma á sættum á milli stórveldanna, sem mundi hafa þá afleiðingu, að dregið yrði úr hinum stórfellda vígbúnaði, sem ógnar nú öllum þjóðum heims: England hefur þessa aðstöðu, en hin afturhaldssama kratastjórn héfur ekki notað þessa aðstöðu heiminum til góðs, og ég vil benda á, að það er fyrst núna, sem berast fyrstu fregnirnar um það, að England sé farið að stinga við fótum. Það virðist svo sem Churchill sé viðsýnni og hafi meiri kjark en meðlimir Labourstjórnarinnar, sem orðnir voru fullkomnar undirlægjur Bandaríkjanna á sáma hátt og íslenzku stjórnarvöldin. Nú virðist sú stefna í uppsiglingu, að England ætli að stinga við fótum, og ef það tekst, þá hef ég þá trú, að með þeim styrk, sem enn þá má finna í gamla Englandi, verði hægt að koma á sættum á milli stórveldanna, sem gætu leitt til þess, að hinu gífurlega vígbúnaðarkapphlaupi yrði hætt.

Það er óhjákvæmilegt að ræða nokkuð utanríkismálin í sambandi við þetta frv., vegna þess að það miðar að því að slökkva þá elnu rödd í n., sem sýnir ákveðna andstöðu gegn ofurvaldi Bandaríkjanna yfir íslenzkum málum, og þessi rödd fer í taugarnar á stuðningsmönnum Bandaríkjanna hér, og þeir óttast hana. Og trúað gæti ég því, að samvizkunag hæstv. atvmrh. út af þessu máli sé ekki svo lítið.