29.11.1951
Neðri deild: 35. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 863 í B-deild Alþingistíðinda. (1291)

101. mál, þingsköp Alþingis

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það eru aðeins nokkur orð um þetta frv., þar sem ég hef ekki miklu við að bæta frá 1. umr. málsins.

Það kom fram í ræðu hæstv. atvmrh., að vegna ástandsins í alþjóðamálunum sæju lýðræðisflokkarnir svokölluðu sér ekki fært að hafa samstarf við okkur sósíallsta um utanríkismál, og eins og kemur fram í grg., þá vill hæstv. atvmrh. ekki samstarf við okkur sósíalista. Hæstv. ráðh. sagði einnig, að að hinu leytinu langaði hann til þess að hafa samstarf við okkar flokk, en því væri engan veginn verið að leyna, að hér væri um að ræða breytta afstöðu gagnvart flokki okkar. Þessir þrír flokkar vilja ráða þessum málum sjálfir að einu og öllu. Hins vegar vil ég leyfa mér að segja hæstv. atvmrh. það, að ég þarf engin meðmæli, ef Sósfl. sér ástæðu til þess að taka upp samstarf við Hermann Jónasson og flokk hans eða Ólaf Thors sjálfan, ef íslenzkir hagsmunir bjóða svo. Hins vegar virðist líta svo út, að þessir flokksforingjar líti þannig á, að ekki sé vogandi að hafa slíkt samstarf við okkur. En hvað er hér annars að gerast? Það er fyrst og fremst það, að hæstv. atvmrh., Ólafur Thors, á það enn óbætt, að hann skyldi taka upp samstarf við sósíalista á nýsköpunarárunum. Það er það, sem nú er sífellt verið að núa honum um nasir, og hann vil] nú fyrir hvern mun þvo af sér kommúnistastimpilinn. Nú er lotíð svo lágt, að mér blöskrar.

Svo að ég víki nokkuð að kaupum og sölu, þá er nú ekki úr vegi að minnast atburðar, sem gerðist hér á Alþ. í fyrra. Svo var málum komið, að fjhn. Nd. vildi gefa frjálsar smáíbúðabyggingar og hafði mælt með frv. En svo skeði hið furðulega: Þegar n. hafði samþ. málið, þá er henni allt í einu skipað að skipta um skoðun og hindra, að frv. nái fram að ganga. Það hafði nefnilega komið í ljós, að hinir bandarísku forráðamenn mótvirðissjóðs brugðu fæti fyrir málið og skipuðu n. að skipta um skoðun. Þessir herrar sáu enga ástæðu til þess, að íslenzka þjóðin hefði ástæður til að byggja íbúðarhúsnæði. Þannig var fátækum mönnum úr verkamannastétt og millistéttum synjað um rétt til að reisa sér þak yfir höfuðið. Ef hæstv. ráðh. vill ekki kalla þetta erlenda íhlutun; þá veit ég ekki, hvað þetta skal kallast. Ég veit ekki, hvað skal kallast íhlutun í innanlandsmálum smáþjóðar, ef það er ekki þetta, þegar erlent veldi skiptir sér af gangi þingmála og skipar þingn. að skipta um skoðun í hvelli, því að þeir — þeir amerísku — séu á móti málinu.

Ég ætla að sleppa að þessu sinni að víkja orðum að hv. frsm. þessa frv., en langar að víkja nokkrum orðum til Framsfl. í sambandi við þetta mál. Ég býst við, að flokkurinn hafi athugað frv. þetta mjög gaumgæfilega. Frá því frv. kom fram, hefur það verið prentað upp og er nú mjög breytt frá því að það var fyrst prentað. Framsókn ætti því að vera það vel ljóst, hvað felst í þessu frv. Í 16. gr. þingskapa stendur m.a., með leyfi hæstv. forseta: „Til utanríkismálanefndar skal vísað utanríkismálum. Utanríkismálanefnd starfar einnig milli þinga, og skal ráðuneytið ávallt bera undir hana utanríkismál, sem fyrir koma milli þinga.“ Eins og sjá má af þessu, er það bókstaflega fyrirskipað, að undir utanrmn. skuli bera öll utanríkismál, sem fyrir koma, jafnt á þingi og milli þinga. Þetta var praktíserað þannig í þeirri beztu stjórn, sem setið hefur að völdum síðan lýðveldi var stofnað á Íslandi 1944, nýsköpunarstjórninni. Fyrir utanrmn. voru á þeim árum lögð öll utanríkismál, mál varðandi utanríkisverzlun og viðskipti, verzlunarsamningar og skipun manna í embætti erlendis. Með því var á þeim tíma því slegið föstu, að þessi mál heyrðu undir utanrmn. Hins vegar, þegar Framsókn kemur í stjórnina, er þessu öllu kippt úr fyrra farvegi, og þeir virðast nú ekki hafa neitt að segja varðandi stefnuna í utanríkismálum, utanríkisverzlun eða verzlunarsamninga. Það eina, sem þeir virðast hafa einhver ítök um, er skipun sendiherraembætta, ef svo býður við að horfa. Sjálfstfl. hefur þannig borið Framsfl. ofurliði í utanríkismálum, eftir að rn. Ólafs Thors riðlaðist og leystist í sundur. Maður skyldi nú ætla, að Framsókn hefði gætt að sér í þessum málum. Í gildandi l. eru ótvíræð fyrirmæli um það, að öll utanríkismál skuli leggja fyrir utanrmn., en með þessu frv. um breyt. á þeim l. er sú skylda algerlega horfin. Hið eina, sem eftir er af þeim fyrirmælum, er það, að gert er ráð fyrir, að á Alþ. starfi þingnefnd. Þeim rétti, sem var í l. um, að n. starfi á milli þinga, er nú kippt í burtu. Með þessu tilræði er þingræðið gert veikara, og utanrrh. ræður öllu um meðferð utanríkismálanna. Framsfl.-menn virðast vera með þessu, að veikja þannig vald þingsins, sem þeir þó hafa viljað standa á móti áður fyrr. Nú hefur það einkennilega skeð, að hv. frsm. meiri hl. allshn., 1. þm. Árn., minntist ekki einu orði á þetta í framsöguræðu sinni. — En af hverju gerir Sjálfstfl. þessa aðför að þingræðinu? Það er vegna þess, að Framsfl. hefur látið það viðgangast, að lögin væru þverbrotin, og nú er verið að binda endahnútinn á þetta; að utanrrh. fái öll völd í sínar hendur. Það er vitað, af hverju og í hvaða tilgangi þessir flokkar sækja þetta mál nú af svo miklu kappi. Það er til þess að útiloka Sósfl., að hann geti haft áhrif á gang utanríkismála og viðskipta. Þó stóð Framsfl. með Sósfl., er þessir flokkar kröfðust þjóðaratkvæðis um Keflavíkursamninginn, og hálfur þingflokkur Framsóknar greiddi atkv. á móti þeim samningi hér í þinginu. En hvað er nú? Nú eru Bandaríkjamenn komnir að þeirri niðurstöðu, að Framsfl. sé ekki að öllu treystandi vegna fyrri afstöðu til Keflavíkursamningsins; þeir hafi haft mök við skrambans kommana. Og nú heimtar utanrrh., að hann fái öll völd í sínar hendur. Þetta þýðir, að Sjálfstfl. fær öllu ráðið um utanríkissamninga og utanríkisverzlun. Þessi flokkur getur því rekið utanríkisverzlun Íslendinga sem eins konar fjölskyldufyrirtæki. Það er enginn annar en Framsfl., sem komið hefur þessu á, og flokkur hæstv. forsrh. er svo aumur í sambúðinni við Sjálfstfl. af meðferðinni í utanríkismálunum, að hann er farinn að leita á náðir þingsins vegna þess. Nú er hér frv. í þinginu um, hvort ekki mætti leyfa Sambandi ísl. samvinnufélaga að flytja út eitthvað af saltfiski. Þegar svo er komið, að íhaldið hefur öll völd varðandi útflutningsverzlunina, þá kemur Framsókn kvartandi og kveinandi á náðir þingsins út af slæmri meðferð í þeim efnum við samstarfsflokk sinn í ríkisstj. Sjálfstfl. hefur nú allt á þurru í þessum efnum, og nú með þessu frv. er flokkur hæstv. forsrh. að dæma sig algerlega úr leik í viðskiptum sínum við fjölskyldufyrirtæki Sjálfstfl. Það má mikið vera, ef Framsókn hjálpar þessu frv. í gegnum þingið, hvort ekki þurfi að koma til hjálpar henni við nábúann fyrr en lýkur. — Ég vildi skjóta þessu að hérna, því að þm. Framsóknar mættu gjarnan athuga betur sinn gang í þessu máli.

Ég ætla ekki að fara út í almennar umr. um þetta mál nú, frekar en orðið er. Hins vegar vildi ég undirstrika þetta atriði, ef Framsfl. hefur ekki gert sér fyllilega ljóst, hvað hann er að fara. Það var gerð gagnger breyt. á frv. frá því, að það kom fyrst fram, en ég held, að það væri enn þörf að athuga málið nokkru betur. Þótt nú sé með þessu frv. reitt hátt til höggs, þá er ég ekki viss um, að Framsókn ætlist til þess að láta rota sig með því um leið.

Það getur verið, að ég beri fram brtt. við frv. við 3. umr. þess, en ég læt við þetta sitja nú.