29.11.1951
Neðri deild: 35. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 872 í B-deild Alþingistíðinda. (1297)

101. mál, þingsköp Alþingis

Atvmrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Ég skal aðeins hafa örfá orð um þetta nú, en þá má ekki heldur ætlast til, að ég reki eða hreki öll þau firn, sem hér hafa komið fram af eintómum staðleysum og firrum.

Ég held, að í síðustu ræðum kommúnista hafi ekki komið fram neitt, sem ekki var í fyrri ræðum þeirra. Eitt af því var það, að Bandaríkin væru að skapa hér kreppu. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um það, en hitt er staðreynd, að ef Bandaríkjanna hefði ekki notið við, værum við ekki betur staddir en svo, að hér væri skortur. Annars ætla ég ekki að láta teygja mig út í þær umræður.

Annað atriðið, sem ég ætla að víkja að, er það, sem ég sagði við 2. umr., að kommúnistar þættu aldrei góðir kommúnistar, nema þeir tækju Rússa fram yfir allt annað. Um það ætla ég ekki heldur að eiga í orðaskaki við þá. Við skulum þá láta staðhæfingu standa þar gegn staðhæfingu.

Hv. þm. Siglf. sagði, að mér hefði láðst að geta þess, að kommúnistar hefðu aldrei viljað hér neinar herstöðvar. Út af fyrir sig er þessi staðreynd rétt. En það er einungis vegna þess, að þessi flokkur hefur vitað það, að þeim hefur ekki verið mögulegt að fá hér herstöðvar fyrir Rússa. Þess vegna vita kommúnistar það, að sú bezta þjónusta, sem þeir geta af hendi leyst fyrir sína austrænu húsbændur, er að reyna að koma því til leiðar, að Ísland sé óvarið. En þeim tekst það bara ekki. Ummæli þessara manna um hæstv. utanrrh. sýna vel, hver ótti þeim stafar af Bjarna Benediktssyni. Þeir vita vel, hvílíkur hæfileikamaður Bjarni Benediktsson er. Svo líkja þeir þessum manni við höfðingja Sturlungaaldarinnar, vegna þess að hann hefur fyrr en nokkur annar íslenzkur stjórnmálamaður risið til meiri mannvirðinga en nokkur annar vegna mikils mannvits og drengskapar. Og við meðráðherrar hans höfum það mikla trú á gáfum hans og hæfileikum, að okkur þykir engu máli vel ráðið, nema hann sé með í því. Það er því ekki mér til hróss, að þessir þm. vilja hefja mig til skýjanna á hans kostnað. Þvert á móti.

Þeir álíta mig minni mann en hann, og geng ég þess ekki dulinn, að það sé rétt.