04.12.1951
Neðri deild: 36. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 874 í B-deild Alþingistíðinda. (1301)

101. mál, þingsköp Alþingis

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég hef borið hér fram brtt. við 1. gr. frv., sem er prentuð á þskj. 320. Brtt. er við 1. gr. Á eftir 2. málsl. 2. efnismálsgr. („Til utanríkismálanefndar skal vísað utanríkismálum“) komi svo hljóðandi málsliður: „Ráðuneytið skal ávallt, jafnt milli þinga sem á þingtíma, bera undir utanrmn. verzlunarsamninga, er ríkið gerir, og skipanir í embætti í utanríkismálum.“ Eins og fram hefur komið í ræðum okkar sósialista um þetta mál, hefur þetta mál verið mjög illa hugsað í upphafi. Frv. þetta virðist, þegar það er athugað ofan í kjölinn, fyrst og fremst vera til þess að gera utanrrh. valdameiri. Nokkur lagfæring hefur þó fengizt á frv. frá því að það kom fyrst fram, og er nú tekin fram skylda ríkisstj. að bera utanríkismál öll undir utanrmn. Hins vegar er hinn yfirlýsti tilgangur frv. að útiloka sósíalista vegna samninga við Bandaríkin og samninga um hervæðingu Íslands. Það eru og fleiri ávextir, sem þetta frv. hefur í för með sér. Framsókn mun fá sín súru epli af þessu ráðabruggi. Utanrrh. verður einráður og hans flokkur um alla verzlunarsamninga og skipun í fulltrúaembætti ríkisins erlendis. Það var venja áður fyrr að hafa samráð við Alþ. um þessi mál, á meðan ríkisstj. hafði það í sinni hendi að selja meginhluta íslenzkra afurða, og það er eðlilegt, að ríkisstj. beri það undir utanrmn. Meðan landið var sjálfstætt og ekki undir erlendri harðstjórn og við máttum byggja hús hér á Íslandi án þess að spyrja útsendara frá erlendum bönkum, þá var þessi háttur á og góð samvinna milli Alþ. og ríkisstj. Nú er auðséð, að ef meiningin er að halda við það orðalag, sem nú er á till., þá er ætlunin að hverfa frá því fyrirkomulagi, sem var á þessum málum í upphafi lýðveldisins og var góður siður, en í stað þess gera það að einkamáli þeirra þriggja, er eiga að vera ríkisstj. til ráðuneytis. Mér þykir þetta illa farið, ef útiloka á 4 menn í n. frá því að fjalla um þessi mál. Ég álit, að sú utanrmn., sem Alþ. kýs, eigi rétt á að fjalla um þessi mál. Ég hef t.d. ekki orðið var við, að Framsfl. væri svo sérstaklega með saltfiskssölunni, að hann ætti að vera því svo fylgjandi að útiloka sjálfan sig úr n. Ég held, að þær sölur, sem hafa farið fram að undanförnu, hafi sýnt, hvernig þessum málum er varið. Það væri fróðlegt að vita, hvernig stendur á því, að stj. selur íslenzkar vörur í viðskiptalöndum okkar, sem nú eru, fyrir miklu lægra verð en hægt er að fá á frjálsum markaði. Ég held, að það sé fyllilega nauðsynlegt að fylgjast með því í n., hvað gerist í þessum málum, t.d. eins og þegar hraðfrysti fiskurinn er seldur 30% undir framleiðsluverði og það svo notað sem átylla til að okra á bátagjaldeyrinum. Togararnir gætu lagt upp í hraðfrystihúsin hringinn í kringum landið. En samningar milli .togaraeigenda og hraðfrystihúsanna stranda á því, að hraðfrystihúsin eru látin neita að gefa það verð fyrir fiskinn. sem hægt væri að fá á frjálsum markaði. Hins vegar munu hraðfrystihúsin vera hrædd við að láta þetta vitnast, vegna þess að það mundi kippa grundvellinum undan þessum áróðri fyrir bátagjaldeyrinum og þeim byrðum, sem hann nú leggur á landsmenn. Ég vil leyfa mér að lýsa yfir, að svo framarlega sem útflutningur á freðfiski væri frjáls, þá væri hægt að selja bann á framleiðsluverði. Hins vegar er búið að neita hér á Alþ. samþ. l., sem gæfu mönnum leyfi til að selja frjálst. Það er búið að koma í veg fyrir, að 3–4 mánuðir í haust væru hagnýttir í þessu skyni. Hæstv. ríkisstj. ætlar að losa sig við Alþ., til þess að hún geti framlengt bátagjaldeyrinn og annað slíkt án afskipta þess. Ég held það sé ákaflega misráðið af Alþ. að ætla sér að útiloka þann möguleika, sem það hefur til að hafa áhrif á þessi mál, með því að þau séu lögð fyrir utanrmn., en eins og fram á er farið í þessu frv., er utanrmn. útilokuð frá afskiptum af utanríkisverzlun milli þinga. Ég álít því, að Alþ. ætti að samþ. þá brtt., er ég flyt á þskj. 320, að það ætti að leggja utanríkisviðskipti undir hana bæði á þingtíma og milli þinga. Þetta væri líka í fullu samræmi við það, sem flm. hafa sagt að væri tilgangur frv. Ég vil vona, að þm. vilji athuga vel sinn gang, áður en þeir fella þessa brtt.

Þá er annað atriði, og það er um skipanir í embætti í utanríkisþjónustunni. Það var líka á fyrstu árunum eftir að lýðveldið var stofnað venja að bera slík mál undir utanrmn. Ég býst við því, að þm. hafi tekið eftir því við umr. í gær, að sendimenn okkar væru vel launaðir menn. Einn hv. þm. í fjvn. hélt því fram — og er ómótmælt —, að einn ræðismaður hafi 120 þús. kr. laun á ári. Sendiherrarnir eru langlaunahæstu menn ríkisins, og það virðast ekki vera nein ákvæði um það í launal., hve mikið þeir eiga að hafa í laun. En þessir menn eru með 200–300 þús. kr. laun hver, og virðist full ástæða til, að þessi n. hafi tækifæri til að fylgjast með því, sem þessir menn fá í laun, enda var það siður á tímum nýsköpunarstj. Ég held því, að rétt sé að samþykkja síðari efnislið till. minnar, og það er einnig í samræmi við hinn yfirlýsta tilgang frv. Það var aðeins verið að útiloka kommúnista, þessa hættulegu menn, frá samningum við Bandaríkin, og ef þetta er rétt og það var eini tilgangurinn, þá á hv. meiri hl. Alþ., sem að þessu máli stendur, að samþ. þessa till. mína. Það er ekki nokkur ástæða til að útiloka meiri hl. n. frá því að fjalla um slík utanríkismál sem þessi, enda er auðvelt að sjá um, að allt, sem snertir leynimakk Bandaríkjanna og Íslands, komist ekki upp fyrir því, og óþarfi að útiloka n. frá öllum utanríkisviðskiptasamningum.

Ég hef nú við 2. og 3. umr. einbeitt mér að því að lagfæra ágalla á þessu upprunalega frv., sem var skotið yfir markið. Hv. meiri hl. hefur tekið til greina ábendingar mínar og ætti einnig að taka þetta til greina.