04.12.1951
Neðri deild: 36. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 882 í B-deild Alþingistíðinda. (1305)

101. mál, þingsköp Alþingis

Frsm. minni hl. (Áki Jakobsson):

Herra forseti. Hv. 1. þm. Árn. talaði hér nokkur orð, og í tilefni af því, sem hann sagði, vil ég undirstrika það, að framkoma hans í þessu máli er harla einkennileg. Það er máske ekki hægt að álasa hann fyrir það, þótt hann taki að sér að bera fram mál, sem stríðir gegn hans sannfæringu, en geri það af skyldurækni við þá stjórn, sem hann styður. Það er orðið svo algengt, að þingmenn taki ekki sjálfstæða afstöðu til mála, heldur fylgi þeim stjórnarvöldum, sem þeir styðja, gegnum þykkt og þunnt, að slíkt er ekkert tiltökumál. Það er og athyglisvert, að enn þá hefur enginn Alþýðuflokksmaður tekið til máls um þetta mál, og er Alþfl. þó sá flokkurinn, sem einna ákafast hefur viljað kenna sig við lýðræði, en telur sér þó sæma að taka slíka afstöðu til mála. Og það verður ekki séð, hvaða rök Alþfl. færir fram til skýringar afstöðu sinni. Það varð ekki heldur séð af ræðu hv. 1. þm. Árn., að hann hefði veigamikil rök fram að færa fyrir málinu, og þá verður það ekki heldur séð af nál. meiri hl. allshn., en það er mjög óvenjulegt og þess áreiðanlega fá dæmi, að slíkt nál. sé látið nægja, en það hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta: „Nefndin mælir með, að frv. verði samþykkt óbreytt“ — og búið. Þetta er allt og sumt, sem þessir þrír flokkar hafa um málið að segja. Þegar verið er að samþykkja mál, sem búið er að fjalla um ár eftír ár og undirbúa ýtarlega, má segja, að nokkur afsökun sé fyrir því að skila nál. sem slíku, en þegar um svona mál er að ræða, er engin afsökun til fyrir slíkri afgreiðslu. Hvernig stendur á því, að hv. 1. þm. Árn. lætur sér sæma að skila slíku nál. sem þessu? Ég býst við, að skýringuna sé að finna í því, að hann skammist sín fyrir málið og eigi engin rök til að réttlæta það. Og þeir aðrir, sem standa á bak við nál., búa ekki betur, því að enginn þeirra hefur látið til sin heyra um málið. Þegar greidd voru atkv. um þetta mál við 2. umr., pössuðu fulltrúar Alþfl. sig með að vera ekki viðstaddir. Aðeins einn þeirra var viðstaddur, hv. 3. landsk. (GÞG), og greiddi hann atkvæði með málinu, en lét þó ekki heyra frá sér nokkurt orð um það; og er hann þó ekki vanur að láta málin fara svo fram hjá sér að leggja ekki orð í belg, og er hann sá þingmaður, sem hefur einna mesta ánægju af að hlusta á sjálfan sig tala. En um þetta mál sá hann ekki ástæðu til að segja orð. Þessi framkoma talar sínu máli um það, hvað hér er á ferðinni. Hér er mál á ferðinni, sem brýtur allt lýðræði.

Hæstv. atvmrh. sagði, að að óbreyttu hugarfari okkar sósíalista vildu þingmenn ekki hafa samskipti við okkur um þessi mál. Er það hlutverk þingsins að ákveða, hvort það vil] hafa samstarf við hina og þessa þingmenn? Það er þjóðin, sem sendir þingmennina á þing og veitir þeim þar með öllum rétt til að hafa afskipti af málum, svo sem þingsköp mæla fyrir um. Að vísu er hægt að viðhafa aðrar eins hundakúnstir og hér á að gera að kjósa fyrst nefnd með hlutfallskosningu og síðan nefnd í þeirri nefnd líka með hlutfallskosningu. En ákveðnir þingflokkar hafa ekki leyfi til þess að úrskurða, hvort þingmenn, sem þjóðin hefur sent inn í þingið, eigi að hafa leyfi til að hafa afskipti af ákveðnum málum eða ekki. Það er óskaplega einfalt mál að lýsa sig lýðræðissinna. En það reynir fyrst á menn, hvort þeir eru það í raun og veru, þegar þeir þurfa að leggja hömlur á sjálfa sig. Og ég vil segja, að þeir menn, sem fá sig til að styðja mál eins og það, sem hér er á ferðinni, hafa ekki staðizt mikla raun í þessu efni. Nú segja þeir hv. þm., sem styðja þetta frv., að þeir geti ekki látið utanrmn. starfa, þegar sósíalisti á þar sæti, vegna þess að honum sé ekki trúandi fyrir öllum þeim málum, sem hún á að fjalla um. Nú er það einkenni á allri utanríkisstefnu okkar hin síðari ár, að hana hefur vantað gagnrýni. Það hefur vantað í hóp þeirra manna, sem um utanríkismálin hafa fjallað, menn, sem ekki voru fyrir fram ákveðnir í að gleypa við öllu, sem frá Bandaríkjunum kom. Slíka menn hefur einmitt vantað, og það er víst, að við eigum eftir að reka okkur á, að þeir menn, sem hafa farið með utanríkismálin hin síðari ár, hafa hagað sér eins og kjánar. Það verður erfitt fyrir okkur að þurfa að hafa herlið í landinu í 20 ár, þótt það komi ekki til stríðs á þessum tíma. Rök okkar í þessu máll eru þau, að það þarf að hafa mann í utanrmn., sem hefur kjark til að standa gegn ásælni Bandaríkjanna til afskipta um íslenzk mál, og þjóðin á kröfu á því, að Sósfl. fái að hafa afskipti af utanríkismálum, svo sem fylgi hans segir til um. Alþ. hefur engan rétt til að svipta hann þessum rétti.

Ég býst við, að stuðningsmenn þessa frv. óttist fyrst og fremst, að sósialistinn í utanrmn. geti sett þá út af sporinu í bandaríska dekrinu. Ég býst við, að frv. sé einmitt komið fram vegna eins konar blygðunartilfinningar. Ég býst við, að hæstv. atvmrh. muni vera orðinn glöggskyggn á það, að stjórnin og aðrir hafa gengið allt of langt í Bandaríkjadekri, og nú sé blygðunartilfinningin komin á það stig, að mjög viðkvæmt yrði að láta sósíalista komast að hinu sanna. Það er enginn vafi á því, að það mun koma í ljós á næstu árum, að við höfum haft hreina kjána við utanríkismálastjórnina og að stefna Bandaríkjanna í utanríkismálum er hin ósvífnasta og hefur byggzt á því að úthluta ölmusugjöfum til smáþjóðanna í þeim tilgangi að ná á þeim tangarhaldi. Hæstv. utanrrh. hefur gengið á undan í Bandaríkjadekrinu, og aðra hefur brostið kjark til að stinga við fótum. Í þeirra hópi er hæstv. atvmrh. Hann hefur óttazt, að ef hann breytti eftir sannfæringu sinni, yrði hann talinn undir áhrifum frá kommúnistum, og hefur þessi ótti lamað kjark hans. Meðferð þessa máls mun vera með einsdæmum, og ég get fullvissað hv. flm. sem og frsm. allshn. um það, að þetta mál, þótt ekki sé það kannske stórt, mun sanna það betur en flest önnur mál, hvílík fásinna það er, þegar þessir flokkar, sem að frv. standa, vilja kalla sig lýðræðisflokka.

Hæstv. atvmrh. lét í það skína, að ef sósíalistar breyttu um skoðun í alþjóðamálum, væru lýðræðisflokkarnir tilbúnir að endurskoða afstöðu sína í þessu máli. Ég held það sé rétt fyrir hann að gera fyrirvara eins og hann gerði í framsöguræðu sinni, að ef þessir svokölluðu lýðræðisflokkar breyta um skoðun á því, sem þeir kalla kommúnisma, þá geti komið til mála, að einhverju verði breytt í þessum efnum, af því að það er það raunverulega. Sósíalistar hafa haft sömu stefnu frá því flokkurinn var stofnaður, hún hefur aldrei breytzt nokkurn hlut í neinum verulegum atriðum að því er snertir utanríkisstefnuna, en forustumenn borgaraflokkanna, þessara þriggja flokka, sem kalla sig lýðræðisflokka, hafa keppzt um það og verið í harðvítugri samkeppni innbyrðis um það, hver væri fyrstur til að breyta um skoðun á sósíalistum, þegar það hefur þótt sigurstranglegt að leita samstarfs við þá, og þar hefur hæstv. atvmrh. sýnt mesta hæfileika í því að skipta rækilega um skoðun á sem skemmstum tíma. Ég efast ekkert um það, að hann sem sleipur og slunginn stjórnmálamaður er ekki búinn að missa þennan hæfileika sinn að geta breytt um skoðun. Ég efast ekkert um það, ef veðrabrigði verða í Washington og ef gerður verður samningur í París nú í leynin., að hæstv. atvmrh. verði þá fyrsti maður til þess að breyta um skoðun, þegar hann telur sér það óhætt. Þá yrðu krossfarar í baráttunni við kommúnismann eins og hæstv. utanrrh. látnir draga sig í hlé og koma fram seinna, þegar aftur færi að blása í Washington. — Ég heyri, að hæstv. viðskmrh. telur það fullmikla bjartsýni. Ég veit ekki, hvort það er gott að slá neinu föstu um það, hvað verður þarna úti. En hæstv. atvmrh. hefur breytt sinni skoðun úr því að telja sósíalista landráðamenn, sem ekki sé hægt að tala við, eins og hann orðaði það í ræðu, sem hann flutti í janúar 1942, breytt henni svo rækilega, að hann myndaði stjórn með stuðningi sósíalista og taldi það vera til hags, og ég er honum sammála um það og tel það það bezta, sem hann hefur gert á sinni lífsleið. En það bendir ýmislegt til þess, að þau veðrabrigði geti orðið í Englandi, sem geti dregið á eftir sér þann dilk, sem muni verða til þess, að þessi fígúrulæti, sem hafa stjórnað stjórnmálamönnum Vestur-Evrópu og kommúnistaæsingum, séu að verða meira og minna liðin hjá. Staðreynd er, að það er ekki hægt að lifa almennilegu lífi í Evrópu með því móti að skipta Evrópu í sundur og banna viðskipti milli þessara tveggja helminga. Viðskipti milli þessara tveggja hluta eru óhjákvæmileg og hljóta að komast á, og það er svo komið, að Englendingar eru búnir að neita því að rýra sín viðskipti við austurblökkina meira en orðið er og svara kröfum Bandaríkjanna á þá leið, að Bandaríkjamenn eru farnir að sjá, að þeir komast ekki lengra. Evrópuþjóðirnar eru orðnar það þreyttar á styrjöldum, að þær eru ekki ginnkeyptar fyrir því stríði, sem Bandaríkjamenn eru að reyna að draga þær út í, og verði ekki stríð, þá get ég sagt hæstv. viðskmrh. það, að þá verður þetta ástand að breytast. Það er ekki hægt að halda áfram stríðsundirbúningi, án þess að það verði stríð. Það hlýtur að enda með stríði, eða það verður að hætta stríðsundirbúningnum. Nú horfir þannig, sem betur fer, að ekki er líklegt, að það verði stríð á næstunni, en það þýðir, að það verður að hætta þessum stríðsæsingum og stríðsundirbúningi og taka upp friðsamleg viðskipti milli þessara þjóða í Austur-Evrópu og Vestur-Evrópu, og þjóðir Evrópu hætta að láta stjórnmálamenn Bandaríkjanna segja sér fyrir verkum og að ekki megi beita skynseminni í stjórnmálum Evrópu. Evrópa hefur aldrei þurft að lúta því, að einhver utanaðkomandi öfl gætu sagt þannig fyrir verkum að mega ekki beita sinni reynslu og skynsemi til þess að leysa vandamál Evrópu. Stjórnmálamenn Vestur-Evrópu hafa hundraðfalda reynslu á við stjórnmálamenn Bandaríkjanna. Sérstaklega kemur það fram í utanríkismálum. Og þó að þetta nýja veldi vestur í Ameríku vilji hreykja sér hátt í krafti sinna peninga, þá getur það aldrei fyrir peninga keypt þá reynslu, sem Vestur-Evrópuþjóðirnar hafa. Það er að verða meira og meira um það, að Vestur-Evrópuþjóðirnar neiti að hlýða skipunum, og það kemur að því, að það hefur áhrif hér uppi á Íslandi og íslenzkir ráðamenn fara að neita að hlýða skipunum þeirra ráðamanna, sem vilja hlýða Bandaríkjunum og vilja kasta allri sjálfstæðri skoðun, eins og ýmsir leiðtogar okkar þjóðar, sem vilja láta Bandaríkin hugsa fyrir sig. Það kemur að því, að þeim verður ýtt til hliðar, ef þeir taka ekki viðbrögð og reyna að láta heilann starfa aftur. Það er fásinna að bera það á borð fyrir almenning á Íslandi, að það sé vörn fyrir Ísland að hafa bandaríska flugvelli á Íslandi. Bandaríkin eru hér með stærsta flota á Atlantshafinu og eru stærsta flotaveldi heims. Þau eru tilbúin hvenær sem er, að svo miklu leyti sem þau telja sér hag í því, að Ísland verði látið í friði, og hafa hundraðfalda aðstöðu til þess að verða fyrri til. Þau eru tilbúin hvenær sem er til að hertaka Ísland, ef hætta er yfirvofandi. En þau víta betur. Þau vita, að hertaka af hendi Sovétríkjanna kemur ekki til mála og sízt af öllu skyndileg hertaka. Flugvellir á Íslandi geta aldrei orðið til annars en að draga að sér árás. Flugvellir á Íslandi geta ekki veitt vernd borgum á Íslandi, ef til stríðs kæmi, þó að þeir gætu veitt vernd borgum í Ameríku; það setur borgir á Íslandi á vígvöllinn og hlýtur að draga að sér árásir. Hæstv. atvmrh. er ekki svo skyni skroppinn maður, að hann viti þetta ekki, og hæstv. utanrrh. veit það sennilega líka og ráðherrarnir yfirleitt. En Bandaríkin setja hnefann í borðið og segja: Þið eruð kommúnistar eða handbendi kommúnista, ef þið gangið ekki að þessu, og fáið enga dollara, ef þið gangið ekki að þessu.

Hver einasti stjórnmálamaður í hópi borgaraflokkanna telur sig eiga öruggan pólitískan dauða fram undan, ef hann dansar ekki með í þessu. Fyrir menn, sem komnir eru á þessa braut, eru það mikil vonbrigði, ef það fer svo, þvert ofan í það, sem þeir hafa gert sér vonir um, að það yrði friðvænlegra í heiminum en verið hefur og samningar tækjust milli þessara tveggja andstæðna um heimsmálin. Það er einmitt þessi órói stjórnarflokkanna, sem kemur fram í því, að gamall og reyndur þm. og aldursforseti þingsins lætur frá sér fara nál., sem er aðeins 8 orð. Vinnubrögð þessara manna í sambandi við þetta frv. gegn Sósfl. farast þeim svo óhöndulega, að það er nærri því einsdæmi.

Ég minnist þó annars máls, það var Keflavíkursamningurinn, sem lagður var fyrir þingið með örstuttri framsöguræðu hæstv. atvmrh., sem þá var utanrrh. og forsrh. Framsöguræðan fjallaði aðallega um það, að það væru prentvillur í þýðingunni á því íslenzka eintaki, sem fylgdi þessum samningi, og síðan eftir 1. umr. varð hann að fara fram á það við Bandaríkjastjórn að leiðrétta samninginn, af því að hann var svo afkáralega saminn, að hann var til þess að hlæja að honum. — Það hafa orðið svipuð vinnubrögð við að semja þetta frv. eins og vinnubrögðin við að semja Keflavíkursamninginn. Það var óhugur í hæstv. atvmrh., þegar hann lagði Keflavíkursamninginn fyrir þingið, og ég býst við, þó að þetta sé smámál, að það sé óhugur í honum samt. Hér er ekki skynsemin látin ráða, heldur bara blind þjónusta við erlenda fyrirskipun, og öll réttlætistilfinning íslenzku þjóðarinnar þverbrotin. En íslenzka þjóðin, þar sem fimmti hver maður greiðir atkv. með Sósfl., á erfitt með að sætta sig við það, að hæstv. atvmrh. eða aðrir menn séu að kveða upp úrskurð um það, hvort einn eða annar alþm. sé þannig úr garði gerður, að hægt sé að veita honum trúnað, sem þjóðin sjálf samþykkir að veita honum.

Af því að ég sé, að hv. 3. landsk. er kominn hér inn, sá eini af þm. Alþfl., sem greiddi atkv. með þessu frv., þá þætti mér fróðlegt að fá að heyra viðhorf Alþfl. til þessa máls.

Ég hef bent á, að nál., sem Alþfl. stendur að, samanstendur af 8 orðum, sem hljóða svo: „Nefndin mælir með, að frv. verði samþykkt óbreytt.“ — Nú kemur það fram í sambandi við þetta einstaka frv., sem hér liggur fyrir, að það eru engin dæmi til þess í þingsögunni, síðan þing var endurreist á Íslandi, að annað eins hafi verið samþ. eins og þetta, að það væri útilokaður flokkur frá því að geta átt menn í n. með því að láta kjósa aftur úr hópi nm. nýja n. Með því, sem hér er gert ráð fyrir, þá er Alþfl. með þessu útilokaður frá 3 manna n., en hann treystir, að annar hvor hinna flokkanna kippi honum með sér, en þetta mundi lenda á Alþfl. líka, ef það ætti að gilda almennt réttlæti í þessu, ef réttlæti skyldi kalla. Alþfl. er útilokaður með þessu ákvæði eins og Sósfl., en samt greiðir hv. 3. landsk., sem telur sig róttækan í hópi Alþfl., einn þingmanna Alþfl. atkvæði með þessu, af því að sá fulltrúi, sem var í allshn., mætti ekki og vildi ekki greiða atkv. um málið við 2. umr. Mér þætti fróðlegt að heyra, hvernig þessi hv. þm. vill rökstyðja þetta fyrirkomulag, að þannig sé hægt að útiloka einstaka flokka. — Svo vil ég spyrja hv. þm. um það, við hvorn flokkinn hann er búinn að gera samning, Sjálfstfl. eða Framsfl., um að kippa honum þarna inn. En ég þekki svo vel matarpólitík og harðfylgi Alþfl. við að komast í n. og trúnaðarstörf, að mér þykir ósennilegt, að hann greiði atkv. með þessu, nema hann viti fyrir fram, að þetta skyldi ekki lenda á Alþfl., heldur einhverjum öðrum. Ég hefði gaman að því, að þessi hv. þm., sem einn úr hópi flokksmanna sinna greiðir atkv. með þessu mjög svo undarlega máli, gerði grein fyrir sínu atkv., þar sem líka ekki hefur komið eitt orð frá Alþfl. til rökstuðnings þessu máli.

Hæstv. atvmrh. sagði í ræðu sinni áðan, að ég mundi hafa fengið snuprur fyrir það hól, sem ég hefði viðhaft um hann við 2. umr. Ég fékk engar snuprur, sem ekki er eðlilegt, af því að ég býst við, að sósíalistar séu sammála um það, að hann sé mjög nýtur maður, ef hann notar hæfileika sína rétt, og geti komið góðu til leiðar og sennilega meiru en flestir aðrir þm., sem fást við stjórnmál á Íslandi, ef hann vill nota hæfileika sína til góðs. Hann gerði það, þegar hann kom í nýsköpunarstjórnina, að koma góðu til leiðar. En hann lét það vera að beita áhrifum sínum í tvö ár eftir að hann fór úr stjórninni og lét aðra minni spámenn, sem hvorki höfðu hans skaplyndi, hæfileika né viðsýni, valsa meira, hann lét hæstv. utanrrh. og hæstv. viðskmrh. valsa þar eina í því að ákveða línuna fyrst um sinn og þorði ekki að beita sér meira. Það liðu tvö ár frá því að hann fór úr nýsköpunarstjórninni þangað til hann tók afstöðu í Bandaríkjaáróðrinum með áramótahugleiðingu 1949, og þá hafði hann raunverulega gefizt upp við að veita viðnám. Það var mjög sorglegt, sérstaklega fyrir okkur sósíalista, sem höfðum haft samstarf við hann og þekktum marga af hans miklu kostum, að horfa upp á, að þessi maður skyldi þurfa á efri árum sínum — eftir glæsilegt tímabil sem stjórnmálamaður og forsrh. fyrir athafnasamri ríkisstj. - að lúta svo lágt að fara að skrifa grein gegn betri vitund til þess eins að framlengja sitt pólitíska líf. — Áramótahugleiðing Ólafs Thors 1949 er ömurlegt plagg. Hann byrjar á því, þegar hann ætlar að sanna Bandaríkjunum, að hann geti staðið sig í baráttunni gegn kommúnistum, að tala af sér. Hann byrjar á því að segja, að Bandaríkin þyrftu að fá herstöðvar á friðartímum. Morgunblaðið varð að taka þetta aftur og sagði, að það væri ekki meiningin að hafa hér herstöðvar nema á ófriðartímum. Þetta ásamt fleiru sýndi, hvernig greinin var til komin. Hún var fyrst og fremst ætluð til þess að sýna Bandaríkjunum, að Ólafur Thors væri líka góð og gild vara eins og Bjarni Benediktsson og það þyrfti ekki að ganga fram hjá honum. — Ég benti á það í ræðu minni, að þrátt fyrir það að svo hefði farið fyrir Ólafi, að hann hefði breytt svona um skoðun og gefizt upp við að veita viðnám, þá væru hans kostir það miklir fram yfir Bjarna Benediktsson, að ég teldi að við hefðum aldrei lagzt svo lágt sem við höfum gert nú, ef hann hefði verið utanrrh. á þessum Bandaríkjatímum í utanríkispólitík Íslands. Hann hefði áreiðanlega haldið betur á þeim málum, jafnvel þótt hann væri kominn inn á þessa línu, sem Bjarni var á, af því að Bjarni er þannig maður, að hann er ýmist með eða móti, annaðhvort verður hann að játa öllu eða neita öllu. Ég er alveg sannfærður um það, að um leið og almenningur í Vestur-Evrópu fer að stinga fótum við Bandaríkjadekrinu og farið verður að semja um ágreiningsmálin, þá kemur það til með að sýna sig, hve gersamlega óhæfur hæstv. utanrrh. er til þess að gera nokkra samninga. Þetta er ekkert annað en geðbrestur, sem maðurinn hefur við að stríða, en þetta útilokar, að hann geti innt af höndum utanríkisráðherrastarf í frjálsu þjóðfélagi. Þegar þessi geðbrestur hæstv. utanrrh. er athugaður og svo hið góða skap hæstv. atvmrh. og einnig það, að þetta er einhver slyngasti samningamaður í hópi íslenzkra stjórnmálamanna, sem nú er uppi, þá er enginn vafi á því, að jafnvel þótt hann hefði í meginatriðum verið á sömu línu og hæstv. utanrrh., þá hefði hann aldrei látið hlunnfara sig eins og hæstv. utanrrh. hefur látið gera, hann hefði haldið betur á spilunum. — Nei, ég hef ekki fengið neinar snuprur fyrir að láta þannig orð falla um hæstv. atvmrh., það er síður en svo. Við sósíalistar, sem þekkjum hann, erum allir sammála um, hvað mikla kosti hann hefur, en það hryggir okkur, hvað hans hlutskipti í íslenzkum stjórnmálum er orðið ömurlegt. Ég er viss um það, að ef hæstv. atvmrh. hefði haft kjark til þess að beita sér gegn þessu Bandaríkjadekri, eins og hann vildi gera, — það sýndi þögn hans frá því hann fór úr stjórninni í febrúar 1947 og fram til áramótahugleiðinganna 1949, — þá hefði ekki verið eins farið inn á þessa braut og sennilega alls ekki. En einhverra hluta vegna var búið að ófrægja hann í hópi bandarískra stjórnmálamanna, og sennilega hefur hæstv. utanrrh. átt bróðurpartinn af því að koma þeirri skoðun inn, hvernig atvmrh. þjónaði kommúnistum. En ég er þeirrar skoðunar, að ástæðulaust hafi verið hjá hæstv. atvmrh. að gefast svona upp eins og hann gerði, og álít, að hann hefði orðið mikill maður með sinni þjóð, ef hann hefði veitt viðnám og viljað hindra, að við gæfum okkur algerlega á vald Bandaríkjanna eins og við höfum gert. Það er ekki hægt að finna eitt einasta dæmi þess, að við höfum haldið okkar sjónarmiði, en Bandaríkin orðið að láta í minni pokann. Ég veit, að hæstv. atvmrh. finnur ekkert slíkt dæmi.