04.12.1951
Neðri deild: 36. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 889 í B-deild Alþingistíðinda. (1306)

101. mál, þingsköp Alþingis

Atvmrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Ég gleðst yfir því, að ég skuli í augum þessa hv. þm. nú á gamals aldri vera orðinn svona meinlaus og í alla staði hinn ágætasti maður, og mig tekur það þyngra en orð fá lýst, að slíkt mikilmenni skuli reynast þjóðinni eins illa og fram kom í ræðu hv. þm. Siglf.

Ég kannast við þessi fagurmæli hv. þm. Siglf. í minn garð, og ég veit að þau stafa aðallega af tveim ástæðum. Í fyrsta lagi þekkir hann mig vel persónulega og ber eflaust hlýjan hug til mín, og í öðru lagi heldur hann, að ég sé orðinn tannlaus og meinlaus, en ég get sagt honum, að svo er ekki.

Blíðmæli kommúnista við umr. þessa máls í minn garð og skítkast þeirra í hæstv. utanrrh. (BBen) stafa af því, að þeir vita, að hæstv. utanrrh. hefur öllum öðrum fremur haldið á lofti kyndli frelsisins hér á landi, enda lítur Sjálfstfl. á hann sem einn mesta velgerðarmann sinn. En síðast og ekki sízt stafar það af því, að þeir vita, að traust hans og vinsældir ná langt út fyrir raðir stjórnarflokkanna. Hatur þeirra á honum og allt þeirra lof um mig stafar af engu öðru en því, að þeir óttast hann miklu meira en mig. En það er ástæðulaust fyrir þá að halda, að ég sé orðinn alveg meinlaus, — nei, karlinn er í fullu fjöri enn þá. — Ég tel mig ekki þurfa að svara ræðu hv. þm. Siglf. að öðru leyti.

Mér datt í hug út af þessari löngu ræðu hv. þm. (ÁkJ), að um leið og hv. 3. landsk. kom inn úr dyrunum, þá sagði hann: já, það var gott, að hann kom — og byrjaði svo á allri ræðunni aftur, — þá minnist ég þm., sem fyrir mörgum árum var að þæfa í máli. Hann hafði þá aðferð, að í hvert skipti sem einhver þm. kom inn, þá sagði hann: „Það var gott, að þessi kom“ — og byrjaði svo alltaf á ræðunni aftur, svo að lokum hafði hann talað í margar klukkustundir. — Ég skal taka ómakið af Alþfl. og segja, að lýðræðisflokkarnir vilja enga samvinnu hafa við kommúnista í utanríkismálum, og við höfum margoft getið um ástæðuna.

Það er sannast sagna margt í ræðum hv. þm. kommúnista, þar sem staðreyndum er brenglað á hinn herfilegasta hátt, en ef á að rekja það allt, þá tekur það langan tíma, og þar sem ég vil ekki tefja þessar umr., mun ég ekki gera það nema að nokkru leyti.:

Hv. 2. þm. Reykv. fór að minnast á lýsissöluna 1945 eða 1946. Ég man það vel, að mér var þá falið að sætta austrið og vestrið, og málið kom aldrei fyrir utanrmn., en kjarni málsins var, hvort ætti að bera málið undir utanrmn., og ef það var ekki þörf þá að leggja málið fyrir n., þá er það síður nauðsyn nú, þegar eigendurnir selja sjálfir sína framleiðslu. — Ég vil ekki fara að ræða hér það, sem ekki kemur þessu máli við, en það er það, að hv. 2. þm. Reykv. hefur borið hér fram frv. um lágmarksverð á útflutningsvörum, en hámarksverð á innflutningsvörum. Ekki veit ég, hver ætti að ákveða það, ef einstök vörutegund er tekin sem dæmi, eins og t.d. saltfiskurinn, hvernig eigi að haga sölu hans á vissum mörkuðum á hverjum einstökum degi. Ég vil segja það við þennan hv. þm., að ég vildi heldur taka að mér að selja alla framleiðsluna sjálfur en að þessum málum yrði svona háttað. — Hv. þm. (EOl) fann mér það til foráttu, að ég skyldi minnast á ungverska hveitið, og vil ég í því sambandi geta þess, að það er ekki nóg að nefna ákveðið magn, heldur verður einnig að taka tillit til gæðanna. — Ég skal ekki deila við hv. 2. þm. Reykv. um það, hvort hægt sé að selja allar okkar framleiðsluvörur fyrir austan járntjald. Ég vil aðeins vitna til þess, sem hæstv. utanrrh. hefur margsinnis upplýst, að flest viðskipti við þau lönd muni reynast miklu óhagstæðari en við hin vestrænu lönd. — Ég læt þetta nægja sem stutt svar til hv. 2. þm. Reykv.

Ég hef sagt, að tilgangur okkar flm. með frv. væri sá að hafna allri samvinnu við kommúnista um utanríkismál, og ég held, að meðan við förum þar eftir löglegum leiðum, sé ekki hægt að ásaka okkur.

Hv. þm. Siglf. sagði, að það væri svo illa á okkar málum haldið, að við yrðum að dragast með erlendan her í tugi ára. Ég held, að meðan utanríkisráðherra Rússa verður að sjálfs hans sögn andvaka af hlátri heila nótt yfir skynsamlegum tillögum um lausn hinna miklu vandamála, sem nú eru í alþjóðamálum, þá sé ekki skynsamlegt, að þetta litla land sé eitt allra landa óvarið. Kommúnistar vita vel, að þeir geta ekki betur þjónað hagsmunum Rússa en með sínu sífellda hlutleysistali, þar sem þeir vita, að ógerningur er að fá okkur flutta aftur fyrir járntjaldið. Það er ekki að gamni okkar, að hingað er kominn erlendur her, því að hver er sá, sem ekki vildi óska sér að geta haldið sér utan við þessa deilu, og hver mundi óska sér þess frekar en við? En skynsemin verður að ráða, og því hefur Ísland gerzt þátttakandi í varnarbandalagi hinna vestrænu þjóða. Kommúnistar líkja öllum aðgerðum Íslendinga í þessa átt við hina verstu glæpi og halda því fram, að þeir séu þeir einu, sem hafi hreinan skjöld. Þeir eru einfaldir, ef þeir halda, að við trúum þessu sífellda hlutleysistali þeirra. Þeir segjast alltaf hafa haft eina stefnu í þessum málum, og hefur þeim tekizt að telja sumum trú um, að svo sé. En úr því að þeir segjast hafa haft eina stefnu í utanríkismálum, þá hlýtur hún að vera sú að láta í einu og öllu að vilja móðurríkisins í austri, því að hafa þeir ekki sjálfir lýst því yfir, að hinn eini og sanni kommúnismi væri að hlýða að öllu leyti æðsta prestinum í Moskvu? Ég hef alltaf haldið því fram og geri enn, að kommúnisminn væri trúarbrögð, og ég held, að íslenzkir kommúnistar telji sér það ekki til fremdar að afneita boðorðunum. Ég skal að þessu sinni stilla mig um að tala nánar um þetta.

Hv. þm. Siglf. talaði um, að ég hefði ekki alltaf sömu skoðun á Sósfl., stundum fyrirliti ég hann eins og ég nú gerði, en sú hefði verið tíðin, að ég hefði myndað stjórn með hans þátttöku, og vonaðist þessi hv. þm. eftir því, að álit mitt á flokknum færi nú aftur að breytast til hins betra. Við vitum það allir, að Sósfl. er nú ekki hinn sami og hann var á árunum 1944–46. — En að lokum vil ég segja við þennan hv. þm., um leið og ég þakka honum fyrir oflofið, að ég mun ekki svipta hann voninni, ef hann bætir ráð sitt. Ef hann er tilbúinn að kasta þeirri trú og taka upp trú á guð síns lands, þá er ég reiðubúinn til viðtals hvenær sem er, en ekki fyrr.