13.12.1951
Efri deild: 42. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 895 í B-deild Alþingistíðinda. (1317)

101. mál, þingsköp Alþingis

Frsm. minni hl. (Finnbogi R. Valdimarsson):

Herra forseti. Ég fór nokkrum orðum um þetta frv. við 1. umr. og gat þess, að það væri merkilegt að því leyti, að það sýndi, hvað þeir flokkar, sem að því standa, teldu sig hafa efni á að leggjast lágt.

Frá praktísku sjónarmiði hefur frv. enga þýðingu, því að fulltrúa sósíalista í n. hefur ekki verið sýndur neinn trúnaður, og hefur það því enga breyt. í för með sér hvað það varðar. Eina breyt. er sú, að auk fulltrúa sósíalista verða 3 menn aðrir settir hjá og utanríkismálin ekki borin undir þá, og aðeins 3 menn eiga að vera ríkisstj. til ráðuneytis um þessi mál. Sú breyt., sem gerð hefur verið á frv., að ríkisstj. skuli ávallt bera þessi mál undir þá, hefur heldur enga praktíska þýðingu, því að engin trygging er fyrir því, að þessum ákvæðum verði fylgt. Þau hafa verið í lögum, en það hefur verið gengið fram hjá þeim og þau þverbrotin, og hefur það m.a. bitnað á fulltrúum Framsfl. Það er því engin trygging fyrir því, að framkvæmdavaldið fari eftir þingsköpum fremur en hingað til. Þeir þrír nm., sem taka þátt í þessu, mega búast við að verða fullkomlega sniðgengnir, ef þeir vilja ekki samþ. vilja ríkisstj. Þetta frv. átti að vera áróðursbragð, en fór út um þúfur, því að þessir þrír flokkar fóru í hár saman seinast í gærkvöld út af því, hver hefði unnið mest með sósialistum. Þessi klögumál hafa nú alltaf gengið, ef einhver hefur ekki lotið í einu og öllu vilja stjórnarinnar. Þetta átti sem sagt að vera áróðursvopn, en er orðið margnotað og varð ekki að neinu gagni. Þetta frv. hefur því enga praktíska þýðingu heldur.

Vitanlega er auðvelt að bera mönnum á brýn, að hvatir þeirra í utanríkismálum séu óþjóðhollar, en það er aldrei hægt að sanna neitt um hvatir manna. Ef við hér á Alþingi beittum alltaf því vopni að hafa á lofti, hvaða hvatir manna lægju til grundvallar gerðum þeirra og orðum, þá mundu umr. hér verða flóknari. Þetta vopn hefur verið notað í blöðum og á Alþingi, en það hefur ekki verið notað af mönnum í Sósfl., heldur af mönnum í öðrum flokkum. Það hefur jafnvel verið notað gegn mönnum í Framsfl. og Alþfl. Þessu vopni hefur þó sérstaklega verið beitt gegn Sósfl. og sagt, að hvatir hans væru óþjóðhollar. Þeir hafa fundið sig knúða til þess að berjast á móti honum, því að hann er öflugur verkalýðsflokkur, sem þeir vita að er hættulegur andstæðingur. Fulltrúar Alþfl. mega búast við því sama og hafa verið beittir þessu vopni. Hversu oft ætli þeir 4. þm. Reykv. og hv. 6. landsk. hafi verið kallaðir „Rússabolsar“, og hversu oft ætli 4. þm. Reykv. hafi verið kallaður „bolséviki“, er hann barðist sem öflugast?

Þetta frv. átti að vera áróðursvopn, en er orðið útslitið og kemur ekki að gagni, og þó að þessir þrír flokkar, sem að þessu frv. standa, hafi veríð sammála um að taka það upp hér á Alþingi, þá verða þeir aldrei sammála um afstöðu Sósfl. Af því að Sósfl. er öflugur verkalýðsflokkur, þá verða hinir flokkarnir að hefja samvinnu við hann og taka tillit til hans, þegar þeir sjá sér ekki fært að berjast á móti honum. Ég gæti nefnt dæmi þess, að Sósfl. hefur verið beittur þessu vopni, þó að ekki hafi þótt ástæða til að heita aðra flokka því fyrir sama verknað. Í febrúar 1945 var rætt um afstöðu til utanríkismála á lokuðum fundi. Hæstv. utanrrh. hóf áróður gegn Sósfl. fyrir afstöðu hans í þessu máli, en á sama tíma tók maður, sem engum hefur dottið í hug að saka um óþjóðhollustu, sömu afstöðu og Sósfl. Það var Thor Thors sendiherra. Hann tók þá afstöðu, að Ísland væri opinberlega herlýst með þessum samningi. Utanrrh. sagði, að sósíalistar hefðu tekið þessa afstöðu til að gefa Rússum átyllu. til íhlutunar um íslenzk mál. Ætlar ráðh. sendiherranum þessar sömu hvatir? En ef þessi afstaða sósíalista var tekin fyrir Rússa, hví eru þá sendiherranum ekki ætlaðar sömu hvatir? — Þannig hefur verið beitt ódrengilegum vopnum, þó að þeir viti, að hvað sem um er deilt, þá er aldrei hægt að sanna hvatir manna, því að hjörtun og nýrun eru órannsakanleg, og er sósíalistar vilja efla málstað sinn, sem er málstaður verkalýðsins, þá er beitt á þá því vopni af andstæðingum þeirra, að þeir hafi óþjóðhollar hvatir.

Mér kemur það undarlega fyrir sjónir, að 4 nm. skuli skrifa undir nál., þegar ekki voru nema þrír mættir á fundi. — En Alþfl. er látinn í þessa aðstöðu hér á Alþingi, því að hann á ekki rétt á neinum nm. samkvæmt þingsköpum, en það þótti rétt að láta hann hafa mann í n., og vitanlega hefur það þýðingu fyrir hann sem þingflokk. Ef þessi regla væri látin gilda um aðrar n., þá væri Alþfl. útilokaður.

Sósíaldemókrataflokkar hafa reynslu af því, hvernig hægt er að afnema lýðræði og þingræði án þess að fremja beint stjórnarfarslegt rof. Einræðisherrar hafa haft lýðræði með ýmsum ráðum, t.d. Hitler, sem margír telja að muni aldrei hafa framið nein bein brot á stjórnarskránni. Þessari aðferð á að beita gegn sósíalistum. Þessari aðferð verður svo síðar beitt gegn öðrum sósíaldemókratafl. Því gera þeir skyssu með því að samþ. þetta og gefa þannig fordæmi, sem svo verður beitt gegn þeim sjálfum. Hv. þm. Alþfl. treysta á þetta í dag, meðan þeir eru í vinfengi við stjórnarflokkana. Það er hægt að fá menn í n., ef menn eru nógu góðir, en það er engin trygging fyrir því, að það verði alltaf.

Þegar við tökum afstöðu til mála, þá verðum við að gera okkur allt ljóst, og það er til afl, er breytt getur þingsköpum Alþingis, og l. eru sniðgengin. Og þegar ákvæði stjórnarskrárinnar eru einu sinni sniðgengin, þá er búið að gefa fordæmi, og það getur verið gert aftur í stærri atriðum. Við vitum, að það er engin ábyrgð hjá ráðh., þó að hann brjóti greinar stjórnarskrárinnar. Þannig verður smátt og smátt haldið áfram að afnema allt lýðræði og þingræði með því, að við höfum úrelta stjórnarskrá. Þetta frv. er áróðursvopn, og er það eitt nóg ástæða til þess, að Alþingi ætti að fella það.