11.12.1951
Efri deild: 41. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 905 í B-deild Alþingistíðinda. (1338)

141. mál, fiskveiðisjóður Íslands

Atvmrh. (Ólafur Thors):

Mér þykir í alla staði eðlileg þessi gagnrýni hv. þm. Vestm., en hann hefur lengi verið einn af aðalforsvarsmönnum sjávarútvegsins hér á þingi og einn af mestu öndvegisútvegsmönnum á landinu. Mér finnst það eðlilegt, að þessi málsvari útvegsins setji fram athugasemdir, þegar það er jafnframt vitað, að það er neyðarúrræði að fara þessa leið. En ég verð að viðurkenna, að ég sá ekki aðra leið heppilegri, ég kom ekki auga á hana. Ég gerði það, sem ég gat, til þess að ráðast á garðinn þar, sem hann var hæstur, og ég leitaði síðast á náðir fiskveiðasjóðs, af því að það var engin leið önnur til. Ég væri því manna fegnastur, ef hann eða aðrir gætu bent á aðra leið jafngóða. Þó má ekki stöðva þetta mál, því að þessir menn, sem með þessar vélar sitja, eru búnir að gera ýmsar ráðstafanir, sem ekki gátu beðið, ef þeir áttu að geta rekið bátana áfram, og þær gerðu þeir í trausti þess, að með velvilja yrði litið á þeirra mál.

Menn mega ekki treysta um of á þann tekjuafgang, sem orðið hefur á þessu ári hjá ríkissjóði. Það vita allir, að þegar slíkt stórhveli rekur, þá eru margir, sem vilja skera hvalinn. Og ef farið er inn á þá braut að skera hann, þá vil ég segja það, að við erum komnir inn á hálar brautir. Ég veit einnig, að hann álítur, að ríkisstj. hafi þann hug til þessa máls, að hún muni reyna að leiða það vel til lykta, svo að það er ekki nema tvennt, sem ég þarf að segja. Það er, að ég bið, að menn tefji ekki málið, og hitt er sú skoðun mín, að sú ríkisstj., sem um þessi kaup sá, geti ekki á neinn hátt orðið sökuð um það, hvernig þessar vélar hafa reynzt. Það er ómögulegt að gera einn ráðherra ábyrgan fyrir slíkum framkvæmdum, sem ríkisstj. stendur að.

Hann ber ábyrgðina á, að skipin verði byggð, en það er ekki hægt að krefjast þess, að hann sjái um, að þau séu ágallalaus. Ég efast ekki um, að sú ríkisstj. hefur þarna haft tæknilega miklu lærðari menn en hægt er að ætlast til, að nokkur ráðherra sé. Og dómi þessara manna hefur verið hlýtt, og ég efast ekki heldur um, að þeir menn hafa þar notað sitt vit eins og þeir bezt vissu. Á þessar vélar var komin góð reynsla, en það var um að ræða, að það voru miklu stærri vélar en þær, sem hér er um að ræða, og á þessar stóru vélar var komin reynsla, og á henni var byggt, þegar þessar minni sömu tegundar voru keyptar í íslenzk fiskiskip. — Ég skal svo ekki hafa um þetta fleiri orð, en ég treysti því, að þetta mál verði ekki tafið.