26.11.1951
Neðri deild: 33. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 913 í B-deild Alþingistíðinda. (1372)

114. mál, landnám, nýbyggðir og endurbyggingar í sveitum

Frsm. (Jón Sigurðsson):

Herra forseti. Út af ummælum hv. meðnm. míns um það, að hann hefði ekki haft neinn möguleika á því að vera viðstaddur, er brtt. voru afgreiddar, vil ég taka það fram, að n. sá sér ekki fært að bíða með afgreiðslu málsins, þar sem svo var líðið á þingtímann. Þess skal líka getið, að brtt. þessar voru bornar undir landnámsstjóra, Pálma Einarsson, sem hafði ekkert sérstakt við þær að athuga.

Ræðumaður kvað sig vera mótfallinn því, að nýbýlastjórn færi að hafa afskipti af því, hvaða jarðir leggjast í eyði. Það er nú svo, að hlutverk okkar í nýbýlastjórn er að stuðla að sköpun nýbýla, og ég hef alltaf litið svo á, að þegar verið er að stofna nýbýli á einum stað, en jarðir leggjast kannske í eyði við hliðina á sama tíma, þá séu þessar aðgerðir svipaðar því, að verið væri að ausa vatni í botnlausa tunnu. Það sýnist lítið vit í því að verja tugþúsundum króna til að reisa nýbýli á óræktuðu landi á sama tíma og það er látið afskiptalaust, að góðar jarðir eru lagðar í eyði. Og því miður hefur reynslan orðið sú, að þrátt fyrir ábúðarlöggjöfina hefur það sýnt síg, að sveitarstjórnir eru engan veginn einhlítar í þessum efnum, og þær virðast ekki hafa það vald á þessum málum, að þær geti komið í veg fyrir, að jarðir leggist í eyði. Ég veit dæmi þess, að bóndi, sem hafði tvær jarðir undir, fékk þá þriðju með samþykki hreppsnefndarinnar, og lagði hann þá hinar tvær í eyði til þess að losna við að byggja upp á þeim. Þetta er aðeins eitt dæmi um það, að hreppsn. hafa ekki og geta ekki rækt skyldu sína í þessu efni. Nú er það alls ekki tilgangurinn og mundi heldur aldrei verða svo, að nýbýlastjórn fari að hafa afskipti af öllum slíkum málum, heldur mundi það verða framkvæmt þannig, að nýbýlastjórn mundi hafa eftirlit og standa í sambandi við hreppsn. um það, að þær gættu skyldu sinnar í þessum efnum, því að í raun og veru þarf kannske oft ekki nema herzlumuninn til þess, að þarna verði snúizt á rétta sveif. En það er alkunnugt, að það er oft miklu léttara eða hefur meiri áhrif og er auðveldara fyrir menn, sem eru í nokkurri fjarlægð, að koma fram till. til þess að ráða sérstaklega svona málum til lykta en fyrir þá, sem eru kannske næstu nágrannar og meira eða minna í persónulegum kunningskap við hlutaðeigendur. Það eitt, að nýbýlastjórn hefur rétt til þess að blanda sér í þessi mál, veitir vissulega hreppsn. aðhald, og þó að það væri ekkert annað, mundi það, hygg ég, hafa sin áhrif gagnvart hreppsn., sem eru á báðum áttum, hvað gera skuli. Þær mundu þá leita samþykkis landnámsstjóra um þessi mál og fá þær ábendingar, sem nægðu til þess að gera skynsamlegar ályktanir um málið. Það er ekki svo, að nýbýlastjórn fylgist ekki með þessum málum. Landnámsstjóri hefur unnið að því að gera skrá yfir allar eyðijarðir á landinu, og er sú skrá mjög ýtarleg, enda væri undarlegt, ef nýbýlastjórn fylgdist ekki með slíkum hlutum, því að þetta er svo nátengt hennar starfi. Hér er vitanlega aðeins um þær jarðir að ræða, sem eru vel til búrekstrar fallnar og telja má, að séu til framtíðarbyggðar.

Þá eru þessar brtt. Hv. þm. gat þess réttilega, að erfiðasta verkefnið væri ekki ræktunin, heldur væru það byggingarnar. Og hann vildi halda því fram, að mönnum væri vorkunnarlaust að rækta og jafnvel — skildist mér — að byggja útihús, sem ræktunarsjóðslán fengist til, án nokkurs annars stuðnings. Ég vil í því sambandi benda á, að samt sem áður er það nú svo, að fjöldi bænda verður að fá lán og aðstoð til ræktunar. Stundum er mjög auðvelt að rækta, og það er náttúrlega gott og blessað. En langoftast er um að ræða ræktun á landi, sem er mjög rakt, og þar þarf mikla framræslu, og slík ræktun er mjög fjárfrekt fyrirtæki. En þá kemur bara þetta: Hvað er það, sem veldur sérstaklega erfiðleikum fyrir nýbyggjendur? — Og hv. þm. segir: Það er byggingarkostnaðurinn. — Og það er vissulega rétt. En af hverju er það? Maður verður langmest var við erfiðleika hjá þeim nýbyggjendum, sem byggja á óræktuðu landi og eiga eftir að rækta allt saman, og það er af því, að þeir hafa ekki skilyrði til að standa undir byggingarkostnaðinum, meðan þeir eru ekki búnir að rækta. Það er það, sem að er stefnt með þessu, að menn hafi þá fyrirhyggju að rækta fyrst og byggja svo. Og ég held, að það verði erfitt að mótmæla því, að það sé sú rétta leið í þessum málum. Að byggja fyrst og rækta svo, það er að byrja á öfugum enda, því að það er ræktunin, sem á að standa undir byggingarkostnaðinum. En byggingarnar, þótt nauðsynlegar séu, gefa ekki beinan arð.

Ég sé svo ekki ástæðu til að ræða frekar um þetta. Ég hef gert grein fyrir viðhorfí meiri hluta n. til þessa máls.