26.11.1951
Neðri deild: 33. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 916 í B-deild Alþingistíðinda. (1374)

114. mál, landnám, nýbyggðir og endurbyggingar í sveitum

Frsm. (Jón Sigurðsson):

Herra forseti. Ég vil aðeins geta þess, að þetta frv. lá fyrir nýbýlastjórn. Það liggur fyrir umsögn um það frá nýbýlastjórn. Frv. lá fyrir búnaðarþingi, og mælti það með frv. Það lá fyrir n. búnaðarþings í haust, sem enn mælti með frv., svo að mér sýnist frv. sjálft vera nokkurn veginn búið að ganga í gegnum þann hreinsunareld, að gallar á því ættu að hafa komið fram, ef mjög miklir væru.

Viðvíkjandi brtt. þá getur tæplega verið um mjög mikla galla að ræða, því að landnámsstjóri hefur farið yfir brtt. og ekkert tjáð sig þeim mótfallinn og bætir inn í þær ákvæðum, sem tryggja betur en áður var gert, að þetta verði ekki misnotað. Mér er ekki ljóst, hvernig á að misnota þessi ákvæði, þó að hv. 5. landsk. þm. reyni að gera þetta tortryggilegt.