26.11.1951
Neðri deild: 33. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 918 í B-deild Alþingistíðinda. (1376)

114. mál, landnám, nýbyggðir og endurbyggingar í sveitum

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Hv. 2. þm. Skagf. tók það réttilega fram, að landbn. hefur ekki að svo stöddu séð sér fært að mæla með brtt. hv. 5. landsk. þm., og m.a. vegna þess, að landnámsstjóri mætti á fundi hjá okkur og upplýsti, að eins og sakir stæðu vanhagaði landnámssjóð ekki um féð, þar sem um dálitla peninga væri að ræða í sjóði hjá þeim. Aftur á móti er vitað, að einstakar deildir Búnaðarbanka Íslands eru algerlega févana, og m.a. vegna þess erum við sammála um það, meiri hl. landbn., að leggja áherzlu á, að þær deildir bankans, sem ekki geta innt störf sín af hendi nú, njóti frekar þessa fjármagns nú. En hins vegar vænti ég þess fyllilega, þegar þar að kemur, að Alþ. geti staðið einhuga um það, að landnámssjóður fái það fé, sem hann þarf til þeirra framkvæmda, sem honum er ætlað að inna að hendi. Það kann vel að vera, að þær breyt., sem gerðar eru á l. um landnám, nýbyggðir og endurbyggingar í sveitum, hafi aukin fjárframlög í för með sér. Og ég vildi óska, að svo yrði, m.a. vegna þess, að það væri gleðilegt, ef árangur þessarar breyt., sem borin er fram nú á l., gerði mönnum frekar kleift að hefja búskap í sveit en hingað til hefur verið. Við, sem búum í sveit, erum sammála um, að það, sem allur búskapur grundvallast á, er að rækta landið. Og fyrsta skilyrðið til þess, að maður geti komið upp búi, er ræktun landsins til þess að afla heyja á og byggja afkomu síns búpenings á. Og það er ekki svo lítið atriði varðandi þessa löggjöf, að mönnum skuli heimilt að rækta án þess að hefjast handa um byggingar þegar í upphafi, er þeir reisa nýbýli. Ég hygg, að landnámsstjóri, sem er mjög velviljaður málinu, hafi þegar á einhvern hátt reynt að hliðra til í þessum efnum, svo að hér er ekki um neina skipulagsbreyt. í raun og veru að ræða, heldur bara tryggingu fyrir því, að þeir, sem verða við þennan starfa, geti á sama hátt og verið hefur hugsað jafnvel fyrir þessum málum og verið hefur.

Og það er alls ekki af því, að meiri hl. landbn. sé í sjálfu sér á móti þeim brtt., sem hv. 5. landsk. þm. kemur fram með, að þeir menn í n. geta ekki fylgt þeim, heldur hitt, að við sjáum ekki, að það sé tímabært að auka fjárframlög til landnámssjóðs nú, heldur skuli í stað þess snúið sér að því, þegar þörfin verður meiri, en nú sé snúið sér að þeim verkefnum, sem nær liggja og ég áðan nefndi.