12.11.1951
Neðri deild: 26. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 933 í B-deild Alþingistíðinda. (1442)

83. mál, Iðnaðarbanki Íslands hf

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég skal nú ekki vera langorður um þetta mál, en það var töluvert einkennileg ræða, sem hv. þm. Hafnf. var að flytja hér áðan. Hún var einkennileg að því leyti, að þessi hv. þm. ræddi ákaflega lítið um þetta frv., sem hér liggur fyrir, um stofnun og rekstur lðnaðarbanka Íslands h/f, og það litla, sem hann minntist á sjálft efni frv., var á misskilningi byggt. Hins vegar ræddi hann töluvert um það, að ríkisstj. og Alþ. væru misjafnlega örlát við atvinnuvegina, þegar fjárl. væru sett, og sérstaklega varð honum tíðrætt um það, hve miklum fjármunum væri varið til landbúnaðarins — of miklu, skildist mér, samanborið við það, sem varið væri til annarra atvinnugreina, eins og það væri það, sem honum var aðallega í huga að ræða, en ekki það mál, sem hér liggur fyrir.

Hv. þm. minntist á, að hér lægi fyrir í nál. minni hl. iðnn. umsögn frá Landsbankanum, með samþykki annarra banka, sem hér starfa, og frá formanni mþn. í bankamálum, sem nú starfar. Hann orðaði þetta þannig, hv. þm., að það væri allt frá formanni bankamálan. Ég veit ekki, hvers vegna hann hefur gert það, en eins og fskj. á þskj. 187 ber með sér, þá er það ekki álit formanns n., heldur allt n. Formaðurinn ritar undir nál. fyrir hönd n., en ekki aðeins sem formaður, enda hefur þessi umsögn verið samþ. í n. og er hennar umsögn, en ekki formannsins sérstaklega. — Hv. þm. lagði áherzlu á, að hæstv. iðnmrh. hefði komið til viðtals við þá þn., sem hefur haft málið til meðferðar, og talið, að samþykkt þessa frv. þyrfti ekki að koma í bága við störf mþn., því að með flutningi þess væri ekki farið inn á hennar verksvið, en hins vegar sagði hv. þm. að kæmi fram hjá form. mþn., að þessu væri ekki svona farið. heldur væri með flutningi þessa máls komið inn á verksvið þeirrar nefndar. Ég hef ekki heyrt lað, sem hæstv. ráðh. sagði um þetta mál, en hv. þm. las upp úr bókum iðnn., og það má vel vera, að mþn. og ráðh. séu að þessu leyti ekki sammála um það, hvort þetta mál komi inn á verksvið n. Það má vel vera, að svo sé, en ef svo væri, þá getur það stafað af því, að hæstv. ráðh. væri ekki fyllilega kunnugt um bað, hvernig n. hefur hagað störfum og hvað hún hefur unnið. — Ég sagði, að hv. þm. hefði rætt lítið um það frv., sem fyrir liggur, og það. sem hann ræddi það, hafi verið á misskilningi byggt. Hef ég þegar minnzt á það.

Hv. þm. var að tala um það, að útgerðarmenn gætu fengið lán út á fisk, en iðnaðarmenn gætu ekki fengið lán út á sína framleiðslu. Nú skal ég ekki segja, hvort þetta er rétt saman borið. en nokkurs misgánings virtist mér gæta hjá hv. þm. um þetta efni. Í l. um Útvegsbanka Íslands stendur ekkert um það, að þessi banki skuli lána út á fisk. Það stendur að vísu í lögum hans, eins og það er orðað, „að hann skuli styðja sjávarútveginn“, en það stendur þar líka. að hann skuli styðja iðnað og verzlun. Þetta, að Útvegsbankinn lánar út á fisk, eins og Landsbankinn, byggist ekki sérstaklega á lögum bankans, heldur á starfsvenjum, sem skapazt hafa í þessum bönkum. Útvegsbankinn er almennur viðskiptabanki, en hitt mótast svo í framkvæmdinni, hvaða tryggingu bankarnir taka hjá þeim, sem lánin fá. En að Útvegsbankinn lánar út á fisk, byggist ekki sérstaklega á lögum hans. — Ég ætla ekki að tala langt mál, en vildi gjarnan leggja áherzlu á þetta, að bankarnir, sem hér starfa, Landsbankinn, Útvegsbankinn og Búnaðarbankinn, eru almennir viðskiptabankar og þeir lána jöfnum höndum til atvinnuveganna. Það er rétt, að Útvegsbankinn lánar meira til útvegsins en annarra atvinnugreina, en þar er þó ekki stór munur á. Sama mun vera að segja um hina bankana. Bankarnir eru ekki atvinnugreinabankar, Útvegsbankinn ekki fyrst og fremst banki útvegsins og Búnaðarbankinn ekki eingöngu banki landbúnaðarins, og Landsbankinn er ekki fyrir neina sérstaka atvinnugrein. Hitt er svo annað mál, að þessir bankar hafa sína sérstöku sjóði, sem þeir lána úr til atvinnuveganna. Þannig er t.d. ræktunarsjóður í Búnaðarbankanum, og í Landsbankanum er veðdeild og stofnlánadeild, en þessar deildir eru algerlega skildar frá hinum almennu viðskiptadeildum.

Nú er í þessu frv. um Iðnaðarbanka Íslands um það talað, að bankinn skuli eingöngu vera fyrir iðnaðinn. Ég vil geta þess í þessu sambandi, að fyrir nokkrum árum var komið upp hér í Reykjavík stofnun, sem aðallega átti að vera fyrir iðnaðinn, en það var Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis, en nú mun hann ekki lána til þess atvinnuvegar sérstaklega. Það er því ekki víst, að þessi banki yrði fyrir iðnaðinn eingöngu, þótt stofnaður yrði. Það fer eftir framkvæmdinni. En gerum nú ráð fyrir því, að þetta verði rekstrarbanki fyrir iðnaðinn eingöngu. Með því að stofna slíkan banka, sem eingöngu lánaði einni atvinnugrein, væri farið inn á nýja leið. Ég segi ekki, að sú leið sé röng, en hún er ný. Í stað viðskiptabanka, sem lána jöfnum höndum til allra atvinnugreina, kæmi banki, sem lánar aðeins einstakri atvinnugrein. Ef þetta verður svona, má gera ráð fyrir því, að bankamálin verði í framtiðinni þannig afgreidd, að komið verði upp svo og svo mörgum viðskiptabönkum fyrir einstakar atvinnugreinar. Þetta er allt önnur aðferð en tíðkazt hefur í bankamálum, og eins og ég sagði, getur vel verið, að hún hafi nokkuð til sins máls, og ég skal ekki fullyrða neitt um það, að hún sé röng, en hún hefur ekki tíðkazt hér, og ég held, að ekki sé rétt að taka hana upp nema að vandlega athuguðu máli. Af því að ég er því dálítið kunnugur, þá vil ég segja það, að mþn. í bankamálum er ekki búin að rannsaka þetta atriði nógu vel enn þá. Það er enn eftir að afla ýmissa upplýsinga um þetta atriði innanlands og utan. Ég vil, að þetta sé athugað sem bezt, og ég tel eðlilegast, að ekki verði tekin ákvörðun um þennan banka að svo stöddu, þ.e., hvort við eigum að hafa almenna viðskiptahanka eða hvern banka fyrir sína atvinnugrein. Ég hef rætt þetta við ýmsa menn, sem hafa reynslu í þessum málum, og þeir eru ekki sammála um, hvað heppilegast sé í þessu efni. — Það var eiginlega þetta, sem ég aðallega vildi segja, en af því að nú er 2. umr. um frv., er rétt að athuga ýmis atriði þess betur.

Ég þykist sjá, að frv. þetta sé nokkuð snöggsoðið og að fyrirmyndin muni vera frá 1930 í lögum um Útvegsbanka Íslands. Og ég gæti vel trúað því, að það hafi verið ástæðan fyrir því. að þeir menn, sem undirbjuggu þetta frv., hafi ekki gert sér nógu góða grein fyrir ýmsum atriðum; m.a. þarf að hafa samráð við þá menn, sem að þessum atvinnurekstri vinna. En frv. þessu fylgir grg. frá höfundum þess, en þeir höfundar munu hafa starfað á vegum Landssambands iðnaðarmanna og Félags íslenzkra iðnrekenda, þó að ekki sé þess getið, hverjir þessir höfundar eru. En mér virðist, að nokkurs ósamræmis gæti milli þessarar grg. og frv. og að grg. eigi ekki fyllilega við þetta frv. Vil ég benda á þetta til upplýsingar fyrir þá menn, sem um málið eiga að fjalla. Á bls. 5 í þskj. 137 stendur í skýringu um 8. gr. frv.: „Rétt þykir til trausts og tryggingar fyrir viðskiptamenn bankans, að ríkissjóður ábyrgist innstæður. Það virðist ekki vera áhættusamt fyrir ríkissjóð, þegar þess er gætt, hve framlagt hlutafé iðnaðarmanna sjálfra er mikið“ o.s.frv. Hér er talað um það í grg. fyrir 8. gr., að það sé rétt til trausts og tryggingar fyrir viðskiptamenn, að ríkissjóður ábyrgist innstæður. Og nú skyldi maður ætla við þennan lestur, að í frv. standi, að ríkissjóður skuli ábyrgjast innstæður í bankanum. En við lestur 8. gr. get ég ekki séð, að það verði ráðið af henni, að svo sé. Þar stendur: „Bankanum skal heimilt að taka við peningum sem innláni eða mað sparisjóðskjörum eða á hlaupareikning, að kauna og selja víxla og ávísanir, að veita lán gegn tryggingum og að annast öll venjuleg bankastörf.“ Meira er þar ekki. Þar er ekkert farið inn á, að ríkissjóður eigi að ábyrgjast innstæður. Nú er það svo, að ríkissjóður ábyrgist innstæður í Landsbankanum og fleiri bönkum, en það er ekki gert ráð fyrir því í frv., að ríkissjóður ábyrgist innstæður iðnaðarbankans. Ef til vill hefur það verið meining þeirra manna, sem sömdu frv., að ríkissjóður taki ábyrgð á sparifé hans, og það hefur óneitanlega mikla þýðingu fyrir stofnunina. Mér virðist, að þetta sé ekki nógu ljóst og að þarna sé ekki nægilega vandlega að málinu unnið, þar sem í grg. eru skýrð atriði, sem ekki eru í frv. sjálfu. Það má vera, að þetta sé í einhverri annarri gr. frv., en það er ekki í 8. gr., og við hana er skýringin, sem ég var að lesa hér áðan.

Ég skal nú ekki hafa um þetta öllu fleiri orð. Það er töluvert margt í sambandi við þetta frv., sem ástæða væri til að ræða, en að sumu leyti hefur þetta verið rætt, og sumt af því er þannig, að ég kæri mig ekki um að ræða það að svo stöddu, m.a. af því, að það eru viss atriði, sem ég hef ekki enn gert mér fulla grein fyrir í sambandi við frv. Þetta mál er þannig vaxið og þá sérstaklega sá þáttur þess að gera grunnbreytingu á lánastarfsemi bankanna í landinu, að það væri gott fyrir hv. alþm. og aðra, sem hafa áhuga fyrir iðnaðinum og velgengni hans, að gefa sér tíma til að hugsa þetta betur. Ég mun því greiða atkv. með þeirri dagskrártill., sem hér er fram komin, án þess að taka nokkra endanlega afstöðu um það, hvort rétt sé að stofna sérstakan iðnaðarbanka hér á landi.