12.11.1951
Neðri deild: 26. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 936 í B-deild Alþingistíðinda. (1443)

83. mál, Iðnaðarbanki Íslands hf

Frsm. minni hl. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Það eru fá orð út af ræðu hv. þm. Hafnf. Ég vildi gera mér far um það, þegar ég flutti hér framsöguræðu fyrir hönd minni hl. iðnn., að hafa mál mitt áreitnislaust á allan hátt. Hins vegar virtist mér ergistónn í ræðu hv. þm. Hafnf. og hann vildi fara að stofna til metings milli atvinnugreina um það, hvernig að þeim væri búið. Mikill hluti ræðu hans var beinlínis um fjárlfrv., og það er mál, sem má ræða, þegar það á við, en ekki núna í þessu sambandi. Sama máll gegnir um það, sem hann var að tala um fjárveitingar úr mótvirðissjóði til landbúnaðarins. En það er búið að veita yfir 100 millj. kr. úr mótvirðissjóði til iðnfyrirtækja, sem hér er verið að reisa, en það eru virkjanirnar og rafveiturnar, en einmitt þessar virkjanir eru undirstaðan undir áframhaldandi framförum og vexti iðnaðarins. Það erum við víst sammála um, ég og hv. þm. Hafnf. Það má líka benda á það, að fyrst þegar fengið var lán erlendis frá í sambandi við Marshallaðstoðina, þá var það tekið eingöngu til iðnfyrirtækja. En það er ekki ástæða til að ræða þetta hér, þar sem það snertir ekki þetta frv. Um lánveitingar frá bönkunum til atvinnuveganna er það að segja, að mér er óhætt að fullyrða, að ef athugaðar eru skýrslur bankanna um það, hvaða atvinnugreinar fá mest rekstrarlán, þá hefur iðnaðurinn þar meiri hlut en landbúnaðurinn. En það er fjarri mér að fara í neinn meting milli atvinnugreina.

Hv. þm. Hafnf. vitnaði í gerðabók iðnn., þar sem skýrt er frá viðtali bankamálaráðh. og iðnaðarmálaráðh. við n., og las upp úr henni, þar sem hæstv. ráðh. fullyrti, að efni frv. kæmi ekki í bága við starf bankamálan. Þetta mun vera rétt. Nú getur það vel verið, að það séu mismunandi skoðanir hjá ráðherra og nefndarmönnum í bankamálanefndinni. En hvort tveggja þetta, sem hæstv. ráðh. hefur sagt og það sem nefndin segir, getur staðizt. Hér segir í áliti bankamálanefndar: „Með skírskotun til þess, sem að framan segir, álítur nefndin ekki heppilegt eða tímabært, að Alþingi samþykki frv. um stofnun Iðnaðarbanka, áður en nefndin hefur skilað áliti.“ Þetta þarf ekki að rekast á. Það má flytja frv. á þessu þingi án þess að samþ. það á því sama þingi.

Annars snerist ræða hv. þm. Hafnf. mest um málefni, sem ekki snerta þetta frv., en ræða mætti í sambandi við önnur mál. Hann kom ekki inn á þau atriði, sem ég minntist á í ræðu minni og þeim spurningum, sem ég varpaði fram í sambandi við frv., hvort núverandi bankar gætu annað þeim viðskiptum, sem hér um ræðir, hvort hlutur iðnaðarins sé borinn fyrir borð, samanborið við aðrar atvinnugreinar, og hvort betur muni séð fyrir iðnaðinum með því að stofna fyrir hann nú sérstakan iðnaðarbanka. Það eru ýmis mikilsverð vafaatriði, sem við í minni hl. höfum bent á, að nauðsynlegt væri, að þm. geri sér glögga grein fyrir áður en lengra er haldið. Við teljum því rétt að fresta afgreiðslu málsins, hvort stofna skuli sérstakan iðnaðarbanka, þar til álit og tili. bankamálanefndarinnar liggja fyrir.