12.11.1951
Neðri deild: 26. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 937 í B-deild Alþingistíðinda. (1444)

83. mál, Iðnaðarbanki Íslands hf

Emil Jónsson:

Herra forseti. Hv. þm. N-Þ. taldi, að ég hefði helzt til lítið rætt þetta mál efnislega og misskilið frv., þ.e.a.s. einstök atriði þess. Ég skal ekki þrátta við þennan hv. þm. um þetta, en ég held, að ég hafi gert mér fulla grein fyrir þessu máli og skilið tilgang þess og ekki misskilið frv. svo neinu nemi.

Hann sagði, að misskilningur minn hefði legið í því, hvernig ég hefði litið á starfsemi þeirra banka, sem fyrir eru. Ég sagði, að Búnaðarbankinn væri fyrst og fremst búnaðarbanki og Útvegsbankinn fyrst og fremst fyrir útveginn og þessir bankar þjónuðu fyrst og fremst þessum hlutverkum sínum, að lyfta undir þá atvinnuvegi. Þetta á að vera höfuðmisskilningur minn að dómi þessa hv. þm., en ég held nú, að þessi hv. þm., sem er nú bankaráðsmaður, misskilji þetta. Þetta er svona í framkvæmd. Ef tveir menn koma í Útvegsbankann og þurfa að fá lán og annar þeirra leggur fram sem tryggingu fisk, sem hann þarf að selja, en hinn aðilinn kemur með iðnaðarvöru og við skulum segja, að bankinn geti aðeins sinnt öðrum þeirra, þá er enginn vafi á því, hvor þeirra fær afgreiðslu í bankanum. Það verður útvegsmaðurinn. Svona er þetta í framkvæmd. Þetta veit bankaráðsmaðurinn. Búnaðarbankinn er búnaðarbanki og sinnir fyrst og fremst landbúnaðinum, og Útvegsbankinn er banki fyrir útveginn. Þetta er mergurinn málsins og aðalatriðið. Hins vegar er það rétt, að þessir tveir bankar hafa önnur mál með höndum líka. Iðnaðarbankinn á eftir anda málsins fyrst og fremst að vera lyftistöng fyrir iðnaðinn, og er kyndugt, að hv. þm. skuli tala um misskilning minn í þessum efnum. Honum ætti að vera kunnugt um þessi mál.

Bankamálaráðh. skipaði n. í bankamálum og sagði henni, hvað hún ætti að vinna. Svo kemur n., og þá kemur í ljós, að hún vinnur allt annað verk en ráðh. ætlast til. Hæstv. viðskmrh. mætir á fundi iðnn. og gefur yfirlýsingu um það að till. hennar komi ekki í bága við störf bankamálanefndarinnar. Ég veit ekki, hvort þetta getur kallazt misskilningur hjá þm. á störfum nefndarinnar.

Hv. þm. sagði, að ég hefði ekki rætt þetta fra. mikið í einstökum atriðum. Málið er þegar þrautrætt. Eina atriðið, sem ástæða er til að taka sérstaklega fram nú, er það, að fallið hefur niður ákvæðið um ríkisábyrgð á sparifé bankans. Hins vegar eru öll einstök atriði frv. rædd áður.

Hv. þm. V-Húnv. sagðist flytja mál sitt án nokkurs metings og sagðist vænta þess, að ég gerði það líka. Ég veit ekki, hvað þessi hv. þm. meinar með þessu. Ég gerði samanburð á því, hvernig unnið hefði verið að því að lyfta landbúnaðinum, og bar það saman við það, hvernig hlúð hefði verið að iðnaðinum. Ég vildi og fá upplýst, með hverjum hætti hæstv. ríkisstj. hugsaði sér að leysa vandamál iðnaðarins. Ég gæti flutt langt mál um það, hvað gert hefur verið fyrir aðra atvinnuvegi landsmanna og hvað ekki hefur verið gert hvað við kemur iðnaðinum. Ef það er einhver goðgá að minnast á þetta í þessum umr. hér á Alþ., þá er mér það sannast sagt óskiljanlegt.

Hv. þm. V-Húnv. sagði það ekki vera neitt nýtt, þótt lán væru tekin til landbúnaðarins, en það væri annað mál, þegar tekið væri lán til iðnaðarins í landinu. Í þessu tvennu felst mikill munur. Er lán er tekið til landbúnaðarins, þá er það lánað út aftur í íslenzkum peningum, þannig að lántakendur eru ekki háðir gengisbreytingum. Hins vegar, þegar lán var tekið til fiskiðnaðarins, þá tvöfaldaðist lánsfjárupphæðin í íslenzkum krónum eftir gengisfellinguna. Ég tel mikinn mun á þessu tvennu.

Í lok ræðu sinnar bar. hv. þm. fram nokkrar spurningar, sem hann sagði, að rétt væri að fá svör við. Ég skal nú reyna að svara þeim spurningum. Í fyrsta lagi spurði hv. þm., hvort núverandi bankar gætu ekki annað þeim störfum, sem iðnaðarbankanum væri ætlað að hafa með höndum. Það gæti komið til mála, en ekki á þann hátt, sem iðnaðarmenn vilja við una. — Önnur spurningin var á þá leið, hvort rekstrarlán til iðnaðarins væru það lítil, að bæta þyrfti úr þess vegna. Þessari spurningu svara ég játandi. Það þarf að bæta miklu við til að fullnægja lánsþörfinni. — Þriðja spurningin var á þá leið, hvort betur væri séð fyrir þörfum iðnaðarins með stofnun hins nýja banka. Þessu vil ég svara á þá leið, að iðnaðarmenn telja, að betur verði séð fyrir þörfum iðnaðarins með stofnun nýs banka vegna þess, að sá banki hljóti fyrst og fremst að taka tillit til þarfa þeirrar stéttar, sem honum er sérstaklega ætlað að þjóna.

Það var kannske ýmislegt fleira í ræðu hv. þm., sem ástæða væri til þess að ræða, en hins vegar má öllum vera það ljóst, að það er ekki með neinni áreitni í garð annarrá stétta í landinu, sem iðnaðarmenn flytja mál sitt varðandi stofnun nýs banka. Það á ekki heldur að liggja í láginni, að það hefur verið um misskiptingu að ræða til þessa.