13.11.1951
Neðri deild: 27. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 941 í B-deild Alþingistíðinda. (1447)

83. mál, Iðnaðarbanki Íslands hf

Frsm. minni hl. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Ég þarf ekki að halda nema stutta ræðu. En ég ætla að gera nokkrar aths. við ræðu, sem hv. þm. Hafnf. flutti í gær um málið. Nú er hann ekki hér viðstaddur, og ég vildi spyrja hæstv. forseta, hvort hann hugsi sér að ljúka þessari umr. nú á þessum fundi. Ef það væri ekki, þá hefði ég kunnað betur við, að hv. þm. Hafnf. væri við, þegar ég gerði þessar aths. (Forseti: Það er ætlunin að ljúka umr. Hv. þm. Hafnf. hefur fjarvistarleyfi. Ég ætla, að það sé í fullri sátt við hann, þó að umr. sé lokið nú.)

Hv. þm. Hafnf. flutti hér ræðu, eftir að ég talaði síðast í þessu máli, og hélt því sama fram og áður í sambandi við þetta mál, að það væri illa búið að iðnaðinum hér á landi af hálfu þess opinbera og hefði svo verið undanfarið. Hann hélt áfram tali sínu um það, að iðnaðurinn fengi lítil fjárframlög úr ríkissjóði, samanborið við aðra atvinnuvegi hér í landinu, og hann talaði eins og áður um það, að iðnaðurinn væri afskiptur um lán frá bönkunum. En mér virtist þó í raun og veru hv. þm. Hafnf. afsanna þetta í sínum eigin ræðum. Hann hélt fram, sem ég efast ekki um, að sé rétt, að á undanförnum árum hefði stöðugt fjölgað því fólki, sem vinnur að iðnaði, iðnaðurinn hefði stöðugt verið að færa út kvíarnar. Hann sagði, að það léti nærri, að um það bil einn þriðji hluti þjóðarinnar lifði nú af iðnaði, og að þetta hlutfall hefði stækkað mjög á undanförnum árum. Þetta bendir til alls annars en þess, að sérstaklega illa hafi verið búið að iðnaðinum á undanförnum árum. Atvinnuvegur, sem væri hornreka hjá löggjafarþinginu og bönkum landsins, gæti ekki sogað til sín til lengdar fólk úr öðrum atvinnugreinum, eins og iðnaðurinn einmitt hefur gert. Það hefur horfið fólk frá sjávarútvegi og landbúnaði í allstórum stíl að iðnaðinum. Þetta er vitanlega af því, að iðnaðurinn getur boðið þessu fólki kjör, sem því þykir betri og aðgengilegri en það hefur notið við aðra atvinnuvegi. Og þetta afsannar í raun og veru allt, sem sagt er um það af víssum mönnum, að sérstaklega hafi verið illa búið að iðnaðinum og verr en að öðrum atvinnuvegum í okkar landi að undanförnu. Enda er það svo, þó að ég sjái ekki ástæðu til að hafa mörg orð um það hér í sambandi við þetta mál, að iðnaðurinn hefur getað fært út kvíarnar og aukizt mjög á undanförnum árum, bæði fyrir það vitanlega, að margir duglegir menn gefa sig að þeim atvinnuvegi og færa sér í nyt nýjungar í tæknilegum framförum, sem orðið hafa, og ekki síður hefur þetta verið fyrir það, að svo hefur verið að iðnaðinum búið í þjóðfélaginu, að hann hefur haft góð vaxtarskilyrði. Það má benda á það, að meðan innflutningshöft voru hér á öllum vörum, urðu þau til þess að örva iðnaðinn í mörgum greinum hér á landi. Og við vitum líka, að iðnaðurinn býr við verndartolla á allmörgum vörum, sem hafa gert honum auðveldari samkeppnina við innfluttan varning með sína iðnaðarvöru. Þetta má nefna.

Því er haldið fram, að iðnaðinn vanti meira starfsfé. Ég vil ekki neita því. En það er ekki einsdæmi um iðnaðinn. Það er yfirleitt svo, að okkur vantar fjármagn til mjög margra hluta. — Ég hef ekki fengið hér í umr. upplýst af meiri hl. iðnn. neitt, eða það hefur ekkert komið fram af þeirra hálfu, sem sannar það, að það væri nú fyrst um sinn betur búið að iðnaðinum í þessu efni hvað lánsfé snertir, þó að þessi banki væri settur á fót. Engin rök hafa komið fram, sem sanni, að iðnaðurinn bíði tjón af því, þó að þessu máli sé frestað, þangað til bankanefndin hefur skilað áliti. Það kom fram í seinni ræðu hv. þm. Hafnf., að hann mótmælti því ekki — síður en svo — að þeir bankar, sem fyrir eru í landinu, mundu geta sinnt þeim verkefnum, sem iðnaðarbankanum er ætlað samkvæmt þessu frv. Hann taldi það sennilegt. En hann sagði, að starfsreglur, sem bankarnir færu eftir, stæðu í vegi fyrir því, að þeir sinntu iðnaðinum eins og öðrum atvinnugreinum.

Ég bendi á, að starfsreglur bankanna hafa ekki staðið í vegi fyrir því, að iðnaðurinn hafi getað fengið um 80 millj. kr. í rekstrarlánum, sem hann hefur hjá bönkunum. Og allir sömu möguleikar væru til þess að auka þetta lánsfé frá þessum sömu bönkum, ef þeir fengju meira fjármagn, og þá aukast möguleikarnir til þess að veita iðnaðinum og öðrum atvinnuvegum meiri lán en þeir nú gera.

Ég held, að það sé ekki hægt — enda hefur það ekki verið gert — að færa nein rök fyrir því, að iðnaðurinn sé nein hornreka hjá lánsstofnununum. Og eins og ég sagði áður, hef ég engin rök heyrt fram borin, sem sýni, að iðnaðinum væri það nokkurt tjón, þó að ákvörðun um það væri frestað, þangað til bankan. hefur skilað áliti, að samþ. efni þessa frv., og það er það, sem við í minni hl. n. leggjum til. Við segjum ekkert um það, að það geti ekki verið réttmætt að stofna iðnaðarbanka. Það er sjálfsagt að gera það, ef rannsókn á málinu sýnir, að það sé hagkvæmt fyrir iðnaðinn og þjóðfélagið yfirleitt. En við viljum aðeins fresta ákvörðunum um málið, meðan þessi n. er að störfum.