12.10.1951
Neðri deild: 11. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 47 í B-deild Alþingistíðinda. (146)

41. mál, Landsbanki Íslands

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég verð að segja, að mér virðist undarlegt, að hæstv. ríkisstj. skuli ekki láta svo lítið að hafa framsögu fyrir þessu máli. Þegar gerð var breyting á landsbankal. í vor, fór það mjög fram hjá mönnum. Veit ég ekki heldur, hvort hv. þm. hafa gert sér ljóst, um hvað þessi lagabreyting fjallar, en felld er þar niður 20. gr. úr lögum um Landsbanka Íslands. Ég man ekki betur en þessi lagagrein fjalli um það, hve mikið ríkisstj. megi taka að láni hjá seðlabanka Íslands. M.ö.o., þegar landsbankalögin voru sett, þá voru sett ákveðin fyrirmæli til að tryggja, að ríkisstj., hver sem með völdin færi, gæti ekki tekið nema ákveðna upphæð að láni hjá seðlabankanum. Þetta var hugsað sem eins konar trygging gagnvart framkvæmdavaldinu á hverjum tíma, til þess að gera seðlabankann öruggari gagnvart ríkisstj. Nú var farið að fara fram hjá þessu ákvæði. Það var svo í vor, að það sýndi sig, að skuld, sem ríkisstjórnin hafði stofnað til við sparisjóðsdeild Landsbankans, var orðin mjög mikil, í raun og veru óeðlilega mikil. Hins vegar var sú aðferð höfð til þess að láta þetta ekki líta illa út á reikningum bankans, að allur mótvirðissjóðurinn var settur á sparisjóðsdeildina, en hins vegar er það samkvæmt lögum, að mótvirðissjóðnum verði ekki ráðstafað án samþykkis Alþingis, og auðvitað er meiningin, að seðlabankinn láni mótvirðissjóðinn, og það er þannig lagabrot að hafa mótvirðissjóðinn í sparisjóðsdeild Landsbankans. Ég gerði athugasemd við þetta og lagði til, að lögin yrðu haldin, þannig að mótvirðissjóður yrði færður hjá seðlabankanum í staðinn fyrir sparisjóðsdeildinni, en sú till. var felld. Hins vegar sé ég, að bráðabirgðalögin, sem gefin voru út, breyta lögum um seðladeildina og mótvirðissjóður er færður yfir á seðladeildina og nokkuð af ríkisskuldunum. Þetta er út af fyrir sig formsatriði vegna þess, hvað ríkið er farið að skulda mikið. Þá er farin þessi leið, að ríkið skuldi hjá sparisjóðsdeildinni. Hins vegar verð ég að segja, að það út af fyrir sig að gefa á miðju sumri út bráðabirgðalög af hálfu ríkisstj. um það að nema brott úr lögum um seðlabankann 20. gr., sem byrjar þannig: „Seðlabankinn má eigi veita ríkissjóði önnur lán en bráðabirgðalán til allt að þriggja mánaða í einu og ekki hærri upphæð en svo, að nemi 1/4 af stofnfé bankans“, — þetta eina haft, sem sett er á seðlabankann, það er ekki viðkunnanlegt út á við, ef um það er að ræða, að íslenzkur banki þurfi að vernda sitt álit á frjálsum markaði. Það er farið að tíðkast mikið að gefa út bráðabirgðalög, en mér finnst formsins vegna gengið of langt, þegar ríkisstj. gefur út bráðabirgðalög til að gera mögulegt fyrir sjálfa sig að taka eins mikið lán og vera skal hjá seðlabankanum. Ég sé ekki, hvaða nauður rak til að hafa þetta svona. Hins vegar var hægt að breyta þessum lögum á síðasta Alþingi, og ég skil ekki annað en að mönnum hafi verið þetta jafnljóst þá. Sú eina röksemd fyrir brbl., sem raunverulega er færð fram og hægt er eitthvað að taka tillit til, er, að breytingar hafi orðið á viðskipta- og fjárhagsmálefnum landsins. Þær hafa orðið jafnmiklar í byrjun þessa árs eins og þær voru mestar áður. Það eina, sem maður rennir grun í að kunni að vera ástæða til þessarar breytingar, er sumpart athugasemdir, sem fram hafa komið um ráðstöfun mótvirðissjóðsins, og aðallega það, að það er starfandi n., sem á að rannsaka og gera till. í bankamálefnum landsins. En það hefur aldrei tíðkazt, þegar rætt hefur verið um bankafyrirkomulag, að ekki hafi verið minnzt á það við Alþingi Íslendinga að taka til endurskoðunar löggjöf landsins. Það hafa verið settar sérstakar milliþingan. í sambandi við bankamálin, og stundum hefur eitthvað komið út úr þeim. Það hefur verið mikil íhaldssemi í sambandi við breyt. á bankalöggjöfinni, en nú er hins vegar sett n. til að athuga bankalöggjöfina án þess að ræða við Alþingi. Það kemur svo fram eins og af tilviljun, að búið er að setja slíka n., og svo nú í grg. fyrir bráðabirgðalögum er talað um, að það eigi að fara að setja einhver ákvæði, sem ríkisstj. ætli að fara að gefa út um þetta atriði. Mér sýnist frágangurinn á svona l. vera eins og einhver framandi hönd sé að verki, sem grípi þarna inn í í sambandi við þessa nýju bankanefnd. Þetta er svo að segja fyrirskipun frá ríkisstj., hvernig þessir hlutir skuli vera. Það hefur aldrei verið minnzt á þessi mál í blöðum og aldrei komið frá ríkisstj. rökstuðningur í þessu máli.

Ég mun ekki ræða frekar þetta mál, sem að sjálfsögðu mun ganga til fjhn. En ég verð að segja það, að það væri viðkunnanlegra, að Alþingi fengi ofur lítið fyllri vitneskju um svona mál en hingað til hefur verið gefin af hálfu ríkisstj.