27.11.1951
Neðri deild: 34. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 945 í B-deild Alþingistíðinda. (1461)

83. mál, Iðnaðarbanki Íslands hf

Viðskmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Fyrir mitt leyti er ekkert við það að athuga, að Samband íslenzkra samvinnufélaga verði þátttakandi í þessu félagi, en ég vil benda hv. flm. á það, að í till. er gert ráð fyrir því, að þetta verði með dálítið öðrum hætti en kveðið er á um í 3. gr. Þar er sagt, að Félag íslenzkra iðnrekenda og Landssamband iðnaðarmanna skuli hvort um sig safna og leggja til 11/2 millj. kr. hlutafé. Með þessu er félögunum lögð kvöð á herðar og það sett sem skilyrði, að þau leggi fram þetta fé. Það virðist því eðlilegast, að það sama verði látið gilda um Samband íslenzkra samvinnufélaga, eða þá að breyta gr. þannig, að einnig verði um heimild að ræða fyrir hin félögin. Ef Samband íslenzkra samvinnufélaga vill ekki vera í sömu tröppu og hinir, þá er nóg, að hlutaféð sé aukið í allt að 8 millj. kr. og að Sambandi íslenzkra samvinnufélaga verði frjálst eins og öðrum að gerast hluthafi. Eins og till. er finnst mér, að Sambandi íslenzkra samvinnufélaga sé gefinn réttur til að hafna og velja, en hinum ekki.