27.11.1951
Neðri deild: 34. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 945 í B-deild Alþingistíðinda. (1462)

83. mál, Iðnaðarbanki Íslands hf

Pétur Ottesen:

Á síðasta þingi lá fyrir eins og nú frv. um stofnun og rekstur Iðnaðarbanka Íslands, og mun það hafa verið í mjög svipuðu formi og það frv. er, sem nú liggur hér fyrir, að öðru leyti en því, að nokkuð hefur verið hækkuð sú upphæð, sem er væntanlegt hlutafé fyrirtækisins. Að öðru leyti mun þetta frv. vera sniðið eftir því frv., sem lá hér fyrir um þetta efni á síðasta þingi. Það frv. fékk afgreiðslu í Nd., en dagaði uppi, eins og það er nú kallað, í Ed. Var þá borin fram till. til rökst. dagskrár, sem fól í sér, að ekki þætti rétt að afgreiða slíkt mál, þar sem fyrir lægi að gera heildarathugun á bankakerfi landsins, og eftir því sem ráða má, mun það hafa verið þessi röksemd, sem hneig undir það, að ekki var gengið til endanlegrar atkvgr. um þetta mál í Ed. og að það dagaði þar uppi, eins og fyrr segir. Ég vil vekja athygli á því, að mér virðist ekki vera alls kostar gott samband á milli þessarar afgreiðslu málsins í fyrra og þess, að málið er nú flutt á ný, því að síðan þeirri afgreiðslu lauk hefur einmitt verið skipuð mþn. af ríkisstj. til þess að athuga og gera till. um bankamál landsins, og er alveg sérstaklega ákveðið, að sú athugun hnígi að því meðal annars að athuga um fjárfestingarstarfsemina í landinu, en það er vitanlega annað meginatriði þessa frv. að lána til fjárfestingar. Á þetta hefur nú þegar verið bent, að ekki sé alls kostar heppilegt að gera jafnstórfelldar breyt. á bankastarfseminni í landinu, meðan svona stendur, eins og það er að fara að stofna nýjan banka. Það hefur nú komið fram undir meðferð þessa máls hér í Nd., að um þetta eru mjög skiptar skoðanir, og eftir atkvgr. þá, sem fram fór hér við 2. umr. málsins, þá kom það í ljós, að meiri hluti er fyrir því hér í d. að afgreiða þetta mál nú á þessu stigi, þrátt fyrir það að enn sé ekki nema skammt á veg komin sú athugun á bankamálum landsins, sem stofnað hefur verið til með skipun þeirrar mþn., sem hefur þau mál með höndum. Ég vil fyrir mitt leyti láta í ljós þá skoðun, að ég tel það ekki vera hyggilegt að gera jafnstórfellda breytingu í þessu máli og í þessu frv. felst, meðan ekki er séð, hvaða till. koma fram um heildarskipun þessara mála. En hins vegar er ég flm. þessa frv. og þeim, sem staðið hafa að afgreiðslu þess hér, alveg sammála um það, að nauðsyn beri til að styrkja nú þegar aðstöðu iðnaðarmanna, þess stóra atvinnurekstrar í landinu, að því er lánastarfsemi iðnaðarins snertir, bæði að því er tekur t il fjárfestingarlána handa iðnaðinum og einnig rekstrarlána honum til handa. En það, sem ber á milli mín og þeirra, sem að þessu frv. standa, er það, að ég tel aðra leið heppilegri til þess að greiða úr þessu máli, sem þá um leið brýtur ekki heldur í bága við það, að ekki sé hyggilegt að vera að gera stórfelldar skipulagsbreyt. á bankastarfseminni meðan svo stendur, að athugun hefur ekki farið fram til hlítar í þessum efnum. Ég hef því miðað till. mínar í þessu máli við það að efla þá lánastarfsemi, sem þegar er fyrir hendi í landinu, og þá í sambandi við iðnaðinn alveg sérstaklega og efla hana allmiklu ríflegar en gert er ráð fyrir í því frv., sem hér liggur fyrir, því að það er vitanlega grundvallaratriði fyrir hverja lánastarfsemi, að hún hafi yfir að ráða sem mestu eigin fé til útlána sinna, því að það skapar skilyrði fyrir lægri vöxtum en þegar um er að ræða fé, sem annaðhvort er sparísjóðsfé eða fé, sem beinlínis er tekið að láni til þess að lána út aftur í þessu augnamiði. — Eins og fyrir liggur, þá hef ég gert hér þá breyt., sem er allstórfelld, við þetta frv., að í stað þess, að stofnaður verði sérstakur iðnaðarbanki, þá verði iðnlánasjóður efldur verulega frá því, sem nú er, eða m.ö.o. að sú upphæð, sem tiltekið er í frv., 3 millj. kr., að verði lögð til iðnlánasjóðs á árinu 1952, til viðbótar því framlagi ríkissjóðs, sem iðnlánasjóður nýtur nú, sem er 300 þús. kr. á ári, — til viðbótar þessum 3 millj. legg ég tel, að iðnlánasjóður fái á næstu 9 árum viðbótarfé, sem nemi 1/2 millj. kr. á ári, þannig að framlag ríkisins til sjóðsins á þessu 9 ára tímabili verði 800 þús. kr. á ári og úr því gildi áfram ákvæðið um 300 þús. kr. framlag til sjóðsins. Með þessum hætti fær iðnlánasjóður 71/2 millj. kr. nýtt fé til starfsemi sinnar á. næsta 9 ára tímabili, og er með þeim hætti bætt mjög verulega aðstaða sjóðsins til þess að sinna hinum margvíslegu verkefnum, sem iðnaðurinn í landinu þarf að leysa í gegnum starfsemi sjóðsins. Ég vil þess vegna, með tilliti til þessa alls, vænta þess, að þessar till. minar geti fengið góðar undirtektir hér, þar sem þær stefna að svo verulegri úrlausn fyrir iðnaðinn í landinu og þar sem enn fremur er ekki hægt að líta svo á, að þær brjóti í bága við það, að þeirri heildarathugun á bankamálum landsins, sem nú stendur yfir, er enn ekki lokið.

Eins og kunnugt er, eru starfandi hér í landinu þrír bankar, þ.e. Landsbankinn, Útvegsbankinn og Búnaðarbankinn, og því er þannig háttað um starfsemi þessara banka yfirleitt, að hún er rekin sem almenn bankastarfsemi, en er ekki nema að litlu leyti tileinkuð neinum sérstökum atvinnuvegi í landinu. Þannig er þetta um Landsbankann, þannig er þetta um Útvegsbankann og einnig um Búnaðarbankann að mjög verulegu leyti, því að allmikill meiri hluti þess fjár, sem Búnaðarbankinn hefur yfir að ráða, er einmitt notaður þar í sambandi við almenna bankastarfsemi. Það, sem tileinkað er landbúnaðinum sérstaklega, eru þrír sjóðir, sem eru ekki nema nokkur hluti og mikill minni hluti af heildarstarfsemi Búnaðarbankans. Ég hef aflað mér fullra upplýsinga um það atriði. — Þegar því þess er gætt, hversu háttað er fyrir okkur um lánaaðstöðu í landinu, þá er held ég ekki hægt að segja, að erfiðleikarnir stafi af því, að hér vanti banka, heldur af hinu, að bankana vanti rekstrarfé til sinnar almennu starfsemi. — Það má náttúrlega einnig í þessu sambandi benda á það, að ætla má, að það yrði miklu kostnaðarminna að efla aðstöðuna hér í landinu til þess að sinna lánsfjárþörf iðnaðarins á þann hátt, sem ég legg til, en með því að fara að stofna nýjan banka.

Rekstur iðnlánadeildarinnar hefur frá upphafi verið í vörzlu Útvegsbankans. Að vísu er iðnlánadeildin skammt á veg komin, það fé, sem hún hefur yfir að ráða, mjög takmarkað, enda er rekstrarkostnaði við hana ákaflega í hóf stillt. Eftir skýrslum, sem hér liggja fyrir um iðnlánasjóð, var allur rekstrarkostnaður deildarinnar 1950 2500 kr., en eftir þeirri athugun, sem gerð hefur verið fyrir mig um kostnað við rekstur slíks banka sem þessa, ef stofnaður væri, mundi það verða svona um 250–300 þús. kr. á ári, eftir því sem mér hefur verið sagt af mönnum nákunnugum öllum bankarekstri. Það sjá þess vegna allir, að þótt rekstrarkostnaður iðnlánadeildarinnar ykist eitthvað við það, að lánaaðstaða hennar væri efld og umsetningin yxi af þeim sökum, þá benda þessar tölur um kostnaðinn við hana til þess, að það yrði aldrei nema brot af því, sem það kostaði að fara að hleypa af stokkunum nýjum banka, og þetta er líka út af fyrir sig atriði, sem vert er að menn geri sér grein fyrir í sambandi við ákvörðun þessa máls, því að ef svo væri, að kostnaður við rekstur iðnaðarbanka næmi þessu fé, 250300 þús. kr., þá sjá allir, að þar með er farið að beina kostnaðinum á það framlag, sem nú er árlega greitt úr ríkissjóði til þess að byggja upp iðnlánasjóðinn.

Já, ég hef þá gert grein fyrir því, sem fyrir mér vakir með flutningi þeirrar brtt., sem hér liggur fyrir, og ætla ég, að það sé ekki hægt að mæla því gegn, að með henni vildi ég sýna fullkomna viðleitni til þess að bæta úr lánsfjárþörf þessa þýðingarmikla atvinnuvegar, iðnaðarins, sem nú er orðinn þriðji höfuðatvinnuvegur landsmanna. Og ég ætla það, að till. mín sé þannig úr garði gerð, að það fé, sem hér er um að ræða að renni inn í iðnaðinn, komi þannig að notum, að ekki færi nema örlítill brothluti þess fjár í raunverulegan rekstrarkostnað við framkvæmd þessa máls samanborið við þá reynslu, sem fengin er um rekstur iðnlánasjóðs að undanförnu.

Ég vil þá enn fremur benda á það, að í l. um iðnlánasjóð er svo ákveðið, að iðnlánasjóði er heimilt að taka lán til útgáfu handhafavaxtabréfa með samþykki ráðh., og þannig hefur iðnlánasjóður aðstöðu til þess að afla sér viðbótarrekstrarfjár með slíkum hætti. Þetta mun hafa verið heldur lítið notað til þessa, vegna þess að slíkt fé mundi verða nokkuð dýrt eða þungt í vöfum, þannig að það skapaði grundvöll fyrir hærri vöxtum, og er það vitanlega miðað við það, hve lítið eigið fé iðnlánasjóður hefur haft til þess að starfa með. En þetta breyttist vitanlega gersamlega við það, ef eigið fé sjóðsins er aukið svo verulega eins og felst í brtt. minni, því að þá skapaði það vitanlega grundvöll fyrir iðnlánasjóð til að starfa jafnframt með fé, sem hann tæki að láni til starfans samkvæmt þeirri heimild, sem í l. felst, þar sem hann getur þá jafnað vextina og fært þá niður með tilliti til þess, að sjóðurinn hefur svo mikið eigið fé til þess að verja til starfsemi sinnar. Ætlunin er, að hann mundi með þessum hætti geta bætt sér upp verulega þann aðstöðumun, sem segja má að sé hjá sjóðnum eins og nú er, frá því sem yrði samkvæmt frv., þar sem gert er ráð fyrir samkv. frv., að iðnaðarbankinn megi einnig reka sparisjóðsviðskipti og afla lánsfjár með þeim hætti. Ég ætla, að þegar svo væri búið að efla iðnlánasjóð að eigin fé, gæti hann með lántöku, eins og heimild er til, veitt sér aukið fjármagn til starfsemi sinnar, nokkuð til þess að mæta því, sem hann fer á mis víð, þar sem ekki er um sparisjóðsstörf að ræða.

Ég skal svo ekki fjölyrða frekar um þetta, en legg þessa till. mína að sjálfsögðu á vald hv. d. og vildi með því sýna viðleitni af minni hálfu til þess að gera verulegt átak til að bæta úr lánsfjárþörf iðnaðatins.