27.11.1951
Neðri deild: 34. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 956 í B-deild Alþingistíðinda. (1467)

83. mál, Iðnaðarbanki Íslands hf

Frsm. meiri hl. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Það var eitt atriði í ræðu hv. þm. N-Þ., sem ég vil ekki láta ósvarað. Ég skýrði hér frá nokkrum tölum í ræðu minni viðvíkjandi lánum úr Búnaðarbankanum og Landsbankanum til atvinnuveganna. Hv. þm. viðhafði þau orð, að þessar upplýsingar væru óáreiðanlegar og nokkuð skorti á, að heimildir mínar væru nægilega traustar. Þessar upplýsingar, sem ég fór með, og tölurnar, sem ég las hér upp, eru eins nákvæmar og frekast var kostur á að fá, því að þessar upplýsingar voru frá hæstv. viðskmrh.. en hann fékk þessar skýrslur frá bönkunum. Hv. þm. taldi, að hann vissi betur en þessar skýrslur, en ég dreg það mjög í efa, að hann viti betur um þetta en hæstv. ráðh., sem hafði sína skýrslu beint frá bönkunum.