11.12.1951
Efri deild: 41. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 961 í B-deild Alþingistíðinda. (1487)

83. mál, Iðnaðarbanki Íslands hf

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég hef ekki skilað nál., enda var ég ekki við þær umr., sem fram fóru í n., því að þegar mér var sýnt fundarboðið, sem boðaði þennan fund, þá var ég fastur á öðrum fundi og datt þá ekki í hug, að tekin yrði endanleg afstaða til málsins, því að ég leit þannig á, að það væri allmikils um vert, að þetta mál væri sæmilega vel rannsakað og athugað í n. N. reyndi að gera það í fyrra, en ýmislegt af því, sem sagt er nú, er byggt á staðreyndum frá í fyrra.

Þegar málið var til umr. í fyrra, drógust inn í það bankamál almennt. Þá var öllum ljóst, að það þurfti að endurskoða bankalöggjöfina í heild, og ríkisstj. varð líka við þeim óskum Alþ. í fyrra, að sú endurskoðun færi fram, með því að skipa mþn., sem á að rannsaka hankamálin í heild og gera till. viðvíkjandi framtíðarskipun bankamálanna. En þegar ríkisstj. er búin að setja þessa n. og von er á áliti frá henni á næsta ári, þá er hlaupið til á Alþ. og byrjað á því að stofna nýjan banka, sem að nafninu til á að vera til þess að efla iðnaðinn. Annar banki í landinu hefur það hlutverk með höndum að efla sjávarútveginn og iðnaðinn. Það hafa staðið í útlánum hjá iðnaðinum 60– 70 millj. frá Landsbankanum, og þar fyrir utan eru lán, sem frystihúsin hafa fengið, og það er óhætt að segja, að iðnaðurinn hafi nú í lánum frá Útvegsbankanum og Landsbankanum 80–90 millj. og líklega meira. Þess vegna finnst mér, frá þessu almenna sjónarmiði, að það sé fjarstæða að fara að samþ. frv. um nýjan banka eins og nú standa sakir; það eigi að bíða eftir því að heyra, hvað mþn. segir og hvort þingið getur fallizt á hennar till., og geti það það ekki, þá tekur það upp nýja línu og veitir það fé, sem kemur úr mótvirðissjóðnum, inn í atvinnulífið.

Hvað iðnaðinn snertir, þá lít ég svo á, að þetta sé gagnvart honum hinn mesti bjarnargreiði og sé langt frá því, að honum sé á þennan hátt gert nokkuð gott. Við skulum fyrst líta á það, sem hér er þó aukaatriði, að iðnaðarmenn koma með sparisjóð, sem heitir Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis. Iðnaðarmenn eru að öllu leyti ábyrgðarmenn hans og stjórnendur hans. Eftir því sem ég veit bezt, fara 70% af útlánum hans ekki til íðnaðarins, heldur í hús í Reykjavík. Þörf iðnaðarmanna, sem eiga sinn sparisjóð og ráða yfir honum til þess að veita það fé í iðnaðinn, hefur ekki verið ríkari en þetta, að þeir láta 70% í húsabyggingar. Þetta er aukaatriði, en sýnir, að þörfin fyrir þetta, sem hér er talað um, er ekki ein, mikil og menn vilja vera láta. Hitt er aðalatriði, hvernig þetta verkar á fjármálalífið í landinu, og hins vegar, hvernig það verkar til iðnaðarins sjálfs. Það er ætlazt til, að tvö sambönd þarna komi með sína hálfa aðra milljónina hvort inn í þennan nýja banka, Félag íslenzkra iðnrekenda og Landssamband iðnaðarmanna. En hvar ætla þeir að fá þetta fé? Hafa þeir það geymt heima hjá sér? Ef þeir hafa það, þá mundi það koma inn í atvinnulífið og þá mundi vera til bóta að fá það út úr þeirri geymslu. En ég geri ekki ráð fyrir, að svo sé. Ég trúi ekki öðru en þeir verði að fá þessa 11/2 millj. til láns úr lánsstofnunum, og hvað skeður þá? Hvernig gengur að fá lán hjá lánsstofnunum? Það gengur ákaflega illa, hvaða trygging sem er í boði. Þess vegna er það ekki til að bæta ástandið á peningamarkaðnum, ef 3 millj. eru teknar úr bönkunum, sem nú eru, og settar í nýjan banka, sem eingöngu ætti að sjá um iðnaðinn. Hinn nýi banki lánar ekki kaupmönnum fyrir vöruvíxlum eða útgerðarmönnum fyrir útgerðarvörum, heldur iðnaðinum. Þessir peningar eru því dregnir út úr því venjulega starfssviði og inn í rekstrarlán hjá iðnaðinum til viðbótar við það, sem hann hefur hjá bönkunum nú af lánum, sem er um 64 milljónir. — En hvernig verkar þetta svo fyrir iðnaðinn sjálfan? Báðir bankarnir leggja ákveðið á móti þessu og eru ákveðnir í því, ef þessi banki verður stofnaður, að hætta að lána iðnaðinum; það hefur maður heyrt hjá þeim báðum. Nú vil ég spyrja: Ef bankarnir segja upp þessum 60 millj., hvernig er þá iðnaðurinn staddur? Er það þá nokkur greiði, sem veríð er að gera honum með því að búa til þennan nýja banka? Það er síður en svo. Nú kunna mörg af þessum lánum, 64 milljónum, að vera til langs tíma. Ég veit ekki til þess, að neitt hafi verið gert af n. hálfu til að fá upplýst, hversu mikið af þessum lánum bankanna til iðnaðarins eru föst lán og hversu mikið rekstrarlán. Enn fremur hefur n. ekki beðið eftir því, að hv. 8. þm. Reykv. (RÞ) fengi tíma til þess að mynda sér skoðun á málinu. Það fer mikið eftir því, hvað eru föst lán og hvað rekstrarlán, hvort rétt er að samþ. þetta frv. Sé mikið af þessum lánum rekstrarlán, þá get ég ekki séð, hvernig þessi nýi banki, með rúmar 6 millj. kr., geti komið að nokkru liði. Mér finnst því málið þess eðlis, að ekki eigi að afgreiða það að svo stöddu. Hitt er svo annað mál, að maður fari inn á till. hv. þm. Seyðf. um að efla iðnlánasjóð, sem þegar er fyrir hendi, og láta þessar 31/2 millj. kr. fara til hans. Nú hefur ríkisstj. ákveðið að leggja 3 millj. til iðnaðarins, og mundu þær þá einnig renna til sjóðsins. — Ég mun því verða á móti þessu máli, en fylgja till. hv. þm. Seyðf., þar eð ég get fellt mig við þá lausn, sem þar kemur fram, enda þótt ég teldi réttara, að mótvirðissjóði yrði ráðstafað í heild, áður en farið er að veita einstakar fjárveitingar úr honum.

Með þessu tel ég mig hafa lýst afstöðu minni til þessa máls. En ég vil enn einu sinni fara fram á, að málið verði rannsakað betur af hv. iðnn., því að það skiptir mestu máli í þessu efni. að öll gögn, er málið varða, liggi fyrir og til undirbúnings þess verði vandað sem mest.