11.12.1951
Efri deild: 41. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 965 í B-deild Alþingistíðinda. (1490)

83. mál, Iðnaðarbanki Íslands hf

Frsm. meiri hl. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Hv. þm. Barð. hefur nú sagt margt af því, sem ég ætlaði að minnast á, en það eru nokkur atriði, sem ég þarf að minnast á.

Ég vil segja það, að ég hef aldrei staðið framarlega í iðnaðarmálum eða litið á mig sem einhvern bjargvætt iðnaðarins. Hitt er svo annað mál, að þegar verksvið hans er orðið jafnstórt og landbúnaðarins og sjávarútvegsins, þegar hann er orðinn fyllilega hliðstæða þeirra, þá tel ég það skyldu mína og allra hv. þm. að taka tillit til réttmætra óska þeirrar stéttar. Hún óskar sér þess hlutskiptis, sem er henni til heilla, og þó að við höfum á sumu aðrar skoðanir, þá held ég, að við verðum að taka tillit til óska hennar. Í bréfi, dags. 4. apríl 1949, sem sent var af Félagi íslenzkra iðnrekenda til iðnn., segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Frumvarp þetta er þannig til orðið, að á s.l. sumri skrifaði iðnmrh. bréf til Landssambands iðnaðarmanna, með beiðni um, að sambandið semdi frv. til laga um iðnaðarbanka. Sambandsstjórnin lagði mál þetta síðan fyrir iðnþing Íslendinga, sem háð var í Reykjavík síðastliðið haust. Iðnþingið samþykkti að bjóða Félagi íslenzkra iðnrekenda að tilnefna tvo fulltrúa, er ásamt tveimur fulltrúum frá Landssambandi iðnaðarmanna skyldu semja frumvarp til laga um iðnaðarbanka. Félag íslenzkra iðnrekenda varð vel við þessum tilmælum. Nefndin varð endanlega þannig skipuð, að Sveinbjörn Jónsson byggingarmeistari og Þorsteinn Sigurðsson húsgagnasmíðameistari áttu sæti þar fyrir hönd Landssambands iðnaðarmanna, en H. J. Hólmjárn efnafræðingur og Páli S. Pálsson lögfræðingur fyrir hönd F. Í. I.“

Svo er því lýst, að n. hafi haldið marga fundi um málið og orðið sammála um frv. þetta.

Það er gömul plata, sem hv. 1. þm. N-M. spilar hér. Hann beitir málþófi og talar um, að málið sé ekki nægilega rannsakað, og bendir í því sambandi á nefnd þá, sem hæstv. ríkisstj. hefur skipað til að endurskoða bankalöggjöfina í heild. Um þetta vildi ég segja í fyrsta lagi, að ég get ekki séð. að það hindri störf þessarar n. á neinn hátt í sinni endurskoðun, þótt þetta frv. verði samþ. Í öðru lagi höfum við þá sorglegu reynslu, að slíkar n. sitja lengi á rökstólum og skila ekki áliti fyrr en seint og síðar meir. Ég vil þó ekki með þessum orðum mínum á neinn hátt halda því fram, að svo kunni að fara um bankamálanefndina.

Hv. þm. (PZ) fullyrti hér ámislegt um lán til iðnaðarins. Það er nú svo, þegar menn eru að fullyrða hitt og þetta um skuldir annarra, að þá er ekkert við það annað að gera en láta það fara inn um annað eyrað, en út um hitt. Maður læfur það líka sem vind um eyrun þjóta, þegar menn eru með þær fullyrðingar, að bankastjórar hinna bankanna muni hætta að lána iðnaðinum, ef þessi nýi banki verði stofnaður. Mér kemur ekki til hugar, að bankarnir létu slíkt frá sér fara. [Frh.]