13.12.1951
Efri deild: 42. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 969 í B-deild Alþingistíðinda. (1496)

83. mál, Iðnaðarbanki Íslands hf

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég kippi mér ekkert upp við það, þó að sagt sé, að ég sá fjandmaður þessa og þessa, og skal ekkert vera að bera það af mér. Það er út af fyrir sig rétt, að ég hef að því leyti verið á annarri skoðun en þeir, sem eru að nudda sér upp við ákveðinn flokk manna, að ég tel, að það sé mjög rangt, sem gert er, þegar iðnaðinum í landinu er sköpuð önnur og betri aðstaða en öllum öðrum með því að láta það, sem hann framleiðir, vera undir allt öðru tollnúmeri en efnið í það, — þegar efnið í eina mansjetskyrtu er ekki nema nokkrir aurar í toll, en langtum meiri tollur af henni sjálfri til þess að styðja iðnaðinn og þar með skapaður iðnaður, sem oft á engan tilverurétt. Að þessu leyti má segja, að ég sé ekki vinur iðnaðarins. Ég vil láta gera það, sem borgar sig bezt. Ég vil ekki láta Alþ. með opinberum ráðstöfunum styðja að annarri framleiðslu en heppilegt er, en það álit ég t.d. að hafi verið gert sér staklega mikið þegar tollskráin var umsamin milli 1930–1940, og henni hefur ekki verið breytt siðan hvað þetta snertir. Hitt er annað mál, að ég tel mig engan fjandmann iðnaðar, sem er heilbrigður og stenzt samkeppni, en iðnaðinum sjálfum hefur fram að þessu verið sköpuð önnur sérstök aðstaða, svoleiðis að þess vegna hefur hann þróazt, og er spurning, hvort hann gæti það, ef hann hefði ekki þá tollvernd, sem hann hefur.

Hv. þm. Vestm. hefur verið að mótmæla ýmsu, sem ég hef sagt, og sagði, að það hefði mátt mynda það allt í einni setningu, — það, að ég væri á móti málinu. Þegar maður er á móti einhverju máli, þá renna undir það ýmsar stoðir, og ef maður vill gera grein fyrir sinni skoðun, þá neyðist maður til þess að benda á það, sem er orsökin til þess, að maður hefur þessa skoðun, og það hef ég reynt að gera. En hv. þm. Vestm. reyndi ekki að tala um neitt atriði, sem er undirstaðan undir því, hver er mín skoðun í málinu. Nú skal ég reyna að fá fram hjá honum eða hv. þm. Barð. einhverja vörn við einhverju af því, sem ég hef fram að bera í málinu og er orsök til minnar afstöðu í því.

Þá skulum við fyrst koma að því, að hv. þm. Barð. var í fyrra fylgjandi því að skipa mþn. til að rannsaka bankamálin í heild. Það var gert. Þá vildi hann vita, hvernig iðnlánasjóði væri varið. Nú höfum við fengið skýrslu um, að það hafi verið lánað 400 þús. kr. úr sjóðnum. Nú vill hann vita, hvernig þessu hafi verið breytt frá því í fyrra. Í fyrra var það undirstaðan, að hann vildi vita, hvernig þetta stóð, og taldi ekki, meðan iðnlánasjóður gæti lánað 400 þús. kr., mikla þörf á því að mynda nýjan banka. Nú varðar hann ekkert um það. Það var upplýst í Nd. í fyrra, að það væru 64 millj. frá bönkunum í lánum hjá iðnaðarmönnum, og það var upplýst, að ef þeir sköpuðu sér banka, þá mundi a.m.k. ekki vera eins greiður gangur að lánsfé í hinum bönkunum. Nú vildi ég vita, hvort þetta hefði breytzt síðan í fyrra. Bankastjórarnir segja í sínu áliti, að sparifé verði ekki fengið í þessu skyni nema úr hinum bönkunum, sem fyrir eru. Þeir segja orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Hins vegar er ekki loku fyrir það skotið, að nýr banki gæti aflað nokkurs sparifjár, sem tekið yrði úr öðrum lánsstofnunum, en slíkt mundi að sjálfsögðu þýða það, að hinar sömu stofnanir yrðu að draga úr útlánum sínum að sama skapi sem sparifé þeirra minnkar.“

Þetta segja bankastjórar allra bankanna þriggja. Ég spurði að því í gærdag og spyr aftur nú þá hv. þm. Barð. og hv. þm. Vestm.: Hafa iðnaðarmennirnir þessar 3 milljónir heima hjá sér? Ef þeir þurfa að taka það úr öðrum bönkum, þá liggur beint fyrir, að lánastarfsemin til iðnaðarins minnkar frá hinum bönkunum. Ég álít, að um leið og settur er á stofn iðnaðarbanki, þá verði að segja upp þessum 64 milljónum. Þeir segja, hv. þm. Barð. og hv. þm. Vestm., að það hafi ekkert verið talað um þetta, þegar verið var að stofna Búnaðarbankann. Það var talað um það þá, að 8.4% af útlánum bankanna væri hjá bændum. Nú töldu þeir hv. þm. Vestm. og hv. þm. Barð., að það væri alger aðdróttun hjá mér að láta þá skoðun í ljós, að hinir bankarnir mundu ekki vera eins liðlegir á að lána iðnaðarmönnum, eftir að þessi iðnaðarbanki væri tekinn til starfa. Nú skulum við hugsa okkur, að hv. þm. Vestm. væri bankastjóri og hann ætti að sjá um útveginn og lána til iðnaðar- og verzlunarmanna. Og við skulum segja, að hann gerði það og færi að draga saman þetta veltufé, sem hann hefði með höndum, fyrir þessar þrjár atvinnugreinar, sjávarútveg, verzlun og iðnað, og hann reyndi að halda því í jöfnum hlutföllum, eftir því sem honum fyndist, að það ætti að vera. En svo kæmi Alþingi og segði: Nú tökum við frá þér skylduna til að lána iðnaðinum, því að nú er kominn nýr banki, sem lánar þeim. — Mundi hann þá segja nei? Hvað mundi hann sjálfur gera? Getur hv. þm. sett sig í spor bankastjóra í þessu tilfelli?

Og við skulum taka hv. þm. Barð. og setja hann í spor bankastjóra, sem sérstaklega hugsar um verzlun, en hann ætti samt sem áður að sjá um lán til þessara þriggja atvinnugreina, sem ég nefndi áðan. Nú skulum við segja, að það komi iðnaðarmaður til hans og hann vanti tryggingu í bankanum til að fá vörur afgreiddar. Ætlar hann þá að neita að afgreiða manninn, þó að kominn sé iðnaðarbanki? Ég hugsa, að báðir þessir bankastjórar mundu verða þeirrar skoðunar — sem þeirra skylda væri — að sjá um að útvega það, sem maðurinn þarfnaðist.

Ég vil gjarnan fá svör við þessu. Það er miklu léttara að segja, að það sé aðeins um formsatriði að ræða, en að þurfa að svara rökum þeim, sem ég ber fram fyrir því, að það eigi ekki að stofna þennan banka. Það má endurtaka það, að ríkið ætlar að veita iðnaðinum 3 millj. kr., og það fé kemur því til viðbótar í lánastarfsemi, eftir því sem ríkissjóður hefur aflögu frá ári til árs, svo að það verður að taka hitt fjármagnið frá iðnaðarmönnum. Nú spyr ég aftur eins og fyrr: Hvaðan eiga þessir peningar að koma? Á að leggja þá fram sem innlánsfé? Verður það ekki tekið úr hinum bönkunum? Og meta þeir ekki lánaþörfina að sama skapi, eftir því sem féð er flutt úr bönkunum í hinn nýja banka? Bætist nokkurt innlánsfé þarna við? Ef hv. þm. geta komið með rök fyrir því, að hér við bætist 3 millj. kr., sem ekki eru nú í bönkunum, þá munu mín rok falla. En um leið og 3 millj. kr. eru teknar úr einum bankanum og færðar í annan, þá dregur eftir því úr lánastarfsemi þess banka. Alveg eins, ef einhver færir viðskipti sín úr þessum banka og í þennan nýja banka, er langlíklegast, að það yrði til að torvelda og binda peningana fyrir þeim, sem þyrftu að fá þá að láni. Þá segi ég: Betra er að lána iðnaðarmönnum strax þessar 3 millj. kr., sem ríkið ætlar að leggja til í bankastofnunina, og tryggja þannig iðnaðinum fyrir fram styrk. Og vera má, að þær komi upp á móti því, þegar allt kemur til alls, sem iðnaðarmenn ætla að leggja fram af sinn fé nú, því að þegar kemur til með að nota þetta fé til uppbyggingar atvinnulífinu, þá er það orðið bundið. Þess vegna fullyrði ég, að það er ekki á neinn hátt greitt fyrir iðnaðinum með því að stofna þennan banka nú. Það er síður en svo. Það er miklu meiri fyrirgreiðsla fyrir hann að tryggja, að fé úr mótvirðissjóði renni til iðnaðarins og þá kannske í þennan iðnaðarbanka, eftir því sem bankanefndinni fyndist, heldur en að bera það nú fram, meðan n. er að athuga, hversu rétt það er og hvernig innlánsfé eigi að skiptast á milli iðngreinanna og hvernig lánastarfseminni verði hagkvæmast fyrir komið til þess að ná því marki.

Þá er eitt í þessu efni, og það er kannske ekki beint hægt að segja, að það séu nein rök á móti þessu máli út af fyrir sig, en þó er það skoðun mín, að yfirleitt hafi verið of mikið uf hönkum í landinu. Og það mundi verða ódýrara og kostnaðarminna fyrir þjóðarheildina að hafa þá færri, en eftir því dýrara, sem bankarnir verða fleiri. Ég færi það samt ekki fram sem rök fyrir þessu máli út af fyrir sig, en þetta kemur til ályktunar hjá bankanefndinni og í þeim umr., sem verða hér á þinginu, þegar málið kemur fram og verður rætt.

En ég vil fá einhver svör við því hjá þeim mönnum, sem halda fram þessu frv., hvernig háttað er með Sparisjóð Reykjavíkur. Ég veit ekki annað en að Sparisjóður Reykjavíkur hafi verið stofnaður fyrir iðnaðarmenn, og iðnaðarmenn stjórna honum. Ég veit ekki annað en að innlánsfé hans sé 22 millj. kr., og ég veit ekki betur en að það fé sé í útlánum. Ef þörf iðnaðarmanna fyrir lán verður ekki meiri en það fé, sem þeir að sumu leyti hafa nú yfirráð yfir í sparisjóði, þá spyr ég: Hvað á þá að gera við þennan nýja banka? Er trygging fyrir því, að fé úr honum verði varið til lána, sem þeir telja nú svo brýna þörf á? Hvernig stendur á þessu? Ég vildi gjarnan fá að vita eitthvað um þetta, en eins og meðferð málsins er í n., þá hefur ekki verið reynt að afla upplýsinga um þetta. Þetta var ekki reiknað út í fyrra, a.m.k. ekki mér vitandi. Hins vegar var reiknað út, hversu mikið fé væri nú í bönkunum, og það liggja fyrir upplýsingar um það. En liðið er ár síðan þetta var reiknað út, og genginu hefur verið breytt.

Ég sé ekki annað en, ef það er rétt, sem ég heyrði alveg nýlega, að enn þá fengist fé frá sparisjóði iðnaðarmanna til húsabygginga, að þá sé það mótsögn á móti lánaþörfinni, sem þeir telja að sé, því að þeir gætu þó fullnægt lánaþörfinni, það sem hún nær, með því fé, sem þeir eiga yfir að ráða í sínum sparisjóði. Og það er ekki ástæða til þess að ætla, að þeir láni það ekki til iðnaðarmanna og líka til annarrar starfsemi meira en þeir hafa gert. En ég þori ekki að fullyrða, hvort þetta hafi verið gert á síðastliðnu ári, það liggur ekkert fyrir um það. En þetta er eitt af því, sem ég vildi gjarnan fá að vita.

Mér finnst þess vegna það vera alveg sjálfsagt fyrir þá menn, sem vilja iðnaðinum vel, og ef maður lítur á, hvernig tímarnir eru nú, að koma í veg fyrir það, að ráðizt verði í þessa bankastofnun. En í þessu máli tel ég, að megi vel koma því svo fyrir, að þeir fái lán til sins rekstrar, og ég tel bezt fyrir því séð með því að láta iðnaðinn fá það fé, sem við höfum til umráða og hv. þm. Seyðf. lagði til, sem sé 3.3 millj. kr., og tryggja iðnaðinum með því fé, en það getum við staðið við að minnsta kosti. Og með því verður þá slegið föstu, að minnsta kosti til bráðabirgða, að fé úr mótvirðissjóðnum rennur þá til iðnaðarins. En þær tölur, sent bornar eru fram af hv. þm. Barð. og hv. þm. Vestm., eru bara út í bláinn, án þess að þeir séu búnir að gera sér grein fyrir því, hvernig mótvirðissjóðurinn eigi að renna út í atvinnulífið. En verkefni mþn. er að athuga, hvernig því fé verði ráðstafað og hvernig mótvirðissjóður á að renna út í atvinnulífið, eftir að féð kemur til baka frá þeim stórvirkjunum og áburðarverksmiðju, sem það hefur verið lánað til. Og ég tel, að iðnaðinum verði gert meira gagn með því að samþ. till. hv. þm. Seyðf., sem ég mun fylgja, heldur en með því að stofna einn banka í viðbót, sem verður síðar aðeins hermdargjöf.